Hatur á alþingi

frettinHatursorðæða, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Katrín forsætis og Helga Vala þingmaður Samfylkingar ræddu hatur á alþingi. Tilefnið er ætlun Katrínar að efna til námskeiða fyrir opinbera starfsmenn um afleiðingar hatursorðræðu. Helga Vala sagði ekki vanþörf á að þingmenn færu á námskeiðið

Ég verð að segja að ég hef miklar áhyggjur af því hvernig við leyfum okkur að tala hérna inni. Hvernig við leyfum okkur að kynda undir ýmiss konar skautun og hatursorðræðu beinlínis. Ekki kynda undir heldur beinlínis ástunda hatursorðræðu hér í þingsal. Það leyfa ákveðnir þingmenn sér það að mínu mati.

Ekki fóru þær stöllur nánar út í hverjir iðkuðu helst hatur gegn hverjum. Af samhenginu má ráða að helstu þolendur séu þeir sem kalla sig hinsegin fólk.

Eins og margt annað í menningunni er orðræðan um hatur innflutt. Verður að leita til útlanda að fyrirmyndum fyrir hálfkveðnar vísur Katrínar og Helgu Völu.

Í bresku útgáfunni Telegraph er í dag ítarlegt viðtal við samkynhneigða konu, Kathleen Stock, sem varð fyrir slíku hatri að hún fyrir tveim árum hrökklaðist úr starfi sem háskólaprófessor.

Stock vann sér það til óhelgi að segja kyn skipta máli. Hún tók þátt í umræðu og gaf út bókina Efnislegar konur þar sem hún andmælti þeirri tískuhugsun að karlar gætu skipt um kyn si svona. Ástæða andmælanna er að Stock og fleiri samkynhneigðar konur tóku eftir að karlar taka í vaxandi mæli upp á því að gerast konur til að komast inn á sérrými kvenna. 

Karlar sem skipta um kyn eru kallaðir transkonur. Mörgum konum, ekki síst samkynhneigðum eins og Stock, finnst illa að sér vegið með innreið karla inn í heim kvenna með forskeytið trans að vopni.

Stock er femínisti og býr sem slík við uppnefnið TERF, róttækur femínisti með transfóbíu. Hún segist í viðtalinu ekki lengur kippa sér upp við hatursorðræðuna en vill leggja sitt af mörkum til að femínískar samkynhneigðar konur fái um frjálst höfuð strokið og sæti ekki ofsóknum af hálfu transfólks. Tilefni viðtalsins er átak Stock og tenniskonunnar Martínu Navratilovu að vekja athygli á bágri stöðu samkynhneigðra kvenna.

Samkynhneigðar konur eru minnihlutahópur sem verður fyrir ofsóknum annars minnihlutahóps er kennir sig við trans. Hér er komin ástæðan að Katrín forsætis og Helga Vala þingmaður tala í hálfkveðnum vísum. Báðar höfða þær til minnihlutahópa, bara ekki sömu hópanna.

Menningarstríð minnihlutahópa getur tæplega orðið tilefni herferðar stjórnvalda gegn almenningi með ásökunum um að hatursorðræða sé alvarlegt samfélagsmein. Fámennu kjósendahóparnir að baki Katrínu forsætis annars vegar og hins vegar Helgu Völu ættu fremur að slíðra sverðin og finna málamiðlun.

Sígild málamiðlun í anda Þorgeirs Ljósvetningagoða yrði eftirfarandi. Kyn skiptir máli, en sérhver einstaklingur má í huga sér vera af hvaða kyni sem vera skal. Prívatkyni á ekki að troða upp á aðra.

Stundum þarf dómgreind miðaldra hvítra karla til að greiða úr öfgaflækjunni.

 

Skildu eftir skilaboð