Eymdarhyggjukirkja hinna ofsóttu og undirskipuðu

frettinArnar Sverrisson, PistlarLeave a Comment

Eftir Arnar Sverrisson sálfræðing:

Kanadíski mannfræðingurinn, Philip Carl Salzmann, er heiðursprófessor i mannfræði við McGill háskólann í Kanada. Hann hefur m.a. skrifað athygliverðar hungurvökur í Epoch Times. Titill einnar þeirra er „Trúarhiti meðal réttlætisdýrkenda” (Religious Fervor Among the Woke). Hér er einnig vitnað til annarrar greinar hans um svipað efni: „Karlar eru frábrugðnir konum, konur frábrugðnar körlum“ (Men are Different From Women, Women From Men).

Í vangaveltum sínum um réttlætis- eða eymdardýrkunina leggur hann skilgreiningu bandarísks fræðabróður síns, Clifford Geertz, til grundvallar. Þar segir:

„Í trúarbrögðum felst (1) táknkerfi, sem stuðlar að því að (2) vekja öfluga, umlykjandi, djúprætta tilfinningu og tilhvöt í brjósti fólks af karlkyni, kvenkyni og hvorugkyni (non-binary); að (3) móta hugtök um almennar tilvistarreglur, og að (4) gæða þessi hugtök svo sannfærandi skini staðreynda, að; (5) tilfinningar og tilhvatir öðlast einstakan raunveruleikablæ.“

Kvenfrelsunarhugmyndafræðin okkar tíma trúarbrögð

Kanadísku fræðimennirnir, Katherine K. Young og Paul Nathanson, sem um áratuga skeið hafa rannsakað viðhorfin gegn körlum, benda á svipaða skilgreiningu, þegar kvenfrelsunarfræðin eiga í hlut, þ.e. trúna á karlillskuna. Þau segja:

„Boðskapurinn er skýr: Í sjálfu sér er ekkert gott og jafnvel ekkert viðunandi í fari karla. Þar af leiðir, að karlar séu einungis alandi og ferjandi að því marki, að þeir annað tveggja umbreytist í konur (við líkamlega geldingu) eða tillíkist konum (við andlega eða greindarfarslega geldingu). Í hnotskurn; góður karl er annað hvort nár eða kona. ... [Það] má með sanni segja, að kvenfrelsunarhugmyndafræðin eins og [reyndar] öll önnur hugmyndafræði, þjóni sama tilgangi og trúarbrögð.“

Það vekur athygli, að bandaríski bókmenntafræðingurinn og kvenfrelsarinn (að eigin sögn), Camille Paglia, tekur í sama streng og ofangreindir. Hún færir sannfærandi rök að því, að kvenfrelsunarhugmyndafræðin sé okkar tíma trúarbrögð. (Kvenfrelsunarhreyfingin fordæmir hana reyndar fyrir villutrú.)

Eymdardýrkunin

Eymdardýrkunina í heild sinni má skoða í ljósi ofannefndra skilgreininga. Til frekari glöggvunar: Eymdar- eða fórnarlambsdýrkunin var hafin til vegs og viðingar með kvenfrelsunarhreyfingunni. Hún náði sér verulega á flug fyrir atbeina auðmannasjóða eins og „Rockefeller Foundation,“ á áttunda áratugi síðustu aldar. Fjölmargir hópar hafa síðan hoppað um borð í fórnarlambalestina. Hún er stundum kölluð „samskipunarkvenfrelsun“ (intersectional feminism). Allir hafa farþegarnir harma að hefna. Skotspænirnir eru almennt hvítir karlar (sérstaklega gráhærðir og rosknir).

Philip Carl segir: „Eymdarfræðingar (woke) hafa ekki einungis tileinkað sér hugmyndafræði „réttlætis“ (social justice), „fjölbreytni, réttlætis og meðveru“ (diversity, equity, inclusion) og [tamið sér] fullyrðingar á borð við: „í fjölbreytninni er styrkur okkar fólginn“ (forsætisráðherra Kandada, Justin Trudeau), heldur aðhyllast þeir þessa hugmyndafræði sem óskeikul trúarsannfæring væri, en hvorki æskilegar leiðbeiningar né vísindalegar tilgátur.“

Eymdaraðgerðasinnarnir hafna skilningi vísindanna með hugmyndafræðilegum fullyrðingum eins og að „karlmennska sé eitruð, kerfisbundna kynþáttahyggju megi finna hvarvetna, gripdeildir séu ekki ofbeldi heldur vísindin, framtíðin sé kvenkennd, hörundshvíta sé ills viti, aðgreining kynþátta sé réttlæti, og svo framvegis.“

Og aðgerðasinnarnir taka einnig djúpt í árinni um kyn. „Kyn er ekki tvískauta heldur róf, karlkonur eru konur [að eðlisfari], það eru til tylftir kynja, karlkonur í íþróttum eru ekki frábrugðnar eðlislægum konum, karlar geta haft blæðingar og átt börn og börn geta valið sér kyn að vild (eða það má leiða þeim fyrir sjónir).“

Litið er á þá sem trúvillinga, sem efast um óskeikulleika trúboðins. Þeim er steytt út í ystu myrkur, gerðir skógargangsmenn, sendir í útlegð, þaggað niður í þeim, þeir ritskoðaðir, reknir úr starfi, beittir lagaofbeldi og afmáðir úr samfélaginu. Þeir eru haldnir kynfólsku (sexism), kynþáttahyggju (racism), samkynhneigðarfælni (homophobia), kynskiptingafælni (transphobia), Múhameðstrúarfæð (Islamophobia) og þvíumlíku.

Aðgöngumiðinn að eymdarkirkjunni er samkvæmt ofansögðu, huglæg tengsl hins trúaða við eitthvert tilbrigða mannleikans, oft og tíðum skilgreint á grundvelli kynferðis, kynþáttar, kynlífs, uppruna, færni ellegar vanfærni. En söfnuðurinn mismunar fólki. Það er ekki alls konar sjálfsskilningur (identity), sem er boðlegur. Sumt fólk er beinlínis litið neikvæðum augum. Því skal ekki halda hlífskildi yfir. Það getur meira að segja borið nauðsyn til ráðast á það.

Bleikskinnar eru álitnir illir, Asíubúar litlu skárri, Gyðingar jafnvel illir og „ofurbleikir.“ Gyðinglegir sameiningarsinnar eða síónistar eru skaðræði, karlmenn eitraðir og kristnir menn eru fasistafautar. Gengið er út frá hinni fornu skilgreiningu þýska byltingarfrömuðarins, Karl Heinrich Marx (1818-1883), um tvær öndverðar fylkingar manna, kúgara og þolendendur. Kúgararnir njóta forréttinda, eru yfirskipaðir, þ.e. (hvítir) karlar. Þessi bábilja gengur eins og rauður þráður um eymdarfræðin og kvenfrelsunarbaráttuna.

Aðgerðahyggjan (wokeness) felst í því að velgja slíkum dyggðafjöndum undir uggunum og steðja til varnar konum (ef ekki er um að ræða róttæka kvenfrelsara, sem útiloka vilja kvenkarla), öllum blakkskinnum, frumbyggjum, litskinnum (BIPOC – black, indigenous, people of color); öllum lespum, hommum, tvíkynhneigðum, kynskiptingum; heimilislausum, fátækum, og fötluðum.

Vitanlega fljóta þeir með, sem gjalda varhug við (are woke to) þeirri „tilvistarógn,“ sem stafar af loftlagsbreytingum og gera sér ljósa nauðsyn þess að hverfa aftur til þróunarstigs fæðusafnara, en þó er grænkerafæði skilyrði.

Philip Carl segir að lokum: „Trúarhiti eymdarhyggjusinna hefur skilað árangri eins og sjá má á yfirtöku þeirra á hér um bil sérhverri meiriháttar stofnun í Bandaríkjunum og á Vesturlöndum almennt; skólum og æðri menntastofnunum, rannsóknasjóðum, fjölmiðlum, stéttum lögfræðinga [og] lækna, mörgum fyrirtækjum, Lýðræðisflokknum (Demókrötum) í Bandaríkjunum og Frjálslynda flokknum (Liberal Party) í Kanada – og á ríkisstjórnum Bandaríkjanna og Kanada, sem beita valdi sínu til að þröngva eymdarhyggjunni upp á þegnana. Gerspillt skólakerfi og æðri menntastofnanir hafa kastað fyrir róða umboði til að veita nemendum grunnþekkingu, temja þeim sannleiksleit og hvetja til þekkingaröflunar, en kenna þess í stað hugmyndir eymdarsinna um „félagslegt réttlæti“ og fólk í úrvalsflokki.“

Skildu eftir skilaboð