Eftir Þorstein Siglaugsson:
Síðastliðinn föstudag, sama dag og Facebook skellti „rangupplýsingastimpli“ á tilvísanir í hina þekktu Cochrane Review rannsókn á grímunotkun, sem sýnir fram á gagnsleysi hennar, gaf aðalritstjóri Cochrane út yfirlýsingu þar sem reynt var að gera sem minnst úr niðurstöðunum og jafnvel gengið svo langt að fara rangt með tilgang rannsóknarinnar. Sama dag var ráðist á aðalhöfund rannsóknarinnar, Dr. Tom Jefferson í grein í New York Times, þar sem fullyrt var að hvað sem niðurstöðunum líði dragi grímur samt úr útbreiðslu öndunarfæraveira.
Ég birti gagnrýna umfjöllun um umræddasta staðreyndaskoðunargrein síðasta sunnudag sem síðan var endurbirt á Daily Skeptic og á vef Brownstone Institute daginn eftir. Í stuttu máli var það niðurstaða mín að þessi svokallaða "staðreyndaskoðun" væri einskis virði, hvort sem litið væri til meðhöndlunar höfundarins á staðreyndum, ályktunarhæfni hans eða siðferðis.
Í dag sendi Tom Jefferson kvörtun til New York Times þar sem hann benti á hugsanlegan hagsmunaárekstra höfundar skoðanagreinarinnar í New York Times; hún væri höfundur greinar um grímunotkun sem ekki hefði hlotið náð fyrir augum höfunda Cochrane rannsóknarinnar.
Maryanne Demasi, sem tók viðtal við Jefferson skömmu eftir birtingu rannsóknarinnar, veitir frekari upplýsingar um málið í dag. Hún hefur eftir Jefferson að einungis rétt áður en aðalritstjórinn sendi frá sér yfirlýsinguna hafi hún upplýst höfundana um þau áform sín, en án þess að gera þeim neina grein fyrir innihaldinu.
Demasi segir að höfundarnir hafi þegar komið saman og muni senda formlega kvörtun til stjórnenda Cochrane:
„Við erum höfundarréttarhafar rannsóknarinnar svo við ákveðum hvað þar stendur. Við breytum ekki niðurstöðum okkar á grundvelli þess sem fjölmiðlar vilja,“ sagði Jefferson fyrir hönd höfundanna.
Í grein sinni fjallar Demasi ítarlega um bakgrunn málsins, rifjar upp fyrra dæmi um svipaða atburðarás, og fjallar um þá óvissu varðandi áframhaldandi fjármögnun sem Cochrane glímir nú við.
Grein Demasi má sjá hér í heild sinni.