Áætlun Hancock um að „hræða líftóruna úr“ almenningi til að tryggja hlýðni við lokunarráðstafanir upplýst í WhatsApp skilaboðum sem lekið hefur verið af blaðamanninum Isabel Oakeshott.
Fréttin var þýdd í heild sinni. Birtist í The Telegraph 4. mars 2023. Þýðing: Erna Ýr Öldudóttir.
Matt Hancock, fv. heilbrigðisráðherra Bretlands úr ríkisstjórn Boris Johnsson, vildi „dreifa“ nýju Covid afbrigði til að „trylla almenning úr hræðslu“ og tryggja samþykki við lokunaraðgerðum stjórnvalda. Þetta kemur fram í skilaboðum sem var lekið og rannsókn The Telegraph hefur leitt í ljós.
Lokunarskjölin - yfir hundrað þúsund skilaboða af samfélagsmiðlinum WhatsApp sem send voru á milli ráðherra, embættismanna og annarra - sýna hvernig ríkisstjórnin beitti óttastjórnun til að þvinga fram hlýðni og þrýsta á lokanir.
Í öðrum skilaboðum sagði Simon Case, ráðherra ríkisstjórnarinnar, að „óttinn/sektarkenndin“ væru „mikilvæg“ til „að magna skilaboðin“ til stuðnings við þriðju lokunaraðgerðir ríkisstjórnar Bretlands í janúar 2021.
Í mánuðinum á undan virtist Matt Hancock, þáverandi heilbrigðisráðherra, gefa til kynna í einum af skilaboðunum, að nýtt afbrigði af Covid, myndi hjálpa til við að undirbúa jarðveginn fyrir næstu lokun, með því að hræða fólk til að hlýða.
Í WhatsApp samtali 13. desember, sem The Telegraph hefur undir höndum, sagði Damon Poole, fjölmiðlaráðgjafi Hancock, yfirmanni sínum að þingmenn Breska íhaldsflokksins væru „reiðir nú þegar yfir horfunum“ á strangari Covid-ráðstöfunum og lagði til: „við getum snúið þeim með nýjum veirustofni“.
Skilaboðin gáfu til kynna að þeir teldu að þrýstingurinn sem af því skapaðist gæti verið gagnlegur við að undirbúa jarðveginn fyrir framtíðarlokanir og harðari takmarkanir í aðdraganda jólanna 2020.
Hancock svaraði síðan: „Við hræðum úr þeim líftóruna með nýja stofninum.“
Poole tók undir það og sagði: "Jább, það ætti að ná fram breytingu í átt að réttri hegðun.“
Samtalið er frá tveimur dögum eftir að Hancock var tilkynnt um tilkomu nýs afbrigðis – þekkt sem alfa eða Kent afbrigðið, í desember 2020. Vöxtur tilfella leiddi síðar til þess að jólunum var aflýst 19. desember.
Hancock lýsti yfir áhyggjum sínum af því að viðræður um Brexit myndu yfirskyggja málið í fjölmiðlum og leitaði ráða hjá Poole. „Hvenær virkjum við nýja afbrigðið?,“ spurði Hancock.
Meðan á heimsfaraldrinum stóð var ríkisstjórnin sökuð um hræðsluáróður, en því var hafnað, þar sem ráðuneyti Hancock sagði að slíkar ásakanir væru „villandi“.
Á meðal nýjustu uppljóstrana í Lokunarskjölunum getur The Telegraph sýnt skilaboð sem benda til þess að Boris Johnson hafi sveiflast á milli efasemda og ákafa við lokunaraðgerðir. Forsætisráðherrann fyrrverandi velti því fyrir sér upphátt, tveimur dögum eftir kynningu á seinni landslokuninni í nóvember 2020: „Hvernig líta gögnin út í dag? Orðræða íhaldsmanna um að við höfum farið framúr okkur o.s.frv.
Skilaboðin sýna einnig þá fyrirlitningu sem sýnd var í garð Stevens lávarðar frá Birmingham á bak við tjöldin, þáverandi framkvæmdastjóra Landsspítala Bretlands (NIH). Hancock sagði í skilaboðum til eins ráðgjafa: „Hann þarf að fá að vita að hann er að fokka öllu upp.“
Í öðrum skilaboðum sagði hann: „Okkur yrði verulega meira ágengt ef SS [Simon Stevens] verður fjarlægður úr embætti.“
Hancock reyndi einnig að „sannfæra“ Stevens lávarð um að hætta í janúar 2020, aðeins nokkrum dögum eftir að fyrstu tilfellin af Covid-19 höfðu greinst í Bretlandi, sýna Lokunarskjölin fram á.
Við frekari skoðun kemur í ljós að Rishi Sunak, þegar hann var kanslari, lýsti valdatíð Dominic Cummings, aðalráðgjafa Boris Johnson sem „martröð“ sem hann vonaði að „við endurtökum aldrei“.
Það nýjasta frá The Lockdown Files leiddi einnig í ljós:
- Hvernig Hancock sakaði Michael Gove um að „reyna að hafa af sér embættið“ eftir að hafa lofað að stytta biðtíma NHS.
- Ráðherrar reyndu að láta Sir Jeremy Farrar, nú yfirvísindamann Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), rekinn úr aðalráðgjafahópi sínum um Covid fyrir að hafa gagnrýnt ríkisstjórnina. Hancock stimplaði hann „algjöran hávaðamann.“
- Hancock fór með ástkonu sinni í einkakvöldverð með bandarískum starfsbróður sínum - og lét síðan breyta svari um það til ráðherra til að fjarlægja upplýsingar um að hann hefði boðið henni.
Lokunarskjölin hafa varpað ljósi á ákvarðanatöku ríkisstjórnarinnar meðan á heimsfaraldri stóð.
Rishi Sunak, nú forsætisráðherra, sætt gagnrýni vegna stefnu sinnar Borðið úti til að hjálpa til (e. Eat Out to Help Out), eftir að The Telegraph upplýsti um að Hancock „stöðvaði fréttaflutning“um að veitingaafslátturinn hefði valdið frekari Covid smitum.
Þáverandi heilbrigðisráðherra og ráðgjafar hans ræddu hvernig Sadiq Khan, borgarstjóri Verkamannaflokksins í London, hefði verið gagnrýninn á yfirvofandi lokanir á staðnum áður en hann ræddi nýjasta afbrigðið.
WhatsApp skilaboðin sýndu að þeir höfðu áhyggjur af því að Khan væri að „mynstra sig við að vera eins og Burnham“ - tilvísun í Andy Burnham, borgarstjóra Stór-Manchester, sem hafði verið þyrnir í augum ríkisstjórnarinnar um haustið vegna staðbundinna lokana á svæðinu.
Poole benti síðan á að þingmenn Íhaldsflokksins væru þegar „brjálaðir yfir horfunum“ vegna annarar lokunar, sem setti stjórn Johnsons undir töluverðan þrýsting.
Í byrjun desember var landið komið úr seinni landslokuninni - eins mánaðar heildarlokun í landinu - og farið inn í þrepaskipt kerfi takmarkana sem þýddi að mismunandi svæði landsins voru háð mismunandi lokunarráðstöfunum.
Sálfræðingar hafa þegar varað við því að sum skilaboð stjórnvalda á meðan Covid faraldrinum stóð, þar á meðal að nota meintan „hræðsluáróður“ í plakötum og heilsuherferðum, hafi verið „mjög siðlausar“. Uppblásinn ótti hafi stuðlað að óhóflegum dauðsföllum óskyldum veikindum vegna Covid og auknum kvíðaröskunum.
Samskiptin voru ekki þau einu þar sem sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra og aðrir háttsettir embættismenn ræddu um aðferðir til að hræða almenning til að hlýða.
Sex mánuðum fyrr, í júní 2020 - þegar Bretland var að koma út úr fyrstu Covid lokun sinni - virtust Hancock og Sir Patrick Vallance, aðalvísindaráðgjafi ríkisstjórnarinnar, ánægðir með að rannsókn á útbreiðslu veirunnar sem sýndi „jákvæða þróun“ og hafði ekki hlotið umfjöllun á meðan „svartsýn“ könnun hafði verið tekin upp og birt af fjölmiðlum.
„Ef við viljum að fólk hagi sér þá er það kannski er það ekkert slæmt,“ sagði Hancock í WhatsApp skilaboðum. Sir Patrick virtist vera sammála því og svaraði: „Sjúgið upp svartsýna túlkun þeirra og hlýðið.“
Ein könnun - Rauntímamat á smitum í samfélaginu frá Imperial College í London - sýndi að R - margföldunarhlutfall vírusins hafði lækkað í 0,57. Á sama tíma sýndi rannsókn Cambridge-háskóla í tengslum við Heilbrigðisstofnun Bretlands mikinn smithraða í sumum landshlutum, sem olli ótta við staðbundna lokun.
Fjórum mánuðum síðar, í október 2020, lagði Poole til í hópspjalli að hætta að birta svokallaðan vaktlista yfir svæðin þar sem vírusinn mældist útbreiddur. Það væri gagnlegt fyrir ríkisstjórnina, vegna þess að það myndi valda ótta við útbreiðslu með nýrri bylgju á þeim svæðum.
„Það hjálpar við að sannfæra fólk um að ástandið sé mjög slæmt ef við upplýsum ekki,“ segir í skilaboðu Poole.
Í janúar 2021 lagði Case til að „óttinn“ væri „mikilvægur“ í baráttunni við nýjustu Covid-bylgjuna í þriðju lokuninni.
Case og Hancock ræddu hvaða frekari ráðstafanir myndu skila árangri, þar á meðal að gera „meiri grímunotkun“ að skyldu, þar á meðal „í öllum aðstæðum utan heimilis“.
Case sagði svo: „Í grundvallaratriðum þurfum við að herða reglurnar,“ en sagði að sumar ráðstafanir – eins og bann við stangveiði – „verði skopstælt í miklum mæli ef það lítur út fyrir að við höfum skyndilega ákveðið að veiðar séu fyrsta skrefið í átt að 5. þrepi!“
Herra Hancock svaraði: „Satt að segja myndi ég ekki eiga við svoleiðis smáræði nema við höldum mikið áfram. Það eina stóra sem eftir er eru leikskólar og vinnustaðir.“
Case svaraði: „Ég er sammála - ég held að það sé alveg rétt. Smámál líta fáránlega út. Að magna óttann/sektarkenndina er mikilvægt.
Ráðherra ríkisstjórnarinnar lagði þá til að enduropnun Nightingale sjúkrahúss í London - notað sem yfirfallsaðstaða fyrir sjúklinga sem ekki eru með Covid - yrði „stór opinber stund“. Í raun og veru voru aðeins örfáir sjúklingar lagðir inn.