Vindorka er algjört fjárhagslegt glapræði og tómur taprekstur – reynsla frá Svíþjóð

frettinErlent, Gústaf Skúlason, OrkumálLeave a Comment

Gústaf Skúlason skrifar:

Þegar vindorkuverið Markbygden var vígt, þá var talað um hin svokölluðu grænu umskipti sem byltingu í orkumálum. Þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra Svíþjóðar, Maud Olofsson, skálaði í kampavíni. Í dag er staðan önnur og græna orkustefnan gjaldþrota.

Árið 2022 tapaði vindorkuiðnaðurinn 4,3 milljörðum sænskra króna (30,4 milljarðar íslenskar krónur) og eru vandamálin verst í norðurhluta landsins þar sem stækkun vindmylla ógnar einnig hreindýralífi og búskap Sama. Ein af ástæðum tapsins var skortur á vindum. Frá árinu 2017 hefur samanlagt tap vindorkufyrirtækjanna numið 13,4 milljörðum sænskra króna (177 milljarðar íslenskar kr.).

Sérfræðingar vara við eilífum taprekstri

„Markbygden Ett“ er stærsta fyrirtækið með 179 af um 500 fullbúnum vindmyllum til þessa. Fyrirtækið hefur milljarða skuldir og er í ferli greiðslustöðvunar. Samtímis vara sérfræðingar við meira fjárhagstjóni í greininni.

Eitt af vandamálum Markbygden Ett er, að ekki tókst standa við samninga um afhendingu raforku. Var það meðal annars vegna tæknilegra vandamála. Þurfti fyrirtækið því að kaupa rafmagn á umtalsvert hærra verði á markaði en félagið fékk greitt fyrir eigin rafmagnsframleiðslu.

Kreppuiðnaður

Christian Sandström, lektor við Alþjóðlega verslunarskólann í Jönköping, hefur búið til gagnagrunn um fjármál vindorkufyrirtækja. Hann vísar á bug fullyrðingum um að vindorkuver hafi hærri kostnað á byggingarstigi og að hagnaðurinn komi síðar. Hann segir í viðtali við Dagens Nyheter:

„ Það er í rauninni alls enginn hagnaður. Málið er á borðinu vegna ástandsins í Markbygden en litið á greinina í heild, þá er ljóst að um stórfelldan taprekstur er að ræða.“

Tap danska Ørsted um 460 milljarðar ISK. á síðasta ári

Efnahagurinn gengur afar illa hjá danska Ørsted, eitt af helsta vindorkufyrirtækjum heims sem hefur gripið til þess ráðs að innleiða umfangsmikinn sparnað í rekstrinum. Tap ársins 2023 var yfir 20 milljarða danskra króna (460 milljarðar íslenskar krónur). Markmiðið er að lækka kostnað um 35 milljarða dkr. (700 milljarða ískr.) fram til ársins 2026. 800 starfsmönnum hefur verið sagt upp störfum.


Markbygden Ett AB er 75% í eigu China General Nuclear Power Group (CGN), sem er undir stjórn kínverska ríkisins. Fyrirtækið er með 179 vindmyllur í Markbygden, einni af stærstu vindorkuverum á landi í Evrópu. CGN er svartlistað í Bandaríkjunum en stór eigandi í sænskum vindorkuiðnaði sem rekur sex vindorkugarða. Árið 2022 veltu garðarnir í eigu CGN 780 milljónum sænskra króna og voru sama ár með afkomu eftir fjármagnsliði upp á -1,8 milljarða sænskra króna.

Skildu eftir skilaboð