Björn Bjarnason skrifar:
Frá Danmörku berast fréttir um að ákæruvaldið þar sitji ekki auðum höndum vegna mótmæla málsvara Hamas-liða.
Hér hafa mörg þung orð verið látin falla á opinberum vettvangi til stuðnings hermdarverkum Hamas-liða í Ísrael 7. október og til fordæmingar á Ísraelum.
Ekki hafa verið neinar fréttir um að ákæruvaldið hafi látið sig öfgafulla framgöngu í þágu Hamas nokkru varða. Lögregla hefur staðið vakt við Ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu þegar ríkisstjórnin kemur þar saman til funda. Hún lét tjaldbúana á Austurvelli í boði meirihluta borgarstjórnar að mestu afskiptalausa. Nú vilja færeyskir anarkistar hins vegar mótmæla fyrir hönd tjaldbúanna!
Frá Danmörku berast fréttir um að ákæruvaldið þar sitji ekki auðum höndum vegna mótmæla málsvara Hamas-liða. Í danska blaðinu BT var miðvikudaginn 14. febrúar sagt frá því að saksóknari hefði gefið út fjórar ákærur sem rekja mætti til stuðnings við Hamas-illvirkin 7. október.
Maður nokkur tók þátt í mótmælafundi á Den Røde Plads í Nørrebro í Kaupmannahöfn. Hann lýsti mikilli ánægju yfir árás Hamas og sagði hana „frábæra“.
Maðurinn var spurður hvort unga fólkið sem Hamas-liðar myrtu á tónlistarhátíð Ísraela skammt frá Gaza hefðu átt skilið að deyja og hann svaraði:
„Þetta eru allir gyðingar, Ísrael verður að fara. Þetta er ekki þeirra land. Þetta er Palestína okkar, já.“
Annar sakborningur er ung kona sem fór í blysför til minningar um Kristallnóttina 9. nóvember. Þar lenti hún í heitum umræðum við Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra og eru orðaskipti þeirra til á myndbandi.
Lars Løkke Rasmussen spurði konuna hvort hún væri ekki líka mjög reið yfir árás Hamas á Ísrael 7. október eins og sprengjuárásum Ísraela á Gaza.
„Nei, ég er það ekki. Ég er það í raun og veru ekki. Ég er mjög ánægð með að Hamas tók þessa ákvörðun 7. október.“
Þriðji sakborningurinn flutti ræðu á mótmælafundi á Den Røde Plads í Nørrebro í Kaupmannahöfn 10. október þar sem hann sagði að lygin um sterka hryðjuverkaríkið [Ísrael] hefði verið afhjúpuð. Til þess hefði ekki þurft her, hvorki skriðdreka né flugvélar heldur „aðeins örfáa múslíma sem með einni samræmdri árás opnuðu augu heimsins fyrir vanmætti hernámsríkisins og opnuðu augu heimsins fyrir styrk múslíma“.
Fjórði sakborningur er álitsgjafi og grínisti sem sagði meðal annars við BT að hann hefði ekki séð neinn drepinn á tónlistarhátíðinni í Ísrael, skammt frá Gaza. „Ég fagna morðunum á barnamorðingjunum, kúgurunum, zíonistunum. Ég trúi ekki því sem ég heyri, heldur því sem ég sé,“ sagði hann.
Nú hefur færeysk Frelsisfylking anarkistanna tekið til við að mótmæla við ræðisskrifstofu Íslands í Færeyjum og íslenska sendiráðið í Kaupmannahöfn til stuðnings tjaldbúunum á Austurvelli og gegn lögmætri brottvísun Palestínumanna héðan.
Stuðningurinn við Hamas tekur á sig undarlegar myndir. Ætli hér hefjist nú ekki mótmæli vegna ákæranna í Danmörku? Hringrás mótmæla til stuðnings Hamas teygir sig um eyjar Norður-Atlantshafs.