Kreppa og kulnun menntamanna

frettinInnlent, Páll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Sá sem fer í háskólanám til að auka ævitekjurnar leitar langt yfir skammt. Mælt í krónum og aurum borgar sig ekki háskólaprófið. Opin spurning er hvort samfélagið hafi gagn af háskólamenntuðum umfram lágmarksfjölda til að manna mikilvægar starfsgreinar s.s. stéttir lækna og hjúkrunarfræðinga. Það er af sem áður var.

Þeir sem fóru í háskólanám fyrir hálfri öld gátu vænst ríflegri ævitekna en hinir sem héldu á vinnumarkaðinn eftir landspróf eða gagnfræðapróf. Þá var skortur á háskólamenntuðum, nú er offramboð. Viðskiptablaðið greindi nýlega frá samantekt Sigðurðar Jóhannessonar forstöðumanns Hagfræðistofnunar HÍ:

Kaupmáttur launafólks með meistaragráðu hefur staðið í stað frá aldamótum á sama tíma og kaupmáttur launþega með grunnmenntun hefur vaxið um 44% og lágmarkslauna um 84%.

Sláandi niðurstaða. Full mikið sagt að háskólamenntun sé vænleg leið til fátæktar en svo sannarlega ekki til ríkidæmis, - mælt í ævitekjum.

Fyrir hálfri öld var frumatvinnuvegur þjóðarinnar, sjávarútvegur, að vinna sig hægt en bítandi inn á hátækisviðið. Það hefur gerst með tilheyrandi sjálfvirkni og fækkun starfa. Annar frumatvinnuvegur, ferðaþjónusta, er komin til sögunnar. Ferðaþjónustan verður aldrei hátækigrein.

Háskólagreinum hefur stórfjölgað og háskólum jafnframt. Áður mátti ganga að vísum gæðum háskólamenntaðra. Meiri vafi leikur á gæðunum í dag. Vandamálið er alþjóðlegt, heimskir með háskólapróf. Háskólagreinar eru sumar undirlagðar fáránleikafræðum, að maðurinn stjórni veðurfari jarðar, að hægt sé að fæðast í röngu kyni og að hvíti maðurinn sé upphaf illskunnar í heiminum. And-vitsmunahyggjan gjaldfellir alla háskólamenntun.

Hrærigrauturinn kallast vók. Ræturnar liggja aftur til síðasta fjórðungs liðinnar aldar. Marxistar í ýmsum útgáfum, s.s. sósíalistar og kommúnistar, höfðu alla 20stu öld kennt vísindalegan sósíalisma og sögulega nauðhyggju, að byltingin hlyti að vera á næstu grösum. Á áttunda áratugnum var útséð með byltinguna. Menningarlegur marxismi kom í staðinn, gekk undir nafninu póstmódernismi um tíma. Nú heitir fyrirbærið vók og er með heimilisfestu í vestrænum háskólum. Orðaleppar fela raunverulegt markmið, að grafa undan vestrænni siðmenningu. Nýjasta orðskrípið er inngilding. Það er annað heiti á innrætingu.

Samkvæmt viðtengdri frétt eru kjarnaeinkenni kulnunar:

minn­is­leysi, ein­beit­ing­ar­skort­ur, ör­mögn­un og skort­ur á stýri­færni [...] ásamt því að fólk upp­lif­ir til­finn­inga­lega skerðingu.

Heilbrigður einstaklingur hlýtur að finna til ömurleika innan um fáránleikafræðin og vókisma. Til að bæta gráu ofan á svart tröllríður háskólasamfélaginu aktívismi sem mærir fjöldamorð, einkum þau framin af forréttindahópi eins og Hamas. Það er til marks um vitsmunaskerðingu á háu stigi, að ekki sé talað um siðvit í sorpflokki. Þurrð siðvits veldur ,,tilfinningalegri skerðingu" háskólaborgara. Maður, heimskur með háskólapróf eða ekki, sem setur fjöldamorðingja á stall er mennskunni firrtur. 

Ekki beysið ástand á henni akademíu. Hún getur sjálfri sér um kennt. Fyrrum reyndu háskólaborgarar að skilja heiminn. Lofsvert þótti kæmi frá háskólum afurð, hvort heldur hugsun, aðferð eða tækni sem bætti í litlu eða stóru ástand heimsins. Nú á dögum gildir að finna öllu til foráttu. Vanlíðunarfíkn tröllríður vestrænum háskólum. Tilgangsleysi kveikir sjálfseyðingarhvöt er brýst fram í fíkn eftir eymd og volæði, sem mest er ímyndun. Vanlíðanin þjónar þeim tilgangi að réttlæta brjálæðiskast.    

Áður en efnið er amenað ber að taka fram: menntun er mikilvæg. Verst hve henni farnast illa í háskólasamfélaginu. 

Skildu eftir skilaboð