Gíslar í höndum Hamas

frettinBjörn Bjarnason, ErlentLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Hér er mótmælt og sótt með offorsi að utanríkisráðherra í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna með kröfum um að íslensk stjórnvöld sæki Palestínumenn sem eru gíslar Hamas á Gaza.

Fréttir herma að þriðjudaginn 6. febrúar hafi Hamas svarað tillögum frá fulltrúum Bandaríkjanna, Ísraels, Katar og Egyptalands um vopnahlé á Gaza. Talið er í dag 7. febrúar ræði Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, svar Hamas við embættismenn í Ísrael. Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði svarið dálítið einkennilegt og taldi að Ísraelar væru ekki sáttir við kröfur Hamas.

BBC segir að hugsanlegt samkomulag kunni að fela í sér sex vikna hlé á átökum til að fram fari skipti á ísraelskum gíslum í höndum Hamas og palestínskum föngum í haldi Ísraela.

Í samtali við BBC sagði fulltrúi Hamas að samtökin vildu breytingar á samkomulaginu varðandi endurreisn á Gaza, heimkomu þeirra sem lent hefðu á hrakhólum á Gaza og ákvæði í þágu þeirra sem ættu í ekkert hús að venda.

Hamas hefur haft viku til að skoða þessar tillögur. Tíminn er svona langur vegna þess að þeir sem um málið véla af hálfu Hamas eru í felum í mörgumn löndum og sumir hugsanlega enn neðanjarðar undir Gaza. Öll samskipti hryðjuverkastjóranna þurfa að vera með þeim hætti að ekki sé unnt að staðsetja síma þeirra eða önnur fjarskiptatæki. Þeir haga sér með öðrum orðum á sama hátt og stjórnendur skipulagðra glæpasamtaka.

Graf/mbl.is

Hér er mótmælt og sótt með offorsi að utanríkisráðherra í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna með kröfum um að íslensk stjórnvöld sæki Palestínumenn sem eru gíslar Hamas á Gaza. Í þessum mótmælum og spurningum fréttamanna er öllu snúið á hvolf. Þar er látið eins og upptök alls þess illa sem gerist á Gaza sé hjá Ísraelum.

Undirrótin er grimmd og hatur Hamas sem árum saman hefur stjórnað Gaza og búið um hryðjuverkamenn sína í skólum, sjúkrahúsum og neðanjarðar. Hamas-liðar eru raunverulegir óvinir íbúa Gaza.

Takist ríkjunum fjórum ekki að semja við Hamas halda átökin áfram. Að því sé haldið að Íslendingum með hrópum á Austurvelli og yfirgangi í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna að íslensk stjórnvöld geti náð einstaklingum, frændfólki þeirra sem búa hér á landi, úr klóm Hamas er reist á blekkingaráróðri.

Kröfurnar ganga einnig lengra en íslensk lög heimila þegar um fjölskyldusameiningu er að ræða. Gloppurnar eru nógu margar í útlendingalöggjöfinni þótt ekki sé vísvitandi staðið að því að brjóta hana vegna frekju mótmælenda.

Körfurnar eru um að enn verði aukið á útgjöld og þjónustu vegna útlendingamála. Í fyrra runnu meira en 20 milljarðar króna í beinn kostnað við útlendinga, þá aðallega hælisleitendur. Upphaflega voru um 15 milljarðar áætlaðir í útlendingamál árið 2023 en útreikningar dómsmálaráðuneytisins sýna að útgjöldin námu um 33% meira en áætlað var.

Þetta kerfi er hrunið en alþingismenn hika við gagnaðgerðir og þola þetta útstreymi fjár af ástæðum sem þeir fá ekki lengur skýrt með neinum rökum. Stuðningsmenn óbreytts kerfis og aukinna útgjalda með móttöku enn fleira fólks treysta orðið á að afl mótmælenda utan þinghússins og í fréttasettum sjónvarpsstöðvanna. Öfgamenn vega að heilbrigðum stjórnarháttum.

Skildu eftir skilaboð