„Mörgum Bandaríkjamönnum er ókunnugt um, að bandaríski herinn lætur sprengjum rigna yfir fólk og drepur daglega á erlendri grundu. Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hafa varpað fleiri en 326.000 sprengjum og flugskeytum á fólk í öðrum löndum síðan 2001 …, þar með talin 152.000 í Írak og Sýrlandi.“ Svo segja bandarísku blaðamennirnir, Meda Benjamin og Nicholas J.S. Davies, í samantekt sinni úr opinberum gögnum. Þau bæta við:
„Þetta eru 46 sprengjur og flugskeyti dag inn og dag út, ár inn og ár út, í nærfellt tuttugu ár. Á árinu 2019, síðasta árið, sem gögn voru viðunandi (fairly complete), var jafnaðarlegt, daglegt meðaltal 42 sprengjur, þar af 20 bara í Afganistan.“
Bandaríkjamenn hafa alið á heimsveldisdraumum sínum allar götur síðan George Washington leiddi landa sína til sigurs yfir nýlenduherrunum, Bretum, sem höfðu slegið eign sinni á hálfan heiminn eða svo.
Vígvöllur hins nýja heimsveldis stækkaði hratt á meginlandi Norður-Ameríku og síðar utan álfunnar. Bandaríkjamenn eru mesta herveldi sögunnar. Forystumenn þeirra hafa þráfaldlega ýjað að því, hversu ómissandi þeir séu í veröldinni, sérstaklega sökum lýðræðis- og frelsisástar. Þeir segja sig meira að segja búa í „landi hinna frjálsu.“ Og svo við hin megum búa við sams konar frelsi og lýðræði erum við tuktuð til með öllum ráðum.
CIA og stjórnarbyltingar
Leyniþjónustunni (CIA) er oft og tíðum beitt til að tukta og koma vitinu fyrir óþæg stjórnvöld. Robert Kennedy segir í bókinni, „Hinn raunverulegi Anthony Fauci (The Real Anthony Fauci): „Ær og kýr Leyniþjónustu Bandaríkjanna hafa í sögulegu samhengi verið völd og eftirlit. Leyniþjónustan hefur verið viðriðin að minnsta kosti sjötíu og tvær velheppnaðar stjórnarbyltingar á árunum 1947 til 1989. Þær taka til um þriðjungs stjórnvalda í veröldinni. Í mörgum tilvikum var um að ræða vel starfhæfar lýðræðisstjórnir.“
Leyniþjónusta Bandaríkjanna hefur einnig beitt sér fyrir og fjármagnað - í anda hugmyndafræðingsins, Zbigniew Kazimierz Brzenzinski - hinar svokölluðu „litaóerðir eða -byltingar“ í Austur-Evrópu. Í Úkraínu árið 2004 var hún glóaldingul eða appelsínugul.
Zbigniew mótaði stefnuna einkum í verki sínu, „Stóra taflborðinu“ (The Grand Chessboard), sem kom út árið 1997. Nú er kominn nýr og herskárri hugsuður fram á sjónarsviðið, Elbrigde A. Colby, sem í fyrra gaf út bókina, „Afneitunarherkænskan. Varnir Bandaríkjanna á tímum stórveldaátaka“ (Strategy of Denial: American Defense in a Age of Great Power Conflict).
Höfundur á aðild að „Utanríkismálaráðinu“ (Council on Foreign Relations), sem samkvæmt Richard Harwood, blaðamanni á Washington Post, er “sá félagsskapur (thing), sem kemst næst því að vera ríkjandi stofnun í Bandaríkjunum.“ Þar koma saman forsetar og varforsetar, mikilvægir ráðherrar og ráðgjafar, þingmenn og herforingjar, vísindamenn og fjármálamenn – frá báðum meginstjórnmálaflokkunum.
Stríð við Kínverja og Rússa
Nú duga engin vettlingatök, segir Elbridge. Íhuga skal í alvöru stríð við Kínverja og Rússa, þar sem efnahagsógn Bandaríkjamanna er að engu orðin að. „Þessi bók fjallar um stríð, um stríð í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að Kínverjar … nái að ríkja á lykilsvæði í veröldinni [Asíu].“
Geðþótta Bandaríkjamanna um stjórnun heimsmála eru varla nokkur mörk sett. Íþróttunum beita þau meira að segja fyrir frelsis- og mannréttindavagninn. Sumir muna vafalaust, hvernig þeir fóru hamförum gegn því, að Ólympíuleikarnir yrðu haldnir í Moskvu á árinu 1980. Þeir náðu að rýra leikana að gildi, en höfðu þó ekki alveg erindi sem erfiði. (Þetta geta áhugasamir rifjað upp við lestur ágætrar bókar Ingimars Jónssonar: „Átakanna um Ólympíuleikana í Moskvu 1980.)
Hernaðaraðgerðir í 85 ríkjum
Bandaríkjamenn gripu til hernaðaraðgerða í 85 ríkjum á árunum 2018 til 2020, samkvæmt skýrslu frá Watson stofnuninni við Brown háskólann í Bandaríkjunum. Þar er einnig skýrt frá því, að um það bil 929.000 hafi týnt lífinu vegna beinna stríðsátaka; miklu fleiri vegna afleiðinga eyðileggingar af völdum þessara átaka; meira en 387.000 óbreyttir borgarar hafi látið lífið og 38 milljónir hafi verið hraktar á flótta í Afganistan, Pakistan, Írak, Sýrlandi, Líbíu, Jemen, Sómalíu og á Filippseyjum.
Stríðsrekstur Bandaríkjamanna hefur haft í för með sér skerðingar á mannréttindum og borgaralegum réttindum bæði heima og erlendis, segir í fyrrgetinni skýrslu. Þar að auki losar bandaríska varnarmálaráðuneytið meira af gróðurhúsalofttegundum en flestir aðrir, segir í sömu heimild.
Hergagnaiðnaðurinn blómstrar
Það þarf vart að taka fram, að hergagnaiðnaðurinn blómstrar í endalausum stríðum Bandaríkjamanna á erlendri grundu, þar sem hvert stríðið rekur annað. Nú er það eins og allir vita, Úkraínustríðið.
Hernaðarútgjöld Bandaríkjamanna eru níföld í samanburði við þau níu, sem næst koma. Þau eru t.d. sexföld hernaðarútgjöld rússneska ríkisins. Það má til fróðleiks geta þess, að samkvæmt frétt í Newsweek létu Bandaríkjamenn fleiri sprengjum og flugskeytum rigna yfir Írak á einum degi en Rússar á Úkraínumönnum á heilum mánuði.
Stofnun NATO
Skömmu eftir lok síðari heimsstyrjaldar höfðu Bandaríkjamenn forgöngu um stofnun Norður-Atlantshafs bandalagsins. Eins og nafnið bendir til er það bandalag þjóða við Norður-Atlantshaf til varnar Ráðstjórnarríkjunum sálugu, að sagt var. Það bandalag er í sjálfu sér löngu horfið og hefur frá stofnun þjónað heimveldisdraumum Bandaríkjamanna eins og látlaus stækkun þess í suður og austur, íhlutun um innanríkismál annarra ríkja og beinar árásir á sum þeirra, ber skýrt vitni um.
Stækkun bandalagsins miðar einkum að því að klekkja á Rússum í Litlu-Asíu/Evrasíu. Úkraínustríðið, þ.e. staðgengilsstríð Nató og Bandaríkjamanna gegn Rússum með Úkraínumenn að leiksoppum, er þáttur í þeirri viðleitni eins og stjórnarbyltingin í Úkraínu 2014.
Þegar Ráðstjórnarríkin voru komin að fótum fram um 1990 og varnarbandalag þeirra, Varsjárbandalagið, sem stofnað var sem andsvar við Nató, sömuleiðis, gafst kjörið tækifæri til að sættast í Evrópu og láta hlýjan þey leika um kalna kroppa kalda stríðsins. Mikhail Gorbachev, forsætisráðherra Rússlands, lét sig dreyma um Evrópu sem sameiginlegt heimili þjóðanna, sem þar búa.
Nató verður ekki stækkað
Þegar þýsku ríkin voru sameinuð fengu Rússar skýrt loforð um það frá mörgum leiðtogum Vesturlanda, að Nató yrði ekki þanið út að landamærum þeirra. Þar á meðal voru James Baker, George Bush, Hans-Dietrich Genscher, Helmut Kohl, Francois Mitterand, Margaret Thatcher, William Hurd, John Major og Manfred Wörner, fyrrum framkvæmdastjóri Nató.
Það loforð var hins vegar svikið og þrátt fyrir endurteknar aðvaranir málsmetandi raunsæisstjórnmálamanna í Bandaríkjunum og Rússa sjálfra, réðu stríðshaukarnir för. Rússar búa nú við net vestrænna herstöðva við vestur og suður landamæri sín.
Reyndar var það svo um það leyti sem Ráðstjórnarríkin liðuðust í sundur, að Rússar ámálguðu þátttöku í Nató. Það var aldrei í alvöru tekið á dagskrá. En engu að síður var í stefnuskrá Nató árið 2010 fjallað um að stofna til ekta hernaðarsamvinnu við Rússa. En nú er öldin öldungis önnur. Því að á nýlegri ráðstefnu Bandalagsins eru Rússar og Kínverjar hástöfum úthrópaðir sem fjandmenn aðildarlandanna.
Undir þetta taka leyniþjónustur Bandaríkjanna (FBI) og Bretlands (M15), hvað Kína viðkemur alla vega, segja Kínverja stærstu ógn við öryggi þjóðanna og efnahag.
Sjálf lýsa Natóríkin því yfir, að engum stafi ógn af þeim, að þau ætli barasta að verja sig, frelsið og lýðræðið:
„Við erum sameinuð í hollustu okkar við lýðræði, einstaklingsfrelsi, mannréttindi og lagastjórn. Við aðhyllumst alþjóðalög og samþykktir og markmið Sameinuðu þjóðanna. Við skuldbindum okkur í alþjóðasamskiptum á grundvelli laga (rules-based). …
Yfirgengileg grimmd Rússa hefur valdið mannlegum þjáningum og umtalsverðum flutningum, sem sér í lagi hafa bitnað á konum og börnum. [Þessari setningu kynni Katrín Jakobsdóttir að hafa laumað inn í yfirlýsinguna.]“
Það er reyndar fáu, sem Nató ekki vill breyta til batnaðar í veröldinni eins og t.d. að bæta loftslag, vernda íbúa Bosníu og Hersegóvíu, Moldóvu og Georgíu, líf flóttamanna og vinna gegn mansali.