Uppreisn almennings breiðist um heiminn

Erna Ýr ÖldudóttirErna Ýr Öldudóttir, SkoðunLeave a Comment

Þýdd grein eftir Ralph Schöllhammer, aðstoðarprófessor í hagfræði og stjórnvísindum við Webster háskólann í Vín. Greinin birtist í skoðanadálki Newsweek þann 7. júlí 2022: A Popular Uprising Against the Elites Has Gone Global

Upprisa hinna vinnandi stétta gegn elítunni og gildum hennar stendur yfir - og fer sem eldur í sinu um heiminn. Andstaða mið- og lágstétta vex hratt gegn því sem Rob Henderson kallar „lúxusskoðanir“ elítunnar, á meðan venjulegt fólk gerir sér grein fyrir tjóninu sem þær valda þeim og þeirra samfélögum.

Fyrst örlaði á þessari óánægju í febrúar síðastliðnum, þegar Kanadíska trukkalestin tefldi fram flutningabílstjórum gegn „fartölvustéttinni“, sem heimtaði sífellt stífari aðgerðir gegn COVID-19. Einnig mátti greina hana í kosningasigri Glenn Youngkin, ríkisstjóra Virginíu, sem barðist fyrir rétti foreldra í menntakerfinu, en hann sigraði bæði í sveit og borg. Sömu sögu er að segja um vaxandi stuðning spænskumælandi Bandaríkjamanna við Repúblikanaflokkinn, sem í auknum mæli setur sig upp á móti woke-málefnum, og stillir sér upp með verkalýðnum. Nú sjáum við nýjustu vendingar í Hollandi, í líki bændauppreisnar gegn nýrri umhverfisverndarlöggjöf sem ógnar tilvist þeirra.

Fleiri en 30 þúsund hollenskir bændur risu upp í mótmælaskyni gegn stjórnvöldum í kjölfar nýrra takmarkana, sem ætlast til að bændur dragi úr losun köfnunarefnis með róttækum hætti, eða um allt að 70% næstu átta árin. Reglurnar gera ráð fyrir samdrætti í áburðarnotkun og fækkun búfjár. Þó að stórar búnaðarverksmiðjur hafi mögulega burði til að ná þessum markmiðum, er það útilokað fyrir smærri fjölskyldubú. Nýju umhverfisreglurnar eru svo öfgakenndar að margir myndu neyðast til að bregða búi, þar á meðal bændur sem hafa yrkt jörð sína í marga ættliði. Í mótmælaskyni hafa bændur lokað vegum og neitað að afhenda framleiðsluna til stórmarkaðakeðja. Það hefur meðal annars leitt til mikils skorts á eggjum og mjólk, auk annarra matvæla.

Loftslagsmálin látin trompa fæðuöryggi

En áhrifanna mun gæta víða. Holland er næststærsti landbúnaðarútflytjandi heims á eftir Bandaríkjunum, sem gerir land með tæplega 17 milljón íbúum að matvælastórveldi. Í ljósi matvælaskorts í heiminum og hækkandi verðlags, hefur þáttur hollenskra bænda í alþjóðlegu fæðukeðjunni aldrei verið mikilvægari. Maður hefði haldið að hollensk stjórnvöld ætluðu að taka tillit til þessa, og tryggja fólki mat á borðið, en það er nú öðru nær. Þegar valið stóð á milli fæðuöryggis og aðgerða gegn loftslagsbreytingum, varð hið síðanefnda fyrir valinu.

Það er sláandi að stjórnvöldum er það fyllilega ljóst að þau eru að hafa tilveruréttinn af bændastéttinni. Þau ætluðu reyndar að fara sér hægar, en málssókn sem umhverfissamtök höfðuðu árið 2019 varð til þess að flýta ferlinu.

Viðbrögð landbúnaðarins hafa verið hörð og viðvarandi síðan, en COVID-19 faraldurinn gerði ríkisstjórn forsætisráðherrans Mark Rutte, kleift að banna mótmæli árin 2020 og 2021. Mótmælin hófust á ný á þessu ári, og stjórnvöld hafa brugðist við með mun harkalegri hætti. Mótmælendur hafa verið handteknir, og lögreglan hefur skotið á bændur, en litlu munaði að hún dræpi 16 ára gamlan ungling.

Almenningur stendur þétt við bak bænda

Hollenskur almenningur hefur fulla samúð með bændum en ekki ríkisstjórninni. Nýlegar kannanir benda til þess að Bændaflokkurinn, stjórnmálaflokkur stofnaður fyrir aðeins þremur árum sem andsvar við nýju umhverfisreglunum, myndi fá ellefu sæti á þinginu, yrðu kosningar haldnar í dag (flokkurinn er með eitt sæti sem stendur). Það sem meira er, Hollenska sjómannasambandið hefur opinberlega bæst við mótmælin, lokar höfnum og áhafnir fiskiskipa bera skilti sem segja „Eendracht maakt Kracht“, eða Sameining skapar styrk.

Á meðan hollenska þjóðin stendur þétt við bak bænda, hagar elítan sér líkt og hún gerði í Kanada og Bandaríkjunum, og ekki hið einasta stjórnmálaelítan: Fjölmiðlar neita að greina frá mótmælunum, og þegar þeir gera það, útmála þeir bændur sem öfgamenn.

Hví eru tengslin rofin? Allar áreiðanlegar fréttakannanir í Evrópu, frá Þýskalandi til Hollands, sýna að loftslagsmál eru fjölmiðlamönnum mun hjartfólgnari en almenningi, sem veit vel að flýting loftslagsmarkmiða frá árinu 2035 til 2030 með því að eyðileggja búskapinn, mun ekki breyta loftslaginu nokkurn skapaðan hlut.

Holland er aðeins ábyrgt fyrir um 0,46% kolefnislosunar heimsins, og jafnvel þó að frekari samdráttur gæti verið æskilegur, þá hefur hún engin úrslitaáhrif í baráttunni við loftslagsbreytingar næstu átta árin. Hann gæti látið elítunni líða betur með sjálfan sig, en mun hafa þær afleiðingar að stór hluti almennings mun finna fyrir skertum lífsgæðum auk hæls ríkisvaldsins troðandi á tilvist þeirra í nafni pólitískra draumaríkishugmynda.

Hlýtur Evrópa ill örlög Rómönsku Ameríku?

Vanlíðan ríkir á Vesturlöndum um þessar mundir, þar sem hugmyndafræðilegum markmiðum er fylgt af hörku á kostnað mið- og lágstéttanna. Hvort sem um er að ræða flutningabílstjóra í Kanada, bændur í Hollandi eða olíu- og gasframleiðendur í Bandaríkjunum, hugmyndafræði en ekki vísindi eða haldbær sönnunargögn, ráða dagskránni og gleðja yfirstéttina á meðan verkalýðinn svíður.

Á endanum er hætta á að loftslagsstefnan muni gera Evrópu það sem marxisminn gerði við Rómönsku Ameríku. Heimsálfa með öll skilyrði fyrir mikla og útbreidda velmegun og heilbrigt umhverfi, muni verða rústir einar í nafni hugmyndafræði.

Niðurstaðan verður að bæði loftslagið og fólkið mun líða fyrir.

Þýðing Erna Ýr Öldudóttir

author avatar
Erna Ýr Öldudóttir

Skildu eftir skilaboð