Björn Bjarnason skrifar:
Að dagskrárstjóri Rásar 1 bregðist illa við og telji frásögn af metnaðarleysi dagskrárinnar undir eigin ritstjórn ekki eiga erindi í aðra fjölmiðla er dæmigert.
Hér var nýlega komist þannig að orði að um þessar mundir væri besti þátturinn á Rás 1 ríkisútvarpsins endurtekið efni um Ítalíu frá árinu 1983.
Í Fréttablaðinu í dag (14. júlí) birtist frétt þar sem vísað er í Facebook-síðu Lönu Kolbrúnar Eddudóttur, fyrrverandi dagskrárgerðarkonu á Rás 1, sem spyr hvort ekki megi loka útvarpinu yfir sumarið eins og þegar sjónvarpinu var lokað í einn mánuð í gamla daga. Allir dagskrárliðir, utan frétta, dánarfregna og veðurs laugardaginn 9. júlí hafi verið endurflutningur á gömlu efni frá hádegi og fram að miðnætti. Þrír nýir þættir hefðu þó verið sendir út fyrir hádegi þennan dag.
„Fer að verða spurning um að loka stassjóninni bara í júlí, eins og sjónvarpinu í gamla daga,“ segir Lana Kolbrún.
Af þessu tilefni sneri Fréttablaðið sér til Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra, vísaði hann spurningunum til Þrastar Helgasonar dagskrárstjóra. Kvað Þröstur sumarfrí starfsmanna hafa haft áhrif. Þegar spurt var um lögbundnar skyldur kvað Þröstur málið ekki eiga erindi í fjölmiðla. „Nei, þú hefur ekkert eftir mér, ég er í sumarfríi og vil fá frið. Þetta er ekki fréttaefni.“
Þá lagði Þröstur til við blaðamanninn að haft yrði samband við menntamálaráðherra (les: menningarmálaráðherra). Lýkur fréttinni á þessum orðum: „Var á dagskrárstjóranum að skilja að RÚV þyrfti aukið fé.“
Þessi frétt varpar ömurlegu ljósi á dagskrárgerð ríkisútvarpsins. Stundum er því raunar sleppt í dagskrárkynningu að um endurtekið efni sé að ræða, kannski vegna þess að þuli þyki vandræðalegt að geta þess um hvern dagskrárliðinn eftir annan.
Að dagskrárstjóri Rásar 1 bregðist illa við og telji frásögn af metnaðarleysi dagskrárinnar undir eigin ritstjórn ekki eiga erindi í aðra fjölmiðla er dæmigert. Sömu er að segja um hitt að ræða eigi málið við ráðherra en á máli opinberra starfsmanna jafngildir það að þeim séu settar of þröngar fjárhagslegar skorður til að sinna starfi sínu af metnaði. Þeim sé allt fært með meiri peningum! Tekjur ríkisútvarpsins af nefskatti eru um 5 milljarðar á ári og tekjur af auglýsingum og kostun um 2 milljarðar.
Fjárhagslega öryggið sem ríkisútvarpinu er tryggt er svo mikið að fráleitt er að þar á bæ hafi menn efni á að nota fjárskort til að afsakað að flutt sé gamalt efni daginn út og inn. Það hlýtur að vera eitthvað annað sem ræður för.
Til að taka á málefnum Landspítalans sem aldrei nýtur að eigin mati nægilega mikils fjárhagsstuðnings frá ríkinu hefur spítalanum nú verið sett stjórn. Formaður hennar Björn Zoëga segir í Morgunblaðinu í dag:
„Eins og vill oft verða á svona stofnunum, og ég kannast við það frá öðrum sjúkrahúsum líka, erum við komin með of margt fólk sem er ekki að vinna við það að þjónusta sjúklinga.“
Hafa menn nokkurn tíma heyrt slík viðhorf frá formanni stjórnar RÚV ohf.? Þröstur Helgason er ekki að hugsa um hag hlustenda í svari sínu.
Sættir stjórn RÚV sig við metnaðarleysið í orðum dagskrárstjórans? Hvað með menningarmálaráðherrann ætlar hún að láta þar við sitja? Yrði dagskrárgerðin betri í hennar höndum?