Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:
Að Selenskí forseta Úkraínu meðtöldum er Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands, brátt fyrrverandi, herskáastur þjóðarleiðtoga í stríði Rússa og Úkraínumanna.
Í mars síðast liðnum þokaðist í átt að samkomulagi milli Úkraínu og Rússlands. Johnson fór skyndiferð til Kænugarðs og sagði Selenskí að sýna hörku, annars missti hann stuðning Bandaríkjanna og Breta. Í beinu framhaldi var friðarviðræðum slitið og djöfulgangurinn á vígvellinum hélt áfram.
Efnahagskreppa í Evrópu er bein afleiðing Úkraínustríðsins. Orkukreppan, vegna viðskiptaþvingana gagnvart Rússum, hefur áhrif á allt hagkerfi vesturlanda. Korninnflutningur frá Úkraínu og Rússlandi er takmarkaður og eykur verðbólgu á matvörumarkaði.
Vesturlönd voru ekki búin undir viðskiptastríð við Rússland. Þau áttu erfitt með að rétta úr kútnum eftir lokanir vegna kófsins. Hugmyndin var að Rússar myndu gefast upp þegar í stað. Ekki gekk það eftir. Óundirbúin vesturlönd eru aðkreppt og horfur slæmar.
Pólitísk smámál, þuklandi þingmaður og gleðskapur Boris á tíma útgöngubanns vegna kófsins, urðu stór vegna þess að hann sat uppi með stórpólitískt klúður í utanríkis- og efnahagsmálum.
Stríðið á sléttum Garðaríkis er fullkomlega ónauðsynlegt. Fyrir stríð ógnuðu Rússar í engu öryggishagsmunum vesturlanda. Vesturlönd engdu til vopnaviðskipta en það er ekki vestrænt blóð sem flýtur á vígvellinum heldur slavneskt.
Frá árinu 2008, þegar Úkraínu var boðin aðild að Nató, er öryggishagsmunum Rússlands ógnað. Herstöðvar Nató við nær öll vesturlandamæri Rússlands þýða að vestrið er með öll ráð Rússa í hendi sér. Á tímabilinu 2008-2022 var hægt að semja um gagnkvæma öryggishagsmuni en Nató vildi það ekki undir nokkrum kringumstæðum. Boris og aðrir líkt þenkjandi herskáir valdamenn á vesturlöndunum bera meginábyrgðina á stríðshörmungunum þar eystra.
Dramb er falli næst. Það sannast á Boris Johnson.