Rússland hefur nú bætt Íslandi við á lista óvinveittra ríkja gegn Rússlandi. Yfirvöld í Rússlandi samþykktu listann í dag en á honum má finna ríki sem hafa stutt við refsiaðgerðir gegn þeim eftir að innrás rússneskra yfirvalda hófst í Úkraínu fyrir tæpum tveimur vikum, reikna má með að sú ákvörðun íslenskra yfirvalda að senda flugvél með hergögnum til Úkraínu, hafi haft þar áhrif. Íslenskur almenningur var ekki hafður með í ráðum, áður en sú stóra ákvörðun var tekin.
Rússnesk yfirvöld settu Ísland, ásamt 47 öðrum ríkjum, á lista yfir „erlend ríki og landsvæði sem fremja óvinveittar aðgerðir gegn Rússlandi, fyrirtækjum þess og borgurum“.
Á listanum eru Albanía, Andorra, Ástralía, Bandaríkin, Evrópusambandið (27 aðildarríki), Ísland, Japan, Kanada, Liechtenstein, Míkrónesía, Mónakó, Noregur, Norður Makedónía, Nýja Sjáland, San Marínó, Singapúr, Suður-Kórea, Svartfjallaland, Sviss, Taívan og Úkraína.
Ákvæðin ná til allra ríkisborgara og lögaðila í þeim ríkjum sem hafa tekið þátt í þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu, að því er fram kemur í umfjöllun rússnesku fréttastofunnar TASS.