Helgi Seljan og RÚV taka Namibíusnúning

frettinPistlarLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:

Helgi Seljan, sem hraktist af RÚV vegna rannsóknar lögreglu á byrlun og stuldi, freistar þess að blása lífi í Namibíumálið svokallaða með frétt á Stundinni. Félagarnir á RÚV endurbirta.

Namibíumálið gengur út á ásakanir eins manns, Jóhannesar Stefánssonar, um að Samherji hafi stundað stórfelldar mútugreiðslur og framið önnur afbrot á meðan útgerðin stundaði veiðar þar syðra. Jóhannes var Samherji í Namibíu, æðstráðandi til sjós og lands í útgerðinni þar.

Snúningur Helga og RÚV að þessu sinni er að láta að því liggja að íslensk stjórnvöld komi í veg fyrir að réttað verði yfir þremur íslenskum mönnum í Namibíu.

En það er einfaldlega ekki rétt.

Aðalástæðan fyrir því að saksóknari í Namibíu kemst hvorki lönd né strönd er að stjörnuvitnið, Jóhannes Stefánsson, harðneitar að mæta í skýrslutöku hjá lögreglunni í Namibíu og í framhaldi koma fyrir dómstóla.

Færi Jóhannes til Namibíu yrði sennilega aðeins einn Íslendingar ákærður fyrir misferli og glæpi.

Það lá fyrir í október sl. að engir Samherjamenn yrðu ákærðir í Namibíu. Meint gögn i málinu eru öll því marki brennd að hafa farið um hendur Jóhannesar Stefánssonar. Hann er ekki trúverðug heimild, frómt frá sagt.

Hvorki Helgi né RÚV vekja athygli á að málið stendur og fellur með Jóhannesi. Í lok fréttar RÚV kemur neyðarleg játning:

Dómsmálaráðuneyti Namibíu hefur að sama skapi ekki enn sent formlega beiðni til Íslands um framsal mannanna.

,,Mennirnir" sem vísað er til eru þrír starfsmenn Samherja. Ástæðan fyrir því að dómsmálaráðuneyti Namibíu fer ekki fram á framsal þeirra er að namibískur dómstóll telur engar forsendur fyrir ákæru.

Og hvers vegna er það?

Jú, ástæðan er að Jóhannes Stefánsson neitar að fara til Namibíu.

Síðasti Namibíusnúningur Helga Seljan og RÚV er eins og þeir fyrri: bara reykur. Það er enginn eldur. En þess meira af lygum og þvættingi sem dómgreindar- og samviskulausir RSK-miðlar lepja upp.

Í stað þess að taka enn einn snúninginn á Namibíumálinu ættu Helgi og RÚV að segja fréttir af sakamálarannsókn á Íslandi. Almenningi þyrstir í fréttir af fjórum sakborningum sem eiga aðild að byrlun og gagnastuldi. Fjórmenningarnir eru blaðamenn á RSK-miðlum. En það ríkir dauðaþögn um fréttamál sem á brýnt erindi við alþjóð.

Skildu eftir skilaboð