Björn Bjarnason skrifar:
Talaði Oddný fyrir sína hönd eða Samfylkingarinnar í þessum umræðum? Þögn forystu nýju Samfylkingarinnar í brýnum úrlausnarmálum er hrópandi.
Sigling Samfylkingarinnar á toppi skoðanakannana heldur áfram. Á hinn bóginn verður æ óljósara fyrir hvað flokkurinn stendur. Stór stefnumál hverfa með gamla flokksmerkinu og flokksnafninu. Hvað kemur í staðinn?
Samfylkingin lítur á sig sem ráðandi afl í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar talar hins vegar nýr borgarstjóri Framsóknarflokksins, Einar Þorsteinsson, eins og breyting hafi orðið í afstöðu til framtíðar Reykjavíkurflugvallar og skipulags byggðar utan þéttbýlis við brottför Dags B. Eggertssonar úr borgarstjórastólnum.
Nýi borgarstjórinn hafði ekki fyrr sleppt orðinu um þessar breytingar en hugmyndafræðingur Samfylkingarinnar í borgarstjórn, Hjálmar Sveinsson, sagði að ekkert breyttist með nýjum borgarstjóra. Framsóknarmenn hefðu að vísu fengið þá dúsu við myndun meirihlutans að skipuleggja ætti 100 lóðir á Kjalarnesi. Við það yrði staðið.
Einar Þorsteinsson getur gripið til sýnilegra aðgerða til að sanna að hann lúti ekki afturhaldi og hugsjónum Samfylkingarinnar í borgarstjórn. Einfaldast væri að ráðast í að auka flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli með því að grisja tré á suðvestur hlið Öskjuhlíðar.
Fyrir 10 dögum stofnaði Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, til sérstakrar umræðu á alþingi um útvistun heilbrigðisþjónustu. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að endurnýjun á stefnu flokksins hafi byrjað á sviði heilbrigðismála.
Nú hefði má búast við að Kristrún eða annar fulltrúi nýju Samfylkingarinnar í sex manna þingflokki hennar notaði þessa sérstöku þingumræðu til að kynna atriði úr nýju heilbrigðisstefnunni og hvað þar segir um útvistun.
Nei, því var ekki að heilsa. Í umræðum sem þessum fær hver þingflokkur tvo ræðutíma og venjulega tala tveir þingmenn fyrir flokkana. Þetta á þó ekki við um fámenna flokka eins og Miðflokkinn, þar eru þingmenn aðeins tveir. Formaðurinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sinnir ekki málaflokkum sem þessum og talaði Bergþór Ólason tvisvar í umræðunni. Kristrún Frostadóttir lét hins vegar ekki svo lítið að láta sjá og talaði Oddný Harðardóttir tvisvar fyrir Samfylkinguna.
Oddný lét þess ekki getið að hún kynnti stefnu nýju Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum. Í fyrri ræðu sinni sagði hún nauðsynlegt að breyta lögum til að koma í veg fyrir að það ástand gæti ríkt árum saman að einungis þeir sem hefðu ráð á að greiða umtalsverðar upphæðir utan greiðsluþátttökukerfis ríkisins gætu nýtt sér heilbrigðisþjónustu í einkarekstri. Spyrja má hvort hún vilji banna þennan einkarekstur með lögum? Upphaf seinni ræðu hennar bendir til þess: „Ríkisstjórninni er að takast að búa til markað fyrir einkaaðila og gróðavon úr skortstefnu í velferðarkerfinu.“
Talaði Oddný fyrir sína hönd eða Samfylkingarinnar í þessum umræðum? Þögn forystu nýju Samfylkingarinnar í brýnum úrlausnarmálum er hrópandi. Er Kristrún fylgjandi tjaldbúðastefnu Dags B. í útlendingamálum? Á niðurstaða mála að ráðast meðal tjaldbúa á Austurvelli eða í Alþingishúsinu?