Björn Bjarnason skrifar:
Aðferð Sigmundar Ernis við textagerðina og notkun Hannesar Hólmsteins á texta Laxness sýna muninn á „ritstuldi“ og „broti gegn höfundarrétti“. Fyrra brotið er alvarlegra enda klínir álitsgjafi Sigmundar Ernis því ranglega á Hannes Hólmstein.
Hæstiréttur Íslands fann 13. mars 2008 Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor sekan um brot gegn höfundarrétti ekkju Halldórs Kiljans Laxness á verkum hans. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður sýknað Hannes af ákærunni en hæstiréttur sakfelldi fyrir brot á u.þ.b. tveimur þriðju ákæruliðanna með þeim rökstuðningi að hann hefði nýtt sér texta skáldsins ýmist lítið breyttan eða nokkuð breyttan en haldið stíleinkennum og notað um leið einstakar setningar og setningarbrot lítt breytt og án þess að vísa til heimildar.
Í huga almennings er ekki gerður greinarmunur á „ritstuldi“ annars vegar og „broti gegn höfundarrétti“ hins vegar. Hann er hins vegar gerður í lögum og ættu allir vandaðir álitsgjafar að virða hann.
Helstu álitsgjafi Fréttablaðsins Ólafur Arnarson ritar grein í blaðið í dag (16. júlí) í tilefni af því að Hannes Hólmsteinn taldi á Facebook að Helgi Magnússon, eigandi Fréttablaðsins, hefði ákveðið að Kolbrún Bergþórsdóttir menningarritstjóri yrði rekin frá blaðinu.
Til að ná sér niðri á Hannesi Hólmsteini fyrir þessi skrif rifjar Ólafur Arnarson upp að prófessorinn hafi verið dæmdur til greiðslu bóta fyrir „ritstuld“. Segir Ólafur að hjá Fréttablaðinu og öðrum miðlum útgefanda þess séu „margir virtustu og vönduðustu blaðamenn landsins“. Þar sé enginn sem hafi „orðið uppvís að því reyna að stilla fram hugverkum annarra sem sínum eigin“.
Ólafur er meðal fastra pistlahöfunda Fréttablaðsins, í hópi sem hann segir skipaðan „þungavigtarfólki sem skrifar pistla sem vekja athygli og mark er tekið á“. Í lok greinar sinnar sakar hann Hannes Hólmstein svo um „sjálfumgleði“.
Ólafur Arnarson kveður þarna fast að orði og ber Hannes Hólmstein röngum sökum til að gera pistil sinn áhrifameiri og þunginn er á því að enginn á Fréttablaðinu hafi „orðið uppvís að því reyna að stilla fram hugverkum annarra sem sínum eigin“.
Einmitt sama dag og þessi orð álitsgjafans birtast falla þau dauð og ómerk því að á forsíðu Morgunblaðsins laugardaginn 16. júlí birtist frétt um að sjálfur Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins og annarra miðla Helga Magnússonar, hafi árið 1983 í Helgarblaði DV birt kafla í grein um Kristján fjallaskáld með orðréttum texta eftir Tómas Guðmundsson skáld sem hann birti í bókinni Minnisverðir menn sem kom út 1968. Þessa grein endurbirti Sigurjón Magnús Egilsson, ritstjóri tímaritsins Heima er bezt, í 2. hefti þess nú í ár. Hvorki 1983 né núna er þess getið að Sigmundur Ernir notar texta Tómasar Guðmundssonar í sinni grein án þess að geta heimildar.
Aðferð Sigmundar Ernis við textagerðina og notkun Hannesar Hólmsteins á texta Laxness sýna muninn á „ritstuldi“ og „broti gegn höfundarrétti“. Fyrra brotið er alvarlegra enda klínir álitsgjafi Sigmundar Ernis því ranglega á Hannes Hólmstein.
Sigurjón Magnús, starfsmaður Sigmundar Ernis á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, vill að sjálfsögðu gera sem minnst úr málinu, hann birti bara leiðréttingu í næsta hefti. Hvað skyldi Ólafur Arnarson segja í næsta pistli? Honum þykir óskiljanlegt að Hannes Hólmsteinn hafi ekki verið rekinn frá Háskóla Íslands. Vill hann að Sigmundur Ernir fari nú sömu leið og Kolbrún Bergþórsdóttir? Heiður blaðamanna Fréttablaðsins er í húfi.
One Comment on “Heiður Fréttablaðsins í húfi”
Fréttablaðið hefur engan heiður !!!!