Nordstream hryðjuverkið olli óvæntu mengunarslysi í Eystrasalti

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, Mengunarslys, Úkraínustríðið, UmhverfismálLeave a Comment

Gífurlegt magn af eiturefnum gaus upp af hafsbotni þann 26. september 2022, þegar Nord Stream 1 og 2 gasleiðslurnar fóru í sundur af völdum sprenginga undan Borgundarhólmi í Eystrasaltinu. Um þetta fjallaði Danska ríkisútvarpið 27. febrúar sl.

Rautt svæði umhverfis sprengjustaðina sýnir grugg. Höggbylgjusvæðin eru ljósappelsínugul.

Sprengingin og gasstrókurinn í kjölfarið olli því að mengunin af hafsbotni dreifðist í mánuðinum á eftir í um ellefu rúmkílómetra af sjávarrúmmáli. Mengunin hefur haft áhrif á lífríki sjávar og dýralíf í Eystrasalti. 

Þetta er niðurstaða nýrrar vísindarannsóknar danskra, pólskra og þýskra vísindamanna. Þar á meðal er Hans Sanderson, sem leiddi rannsóknina, en hann er yfirmaður við umhverfisvísindadeild Árósaháskóla.

Hans Sanderson, sérfræðingur við Árhúsaháskóla.

Gömul og uppsöfnuð mengun sneri aftur

„Mjög mikið magn af menguðu seti rótaðist upp af botninum. Við erum að tala um gömul, þekkt efni eins og blý og TBT úr botnmálningu skipa“, er haft eftir Sanderson. „Það hefur örugglega haft neikvæðar afleiðingar, en einungis tíminn mun leiða í ljós hvað það þýðir. Til dæmis breytingar á ástandi fiskistofna, ef aðrar skýringar verða útilokaðar.“

Eiturefnin sem þyrluðust upp hafa í safnast í botn Eystrasaltsins frá iðnvæðingu. Sprengingarnar þeyttu þannig margra áratuga uppsafnaðri mengun aftur út í lífríki hafsins. Vísindamennirnir áætla að það hafi verið um 250 þúsund tonn af menguðu seti.

„Það kom mér á óvart hversu mikið það var. Mér finnst þetta vera mikið magn“, segir Hans Sanderson. „Það er ekkert hægt að gera núna. Efnunum var þyrlað upp og þau hafa fallið til botns aftur. Það sem skiptir máli er að við lærðum að þessi gömlu efni eru enn þarna úti á hafsbotni og að þau gætu enn haft neikvæð áhrif á umhverfið.“

Hnísur gætu hafa drepist eða misst heyrn

Áður hafði verið áætlað að yfir 115 þúsund tonn af metangasi hafi losnað úr pípum Nord Stream 1 og 2 sem fóru í sundur, á sex dögum. Það svarar til losunar sem á um það bil 15 milljónum tonna af koltvísýringi, eða þriðjungi af heildar árlegri kolefnislosun Danmerkur.

Rannsakendur könnuðu hvort metangasið, sem sást eins og stór bóla á yfirborði sjávarins, hefði mengað lífríki sjávarins, en svo var ekki. Einnig hafði sprengiefnið sjálft ekki mengað Eystrasaltið að neinu marki. Á hinn bóginn höfðu rannsakendur áhyggjur af því að sprengingarnar hefðu truflað hnísustofn Eystrasaltsins sem er í hættu.

Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að hnísur innan fjögurra kílómetra radíuss frá sprengingunum séu líklegar til að hafa drepist af völdum höggbylgjunnar. Heyrn dýranna gæti hafa orðið fyrir tjóni í fimmtíu kílómetra radíus frá sprengjustaðnum.

author avatar
Erna Ýr Öldudóttir

Skildu eftir skilaboð