Þriðjungur fullorðinna í Bretlandi telur að ríkisstjórnin sé að ýkja fjölda dauðsfalla af völdum kórónuveirunnar, samkvæmt könnun sem kom út 1. júní og gerð var af vísindamönnum í King's College í London.
Þrjóskur minnihluti” efast en um afstöðu meginþorra vísindamanna til öryggis bóluefna og upplýsingagjöf stjórnvalda um dauðsföll af völdum Covid. Um 33% sögðust telja að ríkisstjórnin sé að ýkja fjölda dauðsfalla af völdum Covid-19, en 54% töldu svo ekki vera. Einn af hverjum sjö segist ekki trúa því að samstaða sé meðal vísindamanna um að bóluefnin séu örugg.
Könnunin leiddi í ljós að eldra fólk var líklegra til að trúa á vísindalega samstöðu um bóluefnin heldur en yngri hópurinn.
Rannsóknin var hluti af PERITIA, verkefnis á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem rannsakar traust almennings á sérfræðiþekkingu.
Rannsakendur greindu gögn úr könnunum meðal 12.000 manns í Bretlandi, Írlandi, Ítalíu, Þýskalandi, Noregi og Póllandi, þar á meðal 2.042 á Bretlandi. Kannanirnar voru gerðar í janúar 2022.
Rannsóknin leiddi einnig í ljós að 17% svarenda í Bretlandi trúa þeirri samsæriskenningu að almenn Covid einkenni virðist tengjast netgeislun frá 5G farsímakerfi. Þetta hlutfall fór í 26% í aldurshópnum 18 til 34 ára. Í heildina töldu 70% þetta vera rangt.
Prófessor Bobby Duffy, forstöðumaður við King's College í London, sagði: „Þrátt fyrir að heimsfaraldurinn hafi staðið mun lengur en margir bjuggust við, hefur það ekki verið nægur tími til að sannfæra alla um ákveðnar staðreyndir varðandi Covid-19 og aðgerðir gegn veirunni.
Að byggja traust á sérfræðiþekkingu, til að fólk þekki og taki við áreiðanlegum upplýsingum, er lykilatriði í faraldri og það ætti að vera forgangsverkefni stjórnmála- og vísindamanna, ef við ætlum að takast betur á við ógnir í framtíðinni.“
Sú trú að stjórnvöld séu að ýkja dauðsföll vegna Covid var útbreiddust í Póllandi, þar sem 43% voru þeirrar skoðunar en minnst í Noregi (24%).
Í Póllandi mældist minnst traust á því að vísindaleg samstaða væri um öryggi Covid-bóluefna, eða 62%.
Rannsóknin kannaði einnig hegðun og viðhorf fólks, þar sem 58% almennings í Bretlandi sögðust alltaf fylgja Covid reglum. Þetta var næstlægsta hlutfallið í löndunum sex sem könnunin náði til.
Einn af hverjum fjórum svarendum í Bretlandi fannst engin ástæða til að breyta hegðun sinni til að stöðva útbreiðslu Covid vegna þess að það „myndi ekki skipta neinum máli.“ 55% voru ósammála þessu.
Um það bil 30% íbúa Bretlands sögðust vera reiðubúnir að greiða aukalegan skatt af tekjum sínum til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar.