Gústaf Skúlason skrifar:
ESB hefur bannað sölu á nýjum bensínbílum ár 2035. Grænu umskiptunum er hraðað og þau munu leggja evrópska bílaiðnaðinn í rúst. Milljónir starfa munu hverfa og efnahagsleg kreppa skella á í kjölfarið. Sú kreppa mun standa yfir það sem eftir er af æfi allra núlifandi.
Lars Carlström forstjóri Italvolt, sem fjárfestir mikið í rafgeymum fyrir rafbíla framtíðarinnar, segir rafgeyma í rafbílum nútímans alls ekki nógu góða til að keppa við brunahreyfla og að rafbílatæknin sé ekki tilbúin til að taka við. Hann segir í viðtali við Auto Motor & Sport:
„Til að fylgjast með þróuninni, þá þurfum við hraðari hleðslu og lengri endingu á veturna. Það þýðir að við verðum að hafa Solid State, sem kemur innan fimm ára.“
Lars Carlström telur að rafhlöðuverksmiðjur dagsins munu ekki vera uppfærðar eftir fimm ár:
„Í dag er fjárfest í verksmiðjum með þurrkaðstöðu sem ekki er þörf fyrir, þegar skipt er yfir í solid state rafgeyma. Rafgeymaverksmiðjur nútímans verða einnig að fá tíma til að endurheimta fjárfestinguna. Að byggja rafgeymaverksmiðju kostar um 30 milljarða sænskra króna.“
Hann telur að lokadagsetning ESB fyrir bensínbíla árið 2035 sé óraunhæf. Tíminn er allt of knappur til að aðlagast. Milljónum starfa er ógnað og skapast mun samdráttur sem varir áratugum saman. Hann kallar eftir mýkri umskiptum með lengri fresti fram til a.m.k. ár 2040-2045.
Bílar eru ekki vandamálið fyrir loftslagið
Jafnframt bendir hann á, að Kína sé nú þegar tilbúin með sín umskipti yfir í rafbílaframleiðslu. Þar taka ákvarðanir mun styttri tíma og hægt er að setja í gang nýja námu á einu og hálfu ári á meðan það tekur 20 ár hér. Carlström vísar því á alfarið á bug að bílar séu afgerandi fyrir loftslagið. Hann bendir á fjölda kolaorkuvera sem eru í gangi um allan heim.
„Rafmagnskerfin eru ekki hönnuð til þess að allur bílaflotinn gangi fyrir rafmagni, sérstaklega ekki í Bandaríkjunum. Það þarf orkugeymslukerfi til að bjarga málunum. Ekki verður hægt að fullnægja þörfinni fyrir orkugeymslu á næstu tíu árum, jafnvel þótt framleiðslan aukist mjög hratt. Það vantar rafmagnsbirgðir einnig á hleðslustöðvunum.“