Það var viðbúið að Vesturlönd myndu bregðast við aðgerðum Rússa í Úkraínu með refsiaðgerðum.
Hinar svonefndu frjálslyndu ríkisstjórnir eru nú að innleiða ýmsar þvingunaraðgerðir við meintum brotum á alþjóðalögum sem hafa það að markmiði að kæfa Rússland efnahagslega og þrýsta þannig á Rússa að kalla herliðið sitt frá Úkraínu.
Ein helsta ráðstöfunin hefur verið að banna Rússlandi að nota alþjóðlega greiðslukerfið SWIFT. Þrátt fyrir að Bandaríkjastjórn stingi upp á þessari leið til að „refsa“ Rússlandi, verða Evrópubúar sjálfir fyrir miklum áhrifum af þessari ákvörðun.
Vesturveldin ætla að banna umtalsverðum hópi rússneskra banka að nota SWIFT-netið. Þetta net er mikilvægt tæki alþjóðlega fjármálakerfisins og virkar sem eins konar „bankasamfélagsmiðill.“ Þar sem fjármálastofnanir frá meira en 200 löndum hafa samskipti og skiptast á upplýsingum um greiðslur, sem auðveldar þannig millifærslur í viðskiptaheiminum. Í ljósi þess að Rússland er næst stærsti notandi SWIFT-netsins er markmið Vesturlanda að flýta fyrir fjárhagslegu hruni rússneskra fyrirtækja og banka og þannig þrýsta á að Rússnesk stjórnvöld þjóni hagsmunum NATO í Kænugarði.
Bandaríkjastjórn lagði til bannið, Evrópa treg til
Það eru Bandaríkin sem hagnast mest af því að útiloka rússnesku bankana frá SWIFT, þar sem það þjónar bandarískum hagsmunum að valda eins miklu fjárhagslegu tjóni og mögulegt er hjá keppinauti þeirra. Greiðslur milli Rússa og Bandaríkjamanna, sem falla niður vegna bannsins, eru hliðaráhrif sem bandarísk stjórnvöld eru reiðubúin að taka á sig, miðað við þann bónus að „kæfa“ Rússland.
Í Bretlandi var ráðstöfunin samstundis samþykkt, en svo var ekki í ESB. Í fyrstu var mikil andstaða við bannið í Evrópu. Ástæðan fyrir því er mjög einföld: Evrópubúar eiga í miklum viðskiptum við Rússa og Swift auðveldar viðskiptin. Hins vegar, þegar þrýstingur jókst, samþykktu Evrópuríkin, eitt af öðru, bandarísku leiðina. Síðasta landið sem veitti mótspyrnu var Þýskaland, sem er mjög háð innflutningi á rússnesku gasi. Stjórnvöld í Berlín voru ekki ánægð með þessa aðgerð, sem virðist mjög ýkt, þar sem neikvæðu áhrifin munu hafa bein áhrif á Evrópubúa sjálfa, en undir miklum þrýstingi heimiluðu þýsk stjórnvöld bannið um síðustu helgi.
Bannið er slæmt fyrir Evrópu
Búist er við að almennt verði bannið harðlega fordæmt á næstunni, þegar áhrif þess fara að gæta. Augljóslega féllst þýskur almenningur á að „refsa Rússlandi,“ því það er það sem fjölmiðlar segja að þurfi að gera. En á sama tíma vilja Þjóðverjar ekki þjást vegna kulda á vetrarnóttum bara til þess að slík „refsing“ geti átt sér stað. Það virðist ekki rökrétt að evrópskur almenningur greiði fyrir refsiaðgerðir vegna stríðs sem ESB tekur ekki einu sinni þátt í. Í reynd mun hin and-rússneska „efnahagslega köfnun“ einnig verð að and-evrópskri félagslegri köfnun.
Rússland hefur valkosti við SWIFT
Rússland mun verða fyrir mun minni áhrifum af banninu en Evrópa. Rússland hefur tæknilega valkosti við SWIFT, svo sem SFPS samskiptakerfið milli banka, sem er nú þegar notað af meira en 400 rússneskum og erlendum fjármálastofnunum.
Þá er einnig mjög gott samstarf milli Rússlands og Kína, sem gæti aukið notkun Rússa á CIPS, sem er kínverskt bankakerfi svipað og SWIFT. Reyndar hafa Vesturlönd, allt frá árinu 2014, hótað Rússlandi mögulegu banni frá SWIFT, sem hefur ýtt á Rússlandsstjórn að leita annarra valkosta. Á síðustu átta árum hefur Rússland þannig verið að undirbúa sig af krafti til að geta tekist á við hugsanlega útilokun frá SWIFT og vissulega geta SFPS og CIPS kerfin komið að mestu í stað SWIFT.
Rússlandi verður ekki jafnað við Íran
Bandarísk stjórnvöld halda því fram að það að útiloka Rússa frá SWIFT verði jafn áhrifaríkt fyrir vestræna hagsmuni og það var að útiloka Íran frá SWIFT fyrir nokkrum árum. Um árabil var Teheran meinað að nota Swift vegna kjarnorkudeilunnar sem hafði afar neikvæð efnahagsleg áhrif á landið. En það er ekki hægt að líkja þessum löndum saman þar sem Rússar eru með miklu öflugra fjármálakerfi en Íran og eru mun tilbúnari að takast á við þessar aðstæður.
Það er nóg að líta til þess að bannið gegn Rússlandi hefur verið yfirvofandi af hálfu Bandaríkjanna síðan árið 2014. Það þýðir að þessi möguleiki var vissulega tekinn með í reikninginn af rússneskum stjórnvöldum áður en aðgerðin í Úkraínu var heimiluð - með öðrum orðum, Rússar tóku áhættuna vegna þess að þeir vita að landið er reiðubúið að takast á við afleiðingarnar.
Evrópa þarf að huga að eigin hagsmunum
Að endingu þá verður þessi aðgerð í meginatriðum and-evrópsk og enn frekar and-þýsk. Evrópa mun ekkert græða á því að standa við áætlanir um að refsa Rússlandi, en á sama tíma er þess krafist að öllum fyrirmælum Bandaríkjamanna sé hlýtt. Það er brýnt að ríki Evrópu fari að hugsa meira sem fullvalda, setja eigin þjóðarhagsmuni í forgang þegar lagt er mat á bandarískar tillögur. Að öðrum kosti mun öll álfan þurfa að gjalda fyrir áætlanir Bandaríkjastjórnar sem miða að því að knésetja Rússa.