Indversk stjórnvöld eru að sögn að íhuga tillögu Rússlands um að taka upp rússneska greiðslukerfið, SFPS, sem myndi gera beinar millifærslur á rúblum í tvíhliða viðskiptum landanna mögulegar.
Búist er við að þetta muni efla viðskipti landanna þar sem viðskipti um olíu yrðu ekki lengur í dollurum. Þetta myndi gera Indlandi, þriðja stærsta olíunotanda heims, kleift að halda áfram kaupum frá Rússlandi og komast þannig fram hjá refsiaðgerðum Vesturlanda gagnvart Rússlandi.
Reiknað er með að endanleg ákvörðun komi eftir tveggja daga heimsókn Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, til Indlands sem er fyrirhuguð í dag og þá munu fulltrúar rússneska seðlabankans heimsækja landið í næstu viku til að ræða smáatriðin.
Gert er ráð fyrir að notkun SFPS greiðslukerfisins geri indverskum útflytjendum kleift að halda viðskiptum við Rússland áfram þrátt fyrir refsiaðgerðir Vesturlanda sem hafa bannað Rússum að nota SWIFT millibankagreiðslukerfið.
Það myndi einnig gera Indlandi kleift að halda áfram kaupum á rússneskri olíu, vopnum og öðrum vörum.
Rússar vilja einnig að löndin tengi saman greiðslukortakerfi sín til að hægt verði að nota greiðslukort beggja landa í löndunum báðum án vandræða. En Visa og Mastercard hafa stöðvað starfsemi sína í Rússlandi.
Um gríðarlega hagsmuni er að ræða en Indland er sjötta stærsta hagkerfi heims. Á síðasta ári flutti Indland út vörur að andvirði 3,3 milljarða dala til Rússlands og flutti inn rússneskar vörur að andvirði 6,9 milljarða dala.
Vegna refsiaðgerða Vesturlanda gagnvart Rússlandi eru mörg af öflugustu ríkjum heims að færa sig yfir sín eigin greiðslukerfi og hætta að eiga eiga viðskipti í dollurum sín á milli. Útlit er því fyrir að yfirráð Vesturlanda yfir greiðslukerfi og heimsviðskiptunum muni bíða varanlegan skaða með ófyrirséðum afleiðingum fyrir lífsskilyrði almennings á Vesturlöndum.