Kvikmyndatökumaðurinn og youtube-stjarnan Josh Neuman er samkvæmt erlendum miðlum einn farþeganna sem var í vélinni sem fórst í Þingvallavatni.
Líkt og alþjóð er kunnugt um, fannst flugvél í vatninu eftir umfangsmikla leit björgunarsveita í gærkvöldi. Í henni voru fjórir menn, einn flugmaður og þrír erlendir ferðamenn. Aðrir erlendir miðlar hafa greint frá því að hinir ferðamennirnir hafi verið hollenskur ljósmyndari og belgískur ævintýramaður og áhrifavaldur.
Þá greindi mbl.is frá því að vélin hafi verið mannlaus og því ljóst að mennirnir hafa komist úr vélinni af sjálfsdáðum eftir að hún lenti í vatninu en slysstaðurinn er um einn km. frá landi þar sem styst er.
Leitarhópar hafa verið boðaðir til leitar á morgun á og við vatnið eftir nánara skipulagi svæðisstjórnar björgunarsveita.
Ljóst er að ef leitin ber ekki árangur verður ekkert aðhafst á mánudag og að líkindum lítið á þriðjudag vegna veðurs.
Eitt myndbandið sem Josh tók upp Íslandi síðasta sumar má sjá hér að neðan, en þar sést hann renna sér á hjólabretti niður sömu brekku og Ben Stiller gerði í hlutverki Walter Mitty í vinsælli bandarískri kvikmynd.
Josh er einnig með heimasíðu sem má sjá hér.