Björn Bjarnason skrifar:
Á það var bent á Facebook að slagorðið Látum náttúruna njóta vafans fengi á sig annan blæ þegar staðið væri frammi fyrir skorti á heitu vatni og rafmagni í Reykjanesbæ og Suðurnesjum.
Þeir sem helst nota þetta slagorð starfa undir merkjum samtakanna Landverndar. Þegar framkvæmdastjóri þeirra var spurð að því á dögunum hvað henni þætti um áform um að reisa varnargarða til að halda hraunflæði frá mikilvægum mannvirkjum og mannabyggð í nágrenni jarðeldanna, sagðist hún þurfa að hugsa málið fram yfir helgi!
Menn geta rétt ímyndað sér hvernig staðan væri í Grindavík ef farið hefði verið að reglum um umhverfismat og öllu sem því fylgir áður en hafist var handa um gerð varnagarðanna.
Í stað þess að fallast á sjónarmið þeirra sem vilja auka framleiðslu á sjálfbærri orku láta þeir sem vilja að náttúran njóti vafans eins og skynsamlegra sé að slökkva á einhverju sem fyrir er, þrengja að frekar en fjölga orkugjöfunum.
Atburðirnir nú sýna að miklu meiri fyrirhyggja er nauðsynleg í mörgu tilliti til að tryggja stöðu mannsins í sambúðinni við náttúruöflin hér á landi. Við töku lykilákvarðana verður að hugsa mun lengra fram í tímann en mörgum er tamt að gera við töku ákvarðana á stjórnmálavettvangi.
Það er til dæmis ótrúlegt að enn skuli fyrrverandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, tala fyrir flugvelli í Hvassahrauni í von um að geta lokað Reykjavíkurflugvelli. Undir merkjum þess að náttúran eigi að njóta vafans hefur Dagur B. beitt sér gegn því að skógur sé grisjaður í Öskjuhlíð til að tryggja betur flugöryggi á vellinum í Vatnsmýrinni.
Oft hefur verið spurt í áranna rás hvaða flóttaleiðir kynnu að vera opnar úr Reykjavík ef til hamfara kæmi nær höfuðborginni en nú er.
Í um aldarfjórðung hefur verið rætt um nýja leið til og frá borginni, Sundabraut. Á 10 ára ferli Dags B. sem borgarstjóra komst málið ekki af umræðustigi. Hvað með leið frá Álftanesi yfir Skerjafjörð í stað ofurdýrrar pjattbrúar sem kynnt hefur verið úr Kársnesi í Nauthólsvík?
Það eru ekki aðeins virkjanir sem lenda í undandrætti vegna þess að náttúran á að njóta vafans heldur einnig flutningsleiðir orku. Við núverandi ástandi vegna orkuskorts mætti bregðast með nýrri raflínu milli norður og suður hluta landsins. Þessi lína kemst ekki í gegnum frumskóg regluverksins.
Á sama tíma og við blasa þáttaskil vegna jarðelda á Reykjanesi fjölmenna þeir sem vilja galopna landamærin til mótmæla því við lögreglustöðina í Reykjavík að farið sé að lögum um brottvísun þeirra sem hafa ekki lögheimild til að dveljast hér.
Við neyðaraðstæður loka ríki landamærum sínum en galopna þau ekki eða fara á svig við lög til að flóttamenn njóti vafans.
Frumskylda stjórnvalda er að gæta öryggis eigin borgara. Bregðist þau þeirri skyldu er voðinn vís