Nigel Farage vill klára Brexit
Snemma í maí varaði Nigel Farage(herra Brexit) við því að trúlega myndu 100.000 manns koma til Bretlands frá Frakklandi á uppblásnum gúmmíbátum á árinu 2022 og sækja um landvistarleyfi. Mikilvægt væri að ríkisstjórnin kæmi Rwandaferðunum af stað sem fyrst því annars myndi hún ekki ráða neitt við fjöldann og ef bara einn af þessum skilríkjalausu ungu mönnum reyndist ógn við öryggi ríkisins þá myndi Boris Johnson þurfa að segja af sér. Nigel vill sem sagt klára Brexit og skera á tengslin við MDE eins og Theresa May lofaði 2016 þótt hún vildi halda Bretum í ESB. Theresa hafði nefnilega ekki góða reynslu af MDA. Eftir tíu ára baráttu breskra yfirvalda við mannréttindasamtök, meðal annars MDE, var það hún sem innanríkisráðherra kom loksins öfgaklerkinum Abu Qatada, hægri hönd Osama bin Ladens í Evrópu, úr landi.
Bretar eiga nú þegar í vandræðum með að hýsa allan þann fjölda hælisleitenda er til þeirra leitar. Nýlega var ákveðið að hýsa allt að 1.500 karlkyns hælisleitendur í yfirgefinni herstöð í smáþorpinu Linton-on-Ouse nálægt York. Með því vildi ríkisstjórnin spara sér kostnað við að hýsa hælisleitendurna á hótelum en íbúarnir mótmæltu harðlega þessu "opna fangelsi úti í sveit" þar sem þeir sjálfir yrðu í minnihluta og sendu bæði forsætisráðherra og innanríkisráðherranum mótmælabréf.
Almenningur í Bretlandi er ekki hrifinn af öllum þessum "gestum" sem Frakkar bjóða heim en leita svo yfir Ermarsundið og eru hýstir og fæddir á hótelum á kostnað ríkisins. Biðlistar eftir félagslegum íbúðum eru langir og verðbólgan er tilfinnanleg, 6.2% í febrúar, langt yfir viðmiðum Seðlabankans, og hefur ekki verið svo há frá 1992. Fyrr á árinu viðurkenndi forstjóri Iceland, Richard Walker, að keðjan væri að missa viðskiptavini sem leituðu til matarbanka því þeir hefðu ekki lengur efni á að versla hjá sér og sumir væru svo illa staddir fjárhagslega að þeir afþökkuðu gjafamatvæli sem þyrfti að elda, s.s. kartöflur, því rafmagnið væri einfaldlega of dýrt.