Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:
Bandarískur þingmaður fæddur og fóstraður í Úkraínu, Victoria Spartz, varpar sprengju sem gæti orðið Selenskí forseta hættulegri en allar þær rússnesku. Þingmaðurinn ber sakir á hægri hönd Selenski, Andriy Yermak, um landráð og spillingu.
Í upptalningu í sex liðum ásakar þingmaðurinn Yermak starfsmannastjóra um að leka upplýsingum til Rússa um leynilega aðgerð til að klófesta Wagner-liða, einkaher Rússa, sem nú gerir það gott í Úkraínu; um að klúðra friðarviðræðum fyrir stríð; um að taka ekki mark á viðvörunum um yfirvofandi innrás; um að gefa Rússum Kherson-hérað í Suður-Úkraínu; um að koma í veg fyrir innkaup á nauðsynlegum hergögnum og að hindra rannsókn á spillingu.
Stóralvarlegar ásakanir hver og ein. Einn besti fréttaskýrandi Úkraínustríðsins breytti kynntri dagskrá í gær til að fjalla um málið.
Viðbrögð stjórnarinnar í Kænugarði eru gagnásökun um að Spartz gangi erinda Rússa.
Herskáasti pólitíski stríðsmaðurinn í Úkraínustríðinu, Boris Johnson, féll á sverðið í liðinni viku. Boris les fréttir um gæluyrði til fyrrum ástkonu á meðan rekunum er kastað á pólitískan feril manns sem taldi sig endurfæddan Churchill.
Tímasetningin á ásökunum Spartz er engin tilviljun. Pólitísk veðrabrigði eru í Evrópu og Bandaríkjunum. Úkraína er á undanhaldi í stríðinu sem er orðið óheyrilega kostnaðarsamt fyrir vestrið, mælt í efnahagskreppu og pólitískri úlfúð.
Ef Úkraína tapast líkt og Afganistan, með skilyrðislausri uppgjöf, bætir heimspólitískur ósigur gráu ofan á svart fyrir vesturlönd. Til að minnka skaða vesturlanda verður Úkraína að semja.
Innan tíðar kemur í ljós hver verða áhrif sprengju Victoriu Spartz. Ef áskanir bandaríska þingmannsins fá hljómgrunn má gefa sér að Selenskí sé stillt upp við vegg: annað hvort semur þú við Rússa, og gefur eftir það land sem til þarf, eða við krefjumst afsagnar ríkisstjórnar þinnar.
Vesturlönd geta ekki si svona gefið Úkraínu upp á bátinn. En þau geta knúið á um stjórnarskipti ef rök standa til að maðkur sé í Kænugarðsmysunni. Ásakanir Spartz gætu orðið þau rök.
Selenskí-stjórnin er búin að vera um leið og vesturlönd skella í lás með vopn og fjármagn. Sú hætta vofir yfir. Asakanir Spartz, fái þær útbreiðslu, eru stórskotahríð til að velgja Selenskí undir uggum. Ef forsetinn gefur sig ekki, og neitar enn samningum, fær hann á sig pólitíska kjarnorkusprengju.
Áletrun á sprengjuoddinum: Boris var viðvörun, kjáninn þinn.