Samfylking í sárum

frettinBjörn Bjarnason, Innlent1 Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Í hlaðvarpsþættinum Ein pæling sem Þórarinn Hjartarson stýrir og settur var í loftið 10. febrúar og vefsíðan Viljinn vakti athygli á 13. febrúar boðar Kristrún Frostadóttir stefnubreytingu hjá Samfylkingunni í útlendingamálum, sambærilega og hún gerði á sínum tíma í ESB-aðildarmálinu og stjórnarskrármálinu. Í nafni raunsæis og skynsemi hafnar hún einhliða samþykktri útlendingastefnu flokksins.

Hér hefur oftar en einu sinni verið vakið máls á því að við valdatöku Kristrúnar í flokknum varð enginn til að mótmæla því að nýi formaðurinn kastaði þeim málefnum á haug sögunnar sem bar hæst þegar Jóhanna Sigurðardóttir var flokksformaður og sat sem forsætisráðherra, eina stjórnstjarna flokksins fram að Kristrúnu.

Nú þegar kemur að því að kúvenda í útlendingamálunum fer allt á endann innan Samfylkingarinnar. Sjálfri sér samkvæm hafði Kristrún ekki fyrir því að kynna stefnubreytinguna í sex manna þingflokki Samfylkingarinnar. Hún vissi líklega, sem reyndist rétt, að þar getur hún aðeins reitt sig á einn þingmann, Jóhann Pál Jóhannsson, sem hringdi í hana um árið og sagði að byðu þau sig fram til þings í Reykjavík í september 2021 gætu þau náð flokknum undir sig. Jóhann Páll var sannspár. Þeim var tekið sem frelsandi englum og hefur gengið svo vel og snurðulaust að breyta ímynd flokksins að þau telja sig mega allt: nýr formaður, nýtt flokksheiti, nýtt merki og ný stefna.

Skjáskot af visir.is 

Jóhann Páll sagðist á mbl.is 16. febrúar vera sammála Kristrúnu (!) Hún nálgaðist „þessi mál af raunsæi“. Þau væru auðvitað stöðugt til umræðu innan flokksins og í stórum flokki væri eðlilegt að um þau væru skiptar skoðanir „rétt eins og hjá systurflokkum okkar í Evrópu“ sagði þingmaðurinn.

Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar, tók í svipaðan streng á mbl.is 17. febrúar og sagði Kristrúnu „einfaldlega, með skynsemi að leiðarljósi, að lesa í stöðuna“ og meta það hvað þurfi að gera í málaflokknum.

Þegar Guðmundur Árni var spurður hvort ekki hefði átt að ræða stefnubreytinguna í þingflokki Samfylkingarinnar eða annars staðar í flokknum svaraði hann út í hött og sagði: „Þetta hefur verið það mál sem hefur verið mest rætt í íslensku samfélagi síðustu misserin og þar á meðal hjá jafnaðarmönnum. Þessi umræða hefur verið gegnumgangandi þannig það þarf ekkert að koma á óvart.“

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir , fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, bættist 17. febrúar í hóp málsvara Kristrúnar og sagði meðal annars á Facebook að flokksformaðurinn hefði ekki gert annað en bara sett fram „almennar vangaveltur um ýmsar hliðar þessara mála“.

Tilraunir Ingibjargar Sólrúnar og annarra til að plástra vegna orða Kristrúnar eru dæmdar til að mistakast. Kristrún stundar ekki „umræðustjórnmál“. Hún ræður. „Ef einhver atkvæði hræddra og íhaldssamra nást með þessari stefnu, munu fleiri tapast til Pírata og annarra flokka sem ekki ýta undir útlendingahatur á atkvæðaveiðum,“ sagði í einni athugasemdinni við skrif Ingibjargar Sólrúnar.

Útlendingamálin valda svöðusári í Samfylkingunni. Plástrar duga ekki.

One Comment on “Samfylking í sárum”

  1. Eðlilegt að Björn sjái ofsjónum yfir góðu gengi Samfylkingarinnar undir stjórn Kristrúnar. Hælisleitendamálið er ekki eina málið sem stefnir í ógöngur eftir áratugs forsjá Sjálfstæðismanna.
    Það hvernig Björn “fer í manninn en ekki boltann” sýnir best að hann veit skömmina uppá flokkinn sinn.

Skildu eftir skilaboð