Páll Vilhjálmsson og skæruliðadeild Samherja

frettinDómsmál, Innlent, Páll Vilhjálmsson, Tjáningarfrelsi1 Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Páll Vilhjálmsson gæti verið á launum hjá Samherja að skrifa um málið. Það gæti bara vel verið. Á þess leið mæltist Gunnari Inga Jóhannssyni lögmanni Aðalsteins Kjartanssonar í lokaorðum fyrir héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Fyrir dómi var stefna Aðalsteins gegn tilfallandi.

Blaðamönnum RSK-miðla og talsmönnum þeirra er umhugað að munstra tilfallandi í skæruleiðadeild Samherja. Fyrir hálfu öðru ári fékk tilfallandi símtal frá Inga Frey, blaðamanni Stundarinnar, nú Heimildarinnar. Ingi Freyr, sem er einn fimm sakborninga í byrlunar- og símastuldsmálinu, spurði hvort tilfallandi hefði fengið greiðslur frá Samherja.

Um skæruliðadeild Samherja er það að segja að hún er hugarburður RSK-miðla, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans.

Í upphafi aðalmeðferðar í gær fyrir héraðsdómi gaf tilfallandi vitnaskýrslu. Gunnar Ingi lögmaður spurði ýmissa spurninga en einskins um peningagreiðslur frá Samherja. Hann beið með yfirlýsingu sína þangað til í lokaávarpi. Til að tryggja að tilfallandi fengi ekki tækifæri til að svara.

Svarið er sem sagt nei, Páll Vilhjálmsson hefur ekki fengið greiðslur frá Samherja fyrir að skrifa um byrlunar- og símastuldsmálið.

Allur málflutningur Gunnars Inga lögmanns fyrir hönd Aðalsteins gekk út á að tilfallandi hefði skrifað um Aðalstein án nokkurra heimilda. En Gunnar Ingi hefur engar heimildir um launagreiðslur frá Samherja til tilfallandi. Trúlega leyfist lögmönnum sitthvað sem öðrum er óheimilt.

Auk tilfallandi gaf Páll skipstjóri Steingrímsson skýrslu fyrir dómi. Páll rakti byrlunina og hvernig hann komst að því að síma hans var stolið og fluttur á RÚV til afritunar. Þá greindi hann frá símtali sem hann fékk frá Aðalsteini 20. maí 2021 til að inna skipstjórann eftir því hvort hann væri í skæruliðadeild Samherja og hefði það til saka unnið að setja nafn sitt á greinar í fjölmiðlum sem aðrir hefðu skrifað. Skipstjórinn á upptöku af samtalinu. Daginn eftir, 21. maí, birtu Stundin og Kjarninn samræmdar fréttir um að Samherji starfrækti skæruliðadeild. Í reynd hafði það eitt gerst að RSK-miðlar komust yfir gögn úr stolnum sína skipstjórans og úr þeim gögnum var búin til skæruliðadeild.

Í símtalinu spyr skipstjórinn blaðamanninn Aðalstein hvort hann hafi gögn sem staðfesti þær ásakanir sem hann ber á borð. Aðalsteinn segir nei, hann hafi ekki gögn undir höndum.

Bíðum við. Hvernig getur blaðamaður ásakað mann um eitthvað misjafnt án þess að hafa heimildir fyrir þeim ásökunum? Það er ekki blaðamennska að hafa ásakanir í frammi án gagna.

Kannski, myndi einhver segja, að Aðalsteinn hafi í óðagoti, og undir álagi sem fylgir vondri samviku, neitað að hafa gögn en í raun haft þau. En, nei, Aðalsteinn ítrekaði í lögregluyfirheyrslu 9. september 2022 að hann hefði ekki nokkur gögn undir höndum. Í gær fékk tilfallandi heimild dómara að lesa upp eftirfarandi tilvitnun í lögregluskýrsluna:

Í þessum greinum sem vísað er í gögn, skjöl, tölvupóstsamskipti, sem Kjarninn og Stundin segjast vera með undir höndum. Aðalsteinn var spurður með hvaða hætti komust þessir fjölmiðlar yfir gögnin eða fengu aðgang að þessum gögnum [...] Aðalsteinn sagði að hann héldi að það væri rangt haft eftir og að hann hafi aldrei sagst hafa þessi gögn undir höndum. (feitletrun pv)

Þarna endurtekur Aðalsteinn fyrir lögreglu 9. september 2022 það sem hann sagði við Pál skipstjóra 20. maí árinu áður, að hann hefði engin gögn. Hvernig gat Aðalsteinn þá skrifað skæruliðafréttina sem hann fékk verðlaun fyrir? Blaðamaður ársins, hvorki meira né minna.

Aðeins ein rökleg skýring er á málinu. Skæruliðafréttin var skrifuð á Efstaleiti, þar sem sími skipstjórans var afritaður, og send Aðalsteini á Stundinni sem leppaði fréttina með sínu höfundarnafni. Aðalsteinn var starfsmaður RÚV til 30. apríl 2021. Í hádeginu þann dag skipti hann um starf og fór yfir á Stundina - þremur dögum fyrir byrlun skipstjórans.

Ein ummæli sem Aðalsteinn vill fá dæmd dauð og ómerk eru eftirfarandi: ,,Engin rannsóknarvinna fór fram, aðeins byrlun og stuldur." Ummælin eru í bloggi frá febrúar 2022. Nú liggur fyrir játning Aðalsteins í tvíriti að hann hafi aldrei haft gögn undir höndum. Það er ekkert að rannsaka ef menn hafa engin gögn.

Hver gæti verið höfundurinn að fréttinni í Stundinni sem Aðalsteinn leppaði? Í vitnaskýrslu Páls skipstjóra í gær var hann spurður hvort hann vissi hvaða blaðamaður hafði mest með afritaða símann að gera. Já, svaraði skipstjórinn, það var Helgi Seljan. Vorið 2021, þegar byrlun og stuldur fóru fram, var Helgi enn fréttamaður á RÚV en hafði hægt um sig, þar sem hann hafði nýverið fengið á sig úrskurð um alvarlegt brot á siðareglum.

Helgi hafði bæði tíma og ímyndunarafl til að skálda upp skæruliðadeild Samherja og skreyta með tilvitnunum sem hann fékk úr afrituðum síma skipstjórans. Tvær útgáfur sömu fréttar voru samdar á Efstaleiti, önnur fór á Stundina hin á Kjarnann. Birtingartími var ákveðinn af RÚV, snemma morguns 21. maí 2021.

Meiðyrðamálið í gær snýst um að tilfallandi er með gögn í höndum sem sýna að byrlun Páls skipstjóra og stuldur á síma hans var ekki tilviljun heldur þaulskipulögð aðgerð. Lögreglurannsókn sem stendur yfir mun leiða það í ljós. Þau gögn sem eru komin í umferð til sakborninga og brotaþola sýna að RSK-miðlar vissu með fyrirvara að skipstjóranum yrði byrlað. Fimm blaðamenn eru sakborningar, Aðalsteinn Kjartansson er einn þeirra.

Aðalsteinn er þriðji sakborningurinn sem stefnir tilfallandi fyrir að skrifa um byrlunar- og símastuldsmálið. Áður fengu Þórður Snær og Arnar Þór Ingólfsson tilfallandi dæmdan fyrir meiðandi skrif. Þeim dómi var áfrýjað til landsréttar. Áfrýjunin er á dagskrá dómsins í maí.

Verðlaunablaðamenn leita ásjár dómstóla til að bjarga frásögn sem stendur ekki undir sjálfri sér. RSK-blaðamenn ættu fremur að eiga hreinskilið samtal við lögregluna og leggja spilin á borðið.

One Comment on “Páll Vilhjálmsson og skæruliðadeild Samherja”

  1. Þetta er blaðamennska á Íslandi í hnotskurn, megnið af fréttafluttnungi sem kemur frá þessu fólki er byggt á eigin væntingum og fantasíum, það sést mjög skýrt á öllum fréttum af Úkraínustríðinu.

    Góður fjölmiðlamaður segir frá báðum hliðum á málum og helst án þess að lita þau af eigin skoðunum.
    Fréttamaður á að segja fréttir ekki búa þær til.

Skildu eftir skilaboð