Heimildin: Tinder auðmanna og blaðamanna

frettinFjölmiðlar, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Heimildin er stefnumót blaðamanna og auðmanna. Blaðamenn skaffa efni og auðmenn peninga. Blaðamenn fá lifibrauð og sykurpabbarnir fréttaumfjöllun þeim að skapi. Orðsporsáhætta fylgir eignarhlut í Heimildinni þar sem helmingur ritstjórnar er sakborningur í refsimáli.

„Ekki hef­ur verið gefið upp hvernig eign­ar­haldi hins sam­eig­in­lega fé­lags er háttað,“ segir í viðtengdri frétt. Þeir sem kaupa blaðamannavændi fá flekkað mannorð, það segir sig sjálft, en vilja síður sjá það skjalfest í dómsskjölum.

Heimildin var áður tvær útgáfur, Stundin og Kjarninn. Auðmaðurinn Höskuldur Höskuldsson átti hlut í Stundinni. Hann þurfti ekki að hafa áhyggjur af gagnrýnni umfjöllun um viðskiptin við Landsspítala. Aðrir í sömu stöðu, í viðskiptum við ríkið, njóta ekki sömu friðhelgi.

Meðal hluthafa Kjarnans eru fjárfestar eins og Hjálm­ar Gísla­son­, Vil­hjálmur Þorsteinsson, Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson. Þeir tveir fyrrnefndu eru áhugasamir um ESB-aðild Íslands en hinir tveir tengdir Sjálfstæðisflokknum.

Auðmenn líta á útgáfur eins og Heimildina sem verkfæri til að ýmist búa til fréttamál eða þegja fréttir, allt eftir hvaða kaup eru gerð á eyrinni hverju sinni.

Heimildarblaðamenn auka verðgildi sitt með samstarfi við ríkisfjölmiðilinn, RÚV. Samræmdur fréttaflutningur gefur aukinn slagkraft. Verðmiðinn á vændinu hækkar.

Án auðmanna lifir Heimildin ekki. Páll skipstjóri Steingrímsson, býr að nánari kynnum við blaðamenn og fjölmiðla en margur annar. Hann tók saman stöðu útgáfunnar í færslu á Facebook:

Ég veit það sést illa en notendum fækkaði um 500 hundruð milli vikna og eru rúmlega 14,600 núna. Innlitin í síðustu viku voru tæplega 18,500 og flettingar 37,000 (ég námunda upp). Til samanburðar var næstminnsti fjölmiðillinn, Mannlíf, með 94,000 flettingar. Á heimildinni starfa 13 manns, þar af þrír ritstjórar – einn þeirra hvorki meira né minna en rannsóknarritstjóri. Markaðshlutdeild eftir veltu, samkvæmt eigin greiningu Heimildarinnar í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er 1.5%.

Um þessar mundir eru tveir starfsmenn Heimildarinnar að reyna að þagga niður í og kæla framhaldsskólakennara sem bloggar í hjáverkum. Ekki nóg með það heldur hefur hann verið látinn standa fyrir svörum um fjármögnun varnar sinnar. Enginn hefur spurt hvort ríkisstyrkurinn hafi verið notaður í þessa málshöfðun Dodda litla (já það er staðfest að hann er lítill í samanburði við mig) og skósveins hans. Eða auglýsingasölur eða notendagjöld.

Sem fyrr segir bloggar framhaldsskólakennarinn einu sinni á dag áður en hann mætir til vinnu. Ekki eru til upplýsingar um fjölda notenda hans en það liggja fyrir upplýsingar um innlit og flettingar, líkt og hjá Heimildinni. Í síðustu viku var bloggarinn með 13,500 innlit (73% af innlitum Heimildarinnar) og 18,200 flettingar (49% af innlitum Heimildarinnar).

Nú þegar Lilja fjölmiðlaráðherra endurskoðar ríkisstyrk til fjölmiðla hlýtur hún að taka með í reikninginn að fjölmiðlar á snærum auðmanna eru ekkert endilega í þágu almannahagsmuna. Samræmdur fréttaflutningur þjónar ekki lýðræðinu heldur er hann holdtekja vændisblaðamennsku þar sem sannindi eru aukaatriði.

Skildu eftir skilaboð