Fréttablaðið greinir frá því í morgun að Vítalía Lazareva og Arnar Grant hafi verð kærð til héraðssaksóknara. Kærendur eru þeir Ari Edwald, Hreggviður Jónsson og Þórður Már Jóhannesson og kæruefnið er tilraun til fjárkúgunar, hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífs. Málið má rekja til sumarbústaðaferðar sem Vítalía sagði frá í þættinum Eigin konur í janúar síðastliðnum.
Sagt er frá því að Vítalía hafi komið í bústaðinn eftir miðnætti en þar hafi allir verið orðnir ölvaðir. Mennirnir þrír höfðu ekki heyrt frá Vítalíu fyrr en ári eftir atvikið þar sem hún sagðist ætla að leita réttar síns eftir atburðinn um kvöldið. Kæran á hendur Vítalíu og Arnari byggist á því að þau hafi í sameiningu staðið að atburðarás sem hófst seint á síðasta ári. Vítalía á að hafa hringt í þremenningana og tjáð Hreggviði Jónssyni meðal annars að rússneskir lögmenn væru komnir með málið. „Þið fenguð heilan mánuð en þið hafið ekki gert fucking neitt,“ er eitt af því sem haft er eftir Vítalíu. Stuttu síðar fóru að berast póstar til þeirra.
Heimildir Fréttablaðsins herma að lögmaður Vítalíu hafi óskað eftir því við þremenningana fyrir hönd Arnars og Vítalíu að greiða þyrfti „alvöru fjárhæð til að allir geti gengið stoltir frá borði og hefðu hagsmuni af því að þegja.“ Krafa upp á um 50 milljónir á hvern þeirra „eftir skatta“ á að hafa verið gerð.