Guðmundar- og Geirfinnsmálið var tekið fyrir í Landsrétti á föstudaginn 15. desember þar sem íslenska ríkið var dæmt til að greiða Guðjóni Skarphéðinssyni 260 milljónir í bætur og dánarbúi Kristjáns Viðars Júlíussonar 350 milljónir í bætur. Ríkið var hins vegar sýknað af kröfum aðstandenda Tryggva Rúnars Leifssonar sökum þess að Tryggvi var fallinn frá áður en málið var höfðað. Kristján lést hins vegar í mars á þessu ári, eftir að mál hafði verið höfðað.
Fréttin.is hafði samband við dótturson og nafna Tryggva Rúnars og spurði um möguleika afkomendanna í ljósi dómsins.
„Eftir dóm Landsréttar hefur augljóslega myndast ákveðið misræmi dómþola á milli, sem rímar illa við yfirlýsingar forsætisráðherra hérna um árið að gæta jafnræðis við þetta uppgjör.“ Hér vísar Tryggvi meðal annars í frumvarp sem Alþingi samþykkti 2019 um greiðslu bóta.
„Það er einkennilegt ef það er virkilega þannig, eins og Landsréttur segir, að lögin mismuni mönnum eftir dánardögum. Þá er kominn vondur hvati inn í kerfið að það tefji, þvæli og þaggi niður mál – eins og það hefur raunar gert í tilfelli þessa máls í núna nærri hálfa öld. Væri þá ekki hægt að líta á það, þegar dómararnir köstuðu málinu aftur út á götu á 10. áratugnum, sem sparnaðarráðstöfun af þeirra hálfu? Menn að vinna fyrir laununum sínum?“
En hvað er þá til ráða fyrir aðstandendur þeirra sem létust áður en mál var höfðað?
„Fyrsta spurningin sem við þurfum svar við er hvort framkvæmdavaldið hafi einhvern vilja til að leiðrétta þetta augljósa misræmi sem nú er komið upp.“