Eftir Arnar Þór Jónsson. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. júní 2022.
Í viðtali við RÚV 16. júní sl. 1 ) lét Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir þau ummæli falla að ekki yrði gripið til takmarkana „strax“ vegna fjölgunar Covid-smita. Slíkt réðist af „því hvernig faraldurinn þróast“. Í beinu framhaldi sagði Þórólfur „alveg ljóst að það er engin stemning fyrir neinum takmörkunum í þjóðfélaginu eða hvar sem er“. Ástæða er til að vekja athygli almennings á þessum síðastnefnda „mælikvarða“ sóttvarnalæknis, sem hann hefur raunar ítrekað vísað til í öðrum viðtölum.
Ummælin um „stemningu“ sem forsendu valdbeitingar opinbera þann stjórnarfarslega háska sem íslensk stjórnmál hafa ratað í. Þau eru til merkis um öfugþróun sem beina verður kastljósinu að: Lýðræðið deyr og réttarríkið sundrast þegar vald og ótti sameinast; þegar stjórnvöld og stórfyrirtæki ganga í eina sæng; þegar fjölmiðlar ganga gagnrýnislaust í þjónustu valdhafa; þegar fræðimenn kjósa starfsöryggi fremur en sannleiksleit; þegar embættismenn setja eigin frama ofar stjórnarskrá; þegar óttasleginn almenningur afsalar sér frelsi og réttindum í hendur manna sem boða „lausnir“. Allt eru þetta þekkt stef í alræðisríkjum, þar sem stjórnvöld ala á ógn í þeim tilgangi að treysta völd sín.
Í slíku umhverfi, þar sem stjórnmálamenn segja helst ekki annað en það sem þykir til vinsælda fallið, er erfiðum ákvörðunum úthýst til sérfræðinga og embættismanna og fjölmiðlar (mis)notaðir til að framkalla „stemningu“ og stuðning. 2 ) Fyrr eða síðar vaknar almenningur upp við þann vonda draum að hafa verið gerður áhrifalaus um stjórn landsmála. Ummæli Þórólfs að undanförnu hafa gefið almenningi ríkt tilefni til að vakna af værum blundi.
Í viðtali fyrr í þessum mánuði 3 ) lítilsvirti Þórólfur lýðræðislegt stjórnarfar með því að gagnrýna kjörna fulltrúa fyrir að hafa tjáð sig „óvarlega og ófaglega“. Slík ummæli koma úr hörðustu átt þegar horft er til óvarlegra og ófaglegra ummæla Þórólfs sjálfs um árangur og öryggi Covid-19-bóluefna, ýkta hættueiginleika veirunnar, „gott hjarðónæmi“ 4 ) o.fl. Ummæli Þórólfs eru til marks um nýtt og ískyggilegt stjórnarfar, sem ég hef ítrekað varað við sl. tvö ár. Ummerkin blasa nú við: Ráðherrar í ríkisstjórn eru gagnrýndir af sérfræðingi stjórnarinnar fyrir að hlýða ekki ráðgjöf hans skilyrðislaust og fyrir að sýna ekki næga „samstöðu“. Orð sóttvarnalæknis afhjúpa hvernig hann hefur sem embættismaður ítrekað reynt að kæfa niður gagnrýna umræðu, m.a.s. á ríkisstjórnarfundum. Nýjustu ummæli Þórólfs um skort á „stemningu“ ættu að virka sem blikkandi viðvörunarljós um þá hættu sem steðjar að stjórn landsins.
Hlutverk sóttvarnalæknis er að veita ráðgjöf út frá vísindalegum staðreyndum, ekki út frá „stemningu“ í þjóðfélaginu á hverjum tíma. Í því samhengi er ástæða til að benda á mikilvægan greinarmun: Einræðisstjórnir beita grímulausu valdi, en í alræðisríkjum er valdbeiting réttlætt með skírskotun til „stuðnings almennings“. Um hættuna þarf ekki að fjölyrða: Það er glapræði að fela þráhyggjumönnum verkefni sem kalla á heildarsýn og samræmingu ólíkra þátta. Í augum slíkra manna eru öryggisventlar réttarríkisins hindrun í vegi „harkalegri aðgerða“. Almenningur verður að skilja að einmitt þessir ventlar, um jafnræði fyrir lögunum, um réttláta málsmeðferð, um valdtemprun, um lögstjórn (en ekki geðþóttastjórn) o.s.frv., eru besta vörn okkar gegn óheftri og miðstýrðri valdbeitingu.
Hér er að renna upp ögurstund. Sjálfsákvörðunarrétti manna og þjóða er nú margvíslega ógnað. Mannréttindi sem til skamms tíma þóttu sjálfsögð, svo sem málfrelsi, funda- og ferðafrelsi, eru í raunverulegri hættu. Án lýðræðislegs umboðs hafa embættismenn og „sérfræðingar“ fest hönd á valdataumum. Án umræðu og án viðunandi réttlætingar er verið að umbreyta borgaralegu frelsi í leyfisskyldar athafnir. Hið opinbera seilist sífellt lengra inn á svið einkalífs. Mörk leyfilegrar valdbeitingar verða stöðugt þokukenndari. Við þessar aðstæður er gagnrýni illa séð, því hún ógnar valdinu. Betra er að „treysta sérfræðingunum“ og „fylgja vísindunum“. Viðhorf sem jafnvel eru byggð á hlutlægum staðreyndum eiga á hættu að vera stimpluð sem falsvísindi og upplýsingaóreiða ef þau samræmast ekki því sem stjórnvöld boða. Við stöndum þá frammi fyrir stöðnun og myrkvun, þar sem aðeins eitt viðhorf er leyfilegt. Í þjóðfélagi þar sem sannleiksleit er í reynd bönnuð umbreytast háskólar og fjölmiðlar í skrumskælingu þess sem þeim er ætlað að vera. Hlutlægur sannleikur hverfur sjónum. Sannleikurinn tilheyrir þá þeim einum sem fara með skilgreiningarvaldið.
Ef menn fara ekki að vakna mun hið frjálsa samfélag brátt heyra sögunni til. Þá verður of seint að koma því til varnar.
1) Sjá slóð.
2) Sjá til hliðsjónar bókina Manufacturing Consent: The Political Economy of the Mass Media (1988), e. Noam Chomsky og Edward S. Herman.
3) Sjá hér.
4) Sjá slóð.
Höfundur er sjálfstætt starfandi lögmaður og varaþingmaður sem gjarnan hefði viljað fjalla meira um þessi mál á Alþingi.
2 Comments on “Engin stemning?”
Viðbrögð stjórnvalda vegna Covid, m.a. í flestum Evrópuríkjum, Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og víðar, sýndu hið rétta andlit flestra stjórnmálamanna og vinstri sinnaðra fjölmiðla. Lýðræðið er að deyja og við taka einræðisstjórnir í anda kommúnista í Kína.
Takk Arnar þór!