Ofurjarðskjálfti pólitískrar heimsku

frettinJón Magnússon, Pistlar1 Comment

Jón Magnússon skrifar:

Dálkahöfundurinn Ambrose Evans Pritschard hjá DT, segir um aðgerðir Evrópusambandsins(ES) í landbúnaði, að á Richter skala þá sé erfitt að finna nokkuð í líkingu við þá pólitísku heimsku, sem reglur ES í landbúnaði feli í sér.

Bændur í Frakklandi mótmæla stefnu ES og sama gera bændur í Belgíu og Spænskir bændur eru taldir líklegir til að fylgja í fótspor þeirra.

Hækkun á gjöldum á dísilolíu til bænda var neistinn sem kveikti bálið að þessu sinni. Einn talsmaður franskra bænda sagði að vandamálin hafi verið valin og skipulögð af ES andstætt almennri skynsemi (common sense)og gegn hagsmunum bænda. Öllum varnaðarorðum hafi verið ýtt til hliðar.

Tekjur bænda í Frakklandi hafa dregist mikið saman og fyrirskipanir ES um að draga úr notkun á skordýraeitri um 50% og tilbúnum áburði um 20% og breyta framleiðslunni þannig að 25% séu lífræn í nafni grænna gilda er framtíð, sem að franskir bændur sjá að þeir geta ekki ráðið við. Með þessu regluverki eru völdin tekin frá þjóðríkjum og ráðstjórnin í Brussel tekur öll völd í sínar hendur.

Ráðstjórnin í Brussel hefur að þessu sinni gengið allt of langt. Bændur í Hollandi buðu fram í síðustu sveitarstjórnarkosningum og náðu að verða stærsti stjórnmálaflokkur Hollands vegna andstöðu sinnar við fyrirskipanir frá Brussel. Hollenskur landbúnaður er einn sá besti í heimi, en það átti að endurtaka mistökin frá Sri Lanka og banna þeim að nota tilbúin áburð og loka 11.200 bændabýlum (þvingunarráðstöfun)og gera 17.600 bændum til viðbótar að draga úr framleiðslu um þriðjung. Allir sáu að þetta gat aldrei gengið upp - Nema ráðstjórnin í Brussel. Nú tala menn um Nexit í vegna þess hve þeim fjölgar hratt í Hollandi,sem vilja segja sig úr ES.

Í lok greinar sinnar segir Pritschart að best sé að láta kosin þjóðþing og ríkisstjórnir sjá um þessa hluti í stað teknókratana í ES, sem séu einangraðir frá almennri skynsemi og pólitískri ábyrgð, en það sé ekki hægt að víkja þeim frá og það sé mjög erfitt að breyta lagabálkum upp á 180 þúsund blaðsíður. Þess vegna geti stofnunin (ES) haldið áfram rangri stefnu í langan tíma áður en það springur.

Það er dapurlegt að horfa upp á þessa einræðistilburði ólýðræðislegrar yfirstjórnar ES og þennan skynsemisskort, sem veldur því að Evrópa er stöðugt að dragast aftur úr öðrum.

Hvaða erindi á Ísland í þennan klúbb ráðstjórnar og einræði, þar sem allt gengur út á að draga úr fullveldi aðildarríkjanna og að sama skapi draga valdið til Brussel á öllum sviðum.

Við þessar aðstæður er dapurlegt að íslenskir stjórnmálamenn telji það helst mega verða til varnar sínum sóma að lögfesta reglur varðandi bókun 35, sem veitir regluverki ES forgang umfram lög samþykkt á Alþingi.

One Comment on “Ofurjarðskjálfti pólitískrar heimsku”

  1. Vandamálið við flesta stjórnmálamenn er að þeir eru orðnir veruleikafirrtir, þeir þurfa að koma niður af sínum háa stalli og kynnast raunveruleikanum. En það er fyrir neðan þeirra virðingu. Þess vegna þarf almenningur að slá þá niður úr fílabeinsturninum.

Skildu eftir skilaboð