Eftir Pál Vilhjálmsson:
Aftenposten Innsikt baðst afsökunar að hafa birt ásakanir Jóhannesar Stefánssonar uppljóstrara í garð Samherja um mútugjafir í Namibíu. Danski blaðamaðurinn Lasse Skytt skrifaði norræna útgáfu af Kveiksþætti RÚV frá 12. nóvember 2019.
Skytt er lausablaðamaður og seldi Aftenposten Innsikt samantektina. Eftir að hún birtist í febrúarútgáfu tímaritsins fékk ritstjórinn ábendingar um að fréttin héldi ekki máli þar sem aðeins einn væri til frásagnar, - Jóhannes Stefánsson.
Tine Skarland ritstjóri Aftenposten Innsikt ákvað að hefja rannsókn á samantekt Skytt þar sem ekki virtist allt með felldu. Skytt er beðinn að benda á fleiri heimildir en Jóhannes Stefánsson sem staðfesta að Samherji hafi greitt namibískum stjórnmála- og embættismönnum mútur í skiptum fyrir kvóta. Þessar heimildir gætu verið dómsskjöl, vitnisburður annarra eða tölvupóstar þar sem lagt er á ráðin.
En Skytt, sem tók ítarlegt viðtal við Jóhannes, gat ekki lagt fram eina einustu heimild sem styður frásögn uppljóstrarans. Enga. Samt stendur dómsmál yfir í Namibíu. En þar er óvart Samherji brotaþoli en ekki gerandi. Tilfallandi athugasemd fjallaði um dómsmálið þar syðra og sagði
Samherji einfaldlega keypti kvóta af Fishcor og greiddi fyrir samkvæmt gildandi lögum og reglum. Samherji er brotaþoli, útgerðin var blekkt af namibískum embættismanni, undirmanni Esau.
Skytt gat sem sagt ekki stutt ásakanir Jóhannesar gögnum. Hvað gera bændur þá? Ef um er að ræða fagmenn sem bera virðingu fyrir sjálfum sér og starfinu biðjast þeir afsökunar á að hafa hlaupið á sig og birt sem fréttir tilhæfulausar ásakanir.
Tine Skarland ritstjóri Aftenposten Innsikt bað lesendur sína afsökunar með ítarlegum pistli þar sem beðist er velvirðingar á að verkferlar útgáfunnar hafi brugðist. Í yfirlýsingu Aftenposten Innsikt segir m.a.
Greinin hafði að geyma fjölda staðhæfinga og ekki kom nægilega vel fram að umræddar staðhæfingarnar væru einhliða frásögn uppljóstrarans Jóhannesar Stefánssonar af málsatvikum.
Afsökun Aftenposten Innsikt er ítarleg og án fyrirvara. Beðist er afsökunar á lélegri blaðamennsku með einhliða frásögn. Fjölmiðill sem flytur staðhæfingar einnar heimildar, Jóhannesar í þessu tilviki, verður að gera grein fyrir trúverðugleika heimildarinnar. Það var ekki gert. Ástæðan liggur í augum uppi. Jóhannes er afar ótrúverðug heimild.
Ferill Jóhannesar sýnir ógæfumann. Eftir að hann komst í sviðsljósið gerði hann sjálfan sig að fórnarlambi og bjó til villtar samsæriskenningar.
Berast nú böndin að RÚV. Var gerð innanhússrannsókn á vinnu Helga Seljan og Aðalsteins Kjartanssonar sem gerðu Kveiksþáttinn er sýndur var í nóvember 2019? Næg ástæða er til að þýfga Helga um gögn, þar sem hann er með brotasögu. Helgi skáldaði skýrslu í fyrri atlögu sinni að Samherja, sem kallast Seðlabankamálið. Vann RÚV heimavinnuna sína og gekk úr skugga um að ásakanir Jóhannesar uppljóstrara héldu máli?
Svarið er nei. Helgi, Aðalsteinn og ritstjóri Kveiks, Þóra Arnórsdóttir, fengu að leika lausum hala og stunda málafylgju en ekki blaðamennsku. Þríeykið bjó ekki við neitt aðhald eða eftirlit. Þegar tækifæri gafst til, tveim árum eftir Kveiksþáttinn, að komast yfir síma Páls Steingrímssonar skipstjóra hjá Samherja með byrlun og þjófnaði stóð ekki á siðlausum fréttamönnum á Glæpaleiti.
Helgi, Aðalsteinn og Þóra eru ekki lengur starfsmenn RÚV. Það breytir ekki að ríkisfjölmiðillinn verður að gera hreint fyrir sínum dyrum og útskýra hvernig það gerðist að fréttamannaklíka komst upp með vinnubrögð sem eiga ekkert skylt við blaðamennsku og fréttaflutning.