Landsbankinn níðist á eldri borgara

frettinInnlendarLeave a Comment

Landsbankinn hefur sýnt af sér mannfjandsamlega hegðun í garð 73 ára konu sem hefur verið í viðskiptum við bankann í áratugi og velti um tíma milljónum á mánuði. Konan fór svo mjög illa út úr hruninu og tapaði yfir 500 milljónum í gegnum bankann sem hann hefur aldrei beðist afsökunar á.

Konan slasaðist fyrir um 3 árum og hlaut alvarlega höfuðáverka og hefur verið mikill sjúklingur síðan og fær einungis um 270 þús kr. á mánuði frá Tryggingastofnun í formi lífeyrisgreiðslna. Vegna lítilla tekna hefur konan átt erfitt með að greiða alla sína reikninga og hafa því skuldir hlaðist upp og var hún nýlega sett á vanskilaskrá hjá Creditinfo og hefur Sýslumaðurinn í Reykjavík farið fram á nauðungarsölu á húsinu vegna skuldarinnar.

Konan á fasteign sem hún skuldar lítið í og er metin á um 70 milljónir króna en vegna erfiðleikanna hefur hún ákveðið að setja eignina á sölu til að geta greitt reikningana og hefur hug á að kaupa sér minni íbúð.

Konan fór því á leit við Landsbankann að hún tæki lán til að geta greitt skuldina sem kom henni á vanskilaskrá sem hljóðar uppá rúmar 800 þúsund krónur og bað svo um 200 þúsund til viðbótar til að geta gengið frá húsinu fyrir sölu, s.s fengið ræstitækna til að þrífa, viðgerðarmann til að lappa upp á fáeina hluti og yfirfara eignina svo hægt sé að auglýsa eignina sómasamlega og sýna hana. Eignin er á eftirsóttum stað í Reykjavík og samkvæmt fasteignasala seljast eignir á þessum stað mjög hratt.

Þrátt fyrir þetta neitar Landsbankinn að veita konunni lánið sem hljóðar samtals upp á eina milljón króna og þrátt fyrir að hún sé með eignina sem tryggingu og gæti því bankinn hæglega tekið veð í húsinu til að aðstoða konuna sem væri þar að auki 0% áhætta fyrir bankann. Þeir bera því við að þar sem hún sé á vanskilaskrá þá geti þeir ekki lánað henni. Þar að auki þá hafði útibústjórinn í Landsbankanum lofað símleiðis að frysta húsnæðislán sem var komið í vanskil þar til eignin seldist og samþykkt að skipta greiðslum á kreditkorti í 10 mánuði.

Við hvorugt þessara loforða var staðið og tæmdi bankinn reikning konunnar um síðustu mánaðarmót þannig að einungis 10 þúsund krónur voru eftir og á hún nú ekki fyrir mat og nauðsynlegum lyfjum. Bankinn bætti svo við níðingsháttinn gagnvart konunni með því að loka heimildinni á kreditkortinu sem var 120 þúsund á mánuði og fær hún sömu útskýringar, að þar sem hún sé á vanskilaskrá þá hafi hún ekki lánstraust.

Konan reyndi svo árangurlaust að hringja í bankann á fimmtudag og föstudag til að fá útskýringar á þessu en enginn gat svarað henni og bað hún þá um að útibústjórinn hefði samband til baka væri, málið væri áríðandi en hann lét aldrei heyra í sér þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Þess má geta að konan hefur reynt að leita til annarra lánastofnanna en allir bera því sama við, að þar sem hún sé á vanskilaskrá þá sé ekki hægt að lána henni þrátt fyrir að hún eigi um 55 milljónir skuldlaust í eigninni.

Konan fékk vægt taugaáfall á fimmtudag vegna þessarar stöðu og þurfti að flytja hana með sjúkrabíl á Landspítalann.

Konan þarf því að öllum líkindum að leita til hjálparstofnun Kirkjunnar og Mæðrastyrksnefndar eftir matarkorti og aðstoð með lyfjakostnað.

Konan er mikill einstæðingur og getur því ekki leitað til ættingja eftir aðstoð og útlit er þá fyrir að hún verði að setja húsið á sölu í þessu ásigkomulagi sem þá lækkar söluverð eignarinnar.

Það er nokkuð merkilegt að bankar eru ávallt reiðubúnir að gera allt fyrir fólk sem á peninga inni á reikningum sínum en ef erfið staða kemur upp þá má fólk bara éta það sem úti frýs, þannig virðast skilaboðin.

Blaðamaður hjá Frettin.is reyndi einnig árangurlaust að ná í útibústjórann í Borgartúni.

Image

Skildu eftir skilaboð