Hvers vegna er lekinn frá Landsrétti ekki rannsakaður?

frettinPistlarLeave a Comment

Páll Steingrímsson, skipstjóri og meintur brotaþoli í máli sem er til rannsóknar hjá lögreglu er varðar byrlun, þjófnað á síma Páls og afritun á gögnum úr honum, gagnrýnir harðlega þá blaðamenn sem hafa stöðu sakbornings í málinu og segir skrif og gjörðir þessa fólks litast af hefnd, og í stað þess að svara og rökstyðja afstöðu sína þá sé reynt að kæla hann niður með ósamræmi og rangfærslum.

Páll segist hafa orðið orðlaus við lestur pistils Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, um málið, en þar lýsir Þórður rannsókninni sem „fjarstæðukenndu rugli.“ Páll gagnrýnir Þórð og aðra blaðamenn sem eru með stöðu sakbornings fyrir að tefja rannsókn málsins með því að reyna að komast undan yfirheyrslum:

Páll skrifar eftirfarandi í nýjum pistli á fésbókarsíðu sinni:

Kæru ættingjar, vinir og samstarfsmenn.

Það er ekki oft sem ég verð orðlaus og það vita þeir sem þekkja mig, en þegar mér var bent á að lesa þessi orð Þórðar Snæs sakbornings þá varð ég það "Sú rann­sókn, sem er fjar­stæðu­kennt rugl en látin drag­ast á lang­inn, er notuð í opin­berri umræðu til að tor­tryggja blaða­menn sem fjalla með gagn­rýnum hætti um Sam­herja."

Fyrir það fyrsta eru það aðallega sakborningarnir sem hafa haldið umræðu um málið á lofti. Ég hef reynt að halda mig fjarri umræðunni meðan málið er til rannsóknar þó ég hafi einstaka sinnum séð mig tilneyddan að tjá mig, eins og nú.

Í öðru lagi þykir mér maður, sem ekki hefur mætt í skýrslutöku og veit ekki nema að litlu leyti um hvað rannsóknin snýst, taka ansi mikið upp í sig, hann ætti kannski að hafa samband við ritstjórann sinn og sakborninginn Þóru Arnórsdóttur og biðja hana um að hætta að tefja og mæta bara í skýrslutöku? Eftir það er honum frjálst að tjá sig.

Í þriðja lagi væri nú fróðlegt ef orð Evu Joly, sem sakborningurinn Þóra Arnórs tók viðtal við, væru rifjuð upp. Hún hélt því fram að bankamenn, sem hún hafði dæmt seka, myndu þyrla ryki í augu almennings og neyta allra lagalegra úrræða til að tefja og þvæla mál. Ég veit ekki betur en tveir sakborninga hafi nýtt dómskerfið að fullu, án þess svo mikið sem hafa mætt í eina yfirheyrslu og þar með tafið rannsókn sakamáls um nokkra mánuði sem er trúlega fáheyrt að það séu fjölmiðlamenn sem tefja rannsókn sakamáls.

Skrif og gjörðir þessa fólks hafa hingað til litast af hefnd því ég hef reynt að fá svör við skýrum spurningum og bent á ósamræmi og rangfærslur. Í stað þess að svara og rökstyðja afstöðu sína hafa þau beitt amk þremur fjölmiðlum fyrir sig og reynt að kæla mig, og aðra þá sem voga sér að benda á veilur í fréttaflutningi þeirra.

Í gegnum tíðina hefur þessi hópur haldið því á lofti að ekkert sé að marka þá aðila sem eru til rannsóknar og þegar þeir hafa verið ásakaðir eigi þeir að stíga til hliðar í samfélaginu. Það sama á greinilega ekki við um þá fjölmiðlamenn sem nú hafa stöðu sakbornings, trúlega í einu ógeðfelldasta sakamáli sem upp hefur komið í seinni tíð, og sé þetta ekki lögbrot þá hið minnsta er þetta siðlaust eins og Bogi Ágústsson sagði í viðtali nýverið.

Eitt af því sem hefur vakið furðu mína er að talsmaður Transparency international hefur af einhverjum orsökum ekki tjáð sig um einn anga málsins sem er sérstæður leki úr Landsrétti í lögmann sakbornings. Slíkt ætti samkvæmt viðmiðum Transparency vera merki um spillingu. En spilling og spilling er víst ekki sami hluturinn heldur ræðst af því hvort viðkomandi tengist Samherja eða tilteknum fjölmiðli. Sumir fjölmiðlamenn geta víst ekki verið sakborningar enda virðast þeir undanþegnir almennum hegningarlögum, amk að mati þeirra sjálfra. Aðrir fjölmiðlamenn hafa fengið reisupassann fyrir að gagnrýna þá sem eru öðrum kollegum þeirra þóknanlegir.

Og það hefði nú einhvern þótt verðugt verkefni fyrir þessa margumtöluðu "rannsóknarblaðamenn" að grafast fyrir um hver það væri sem hefði lekið gögnum úr Landsrétti. Nokkuð víst er að meira væri gert úr honum ef hann hefði verið á hinn veginn, þ.e. lekið til mín eða Samherja. En staðan er ekki sú og því er þögnin algjör. Önnur skýring gæti verið sú að einn starfsmaður Landsréttar er nátengdur einni fjölmiðlamanneskju. Það virðist hins vegar ekki þykja ástæða til að kanna þetta nánar.

Í fyrra samþykktu alþjóðasamtök blaðamanna nýjar alþjóðlegar siðareglur fyrir stéttina. Aðalsteinn Kjartansson, sakborningur og varaformaður Blaðamannafélags Íslands, situr í nefnd um endurskoðun íslensku siðareglnanna. Það virðist djúpt á drögum um endurnýjun þeirra enda erfitt að aðlaga sumt í alþjóðlegu reglunum að íslenskum veruleika. Sumir íslenskir blaðamenn eru jú hafnir yfir lög og reglur.

Skildu eftir skilaboð