RÚV og Rogan ,,fréttin“

frettinPistlar3 Comments

Helgi Örn Viggósson skrifar:

Enn eina ferðina afhjúpar RÚV sig sem áróðursmiðill, sem í þessu tilfelli endurvarpar efni sem hrært er saman á PR (aka áróðurs-) skrifstofum hagsmunaafla í útlöndum.

Eins og allir vita sem fylgjast sæmilega með fréttum stóru erlendu fréttastöðvanna, hafa þær að undanförnu keyrt heljarmikla samstillta ófrægingarherferð gagnvart hlaðvarparanum Joe Rogan. Auðvelt er að átta sig á hvað liggur að baki, því hagsmunatengsl þessara fréttastöðva við gróðaöfl faraldursins eru kristalskýr.

Joe Rogan, einn vinsælasti hlaðvarpari veraldar, hefur heldur betur tekist að koma áróðursmaskínu ráðandi afla faraldursins upp á afturlappirnar að undanförnu og kallað á ómælda vinnu af þeirra hálfu.

Fyrst hrekkti hann þá þegar hann, óbólusettur, veiktist af kóvid og sagði alþjóð frá því hvernig hann náði fullri heilsu ofursnöggt með því m.a. að nota ivermektín, lyfið sem er eins og eitur í beinum lyfjarisanna, af ástæðum sem öllum sæmilega upplýstum eru kunnar. Og núna síðast fyrir að hafa tekið í viðtal með skömmu millibili tvo af fremstu læknum og vísindamönnum Bandaríkjanna, þá Dr. Peter McCullough og Dr. Robert W. Malone, sem báðir voru í úrvalsliði lækna og vísindamanna í Second Opinion pallborðsumræðunum um daginn í þinginu í Washington, D.C. á vegum öldungardeildarþingmannsins Ron Johnson. [6, 7]

Að sjálfsögðu kom það ekki fram í “frétt” RÚV að “bullið” sem væri verið að “spýja út” í þáttum Joe Rogan, kæmi frá tveimur af fremstu læknum/vísindamönnum á sviðinu. Það hefði gert söguþráðinn ótrúverðugri, hinn illa upplýsti lýður sem borgar “fréttamönnum” RÚV launin þeirra, átti að sjálfsögðu ekkert að fá að vita um “smáatriði” málsins. Óhætt er að ganga út frá því sem vísu að þeir sem unnu “fréttina” kunnu vel skil á öllum smáatriðunum og þar með að um einbeittan afbrotavilja hafi verið að ræða.

En hverjir eru þessir menn?

Dr. Peter McCullough: Einn mest útgefni og tilvísaðasti hjartasérfræðingur heims, einnig lyflæknir og með meistaragráðu í faraldsfræði, fyrrverandi prófessor, ritstjóri tveggja læknisfræðitímarita, hefur komið að meðferð mörg hundruð kóvid sjúklinga með góðum árangri, er höfundur að á sjötta tug ritrýndra vísindagreina um kóvid og tekið þátt í að þróa árangursrík meðferðarprótókól fyrir sjúkdóminn. Hann hefur verið kallaður til vitnis sem sérfræðingur um kóvid af þinginu í Washington DC og fylkisþingum í Texas og Suður-Karólínu.

Þáttur Joe Rogan með Dr. McCullough rauk í fyrsta sætið á vinsældalistum í BNA og er óhætt að mæla með áhorfi fyrir fólk sem hefur áhuga á kynna sér málin og draga eigin ályktanir. Hlekk í þáttinn má finna hér:

Dr. Robert W. Malone: Í samhengi bóluefnatækninnar sem hér um ræðir, án nokkurs vafa einn fremsti vísindamaður heims á sviðinu, m.a. höfundur fyrstu ritrýndu vísindagreinanna um mRNA tæknina og einkaleyfanna sem gefin voru út á því sviði. Nánari upplýsingar má sjá hér:  og hlekk á þáttinn með Dr. Malone má finna hér:

Og hér má lesa ágæta umfjöllun um viðtalið - Rogan and Malone: Most Important Interview of Our Time? 

Vísindamenn í sama klassa og Messi og Ronaldo

Hér er sem sagt óumdeilanlega um að ræða heimsklassa vísindamenn í samhenginu. Ef við líktum þessu við fótbolta, þá væru þeir í sama klassa og Messi og Ronaldo, á meðan unglæknirinn sem RÚV notaði sem “sérfræðing” í “fréttinni” væri í besta falli að hefja ferilinn í 6. flokki.

En rennum aðeins yfir það sem fram kom í “frétt” RÚV sem virðist styðjast við frásögn úr The Guardian (sem þegið hefur vel á annan milljarð í formi styrkja frá Bill Gates [1]):

Í byrjun er sagt frá því að á þriðja hundruð sérfræðinga hafi birt opið bréf þar sem þeir lýsa áhyggjum sínum yfir því að Joe Rogan sé að breiða út lygar. Ef listinn yfir “sérfræðingana,” sem að stórum hluta eru ekki læknar, er skoðaður, þá er hann ekki beint beysinn, a.m.k. ekki í samanburði við þá rúmlega 17.000 lækna og vísindamenn, sem skrifuðu undir Rómar yfirlýsinguna í kjölfar Global Covid Summit í október sl. á vegum International Alliance of Physicians and Medical Scientists, þar sem Dr. McCullough og Dr. Malone voru á meðal margra af helstu vísindamönnum í samhenginu, hvar stjórnvöld heimsins voru vöruð við þeirri miklu lýðheilsuógn sem stafar af tilraunabóluefnunum - afar vel rökstutt, með vísan í nálægt 100 rannsóknir. Að sjálfsögðu flutti RÚV aldrei neinar fréttir af þessari merku ráðstefnu. [2]

Rétt er að geta þess að það eru hæg heimatökin hjá lyfjarisunum að safna saman á svona lista, því það er vel þekkt staðreynd að þau eru með á sínum snærum þúsundir draugapenna, sem þeir nota gjarnan þegar fela skal hagsmunatengsl, s.s. blekkja, hvort sem um vísindagreinar eða annað efni, t.d. fræðsluefni á vefnum er að ræða. [3] Gervigrasrótar brölt þeirra er líka vel þekkt, eins og hinn margverðlaunaði rannsóknarblaðamaður, Sharyl Attkisson, gerði góð skil á í TEDx fyrirlestri 2015:

Unglæknirinn Jón Magnús Jóhannesson

Kemur þá að þætti unglæknisins, Jóns Magnúsar Jóhannessonar, sem farið hefur mikinn í skrifum á félagsmiðlum um kóvid og því miður líka á Vísindavef HÍ. Því miður, vegna þess að þessi annars ágæti vefur, setur mikið niður fyrir það, þar sem þau eru nánast 100% í línu við áróðurinn sem er í gangi, hafa sem sagt lítið með vísindi að gera að mínu áliti og stór spurning hvað réttlætir að RÚV skuli kalla hann til sem óhlutdrægan sérfræðing.

Jón Magnús sakar þessa nafntoguðu vísindamenn, þá Dr. McCullough og Dr. Malone um að dreifa falsvísindum og að auðsannanlegt sé að svo sé. Ekki verður sagt að þetta komi á óvart miðað við skrif þessa manns, held satt best að segja að það sé ómögulegt að vanmeta hann. Allir sem hafa reynslu af því að lesa vísindin og kynnt sér hvað þessir nafntoguðu vísindamenn hafa sagt og gert vita að þarna fer unglæknirinn með fleipur.

Þarna fara augljóslega mjög vandaðir vísindamenn, sem byggja allt sem þeir segja á bestu vísindum, ekki falsvísindum, eins og Jón Magnús heldur fram, enda koma þau helst úr smiðjum stórra hagsmunaaðila, þ.e. lyfjafyrirtækjanna, eins og dæmin sanna, sbr. stóru Lancet/NEJM/Surgisphere hneykslin. [4,5]. Með því að vera heiðarlegir, fylgja sannfæringu sinni og lækniseiðnum sínum út í hörgul, eru þeir að fórna sínum eigin hagsmunum, fjárhagslegum sem starfsferils í þágu almannaheilla.

Aulahrollur og aðjúnkt í félagsfræði

Þegar maður hélt að aulahrollurinn gæti ekki orðið meiri, birtist á skjánum aðjúnkt í félagsfræði sem sagði eftirfarandi:
“Það er ákveðin málábyrgð sem trompar þetta blessaða málfrelsi. Læknasamfélagið, vísindasamfélagið er fyrir lifandis löngu búið að sanna það að þetta er algjör vitleysa sem er verið að spýja þarna út þannig að það er ekki hægt að bjóða upp á þetta…”.

Varla hægt að hugsa sér óvísindalegri ummæli og þar að auki virðist hann ekki bera mikla virðingu fyrir “blessaða” málfrelsinu, undirstöðu vísinda og lýðræðis. Hann hefur líklegast ekki horft á umrædda þætti miðað við hvað hann segir og veit þ.a.l. ekkert hvað hann er að tala um, en ég ætla að láta duga að segja eftirfarandi um þetta: Að maður sem stundar kennslu í félagsvísindum við Háskóla Íslands, skuli leyfa sér að segja þetta um tvo af virtustu og mest útgefnu vísindamönnum læknisfræðinnar, er til háborinnar skammar og gerir ekkert annað en að rýra álit á skólanum sem vísinda- og menntastofnunar.

Spotify fullt iðrunar?

Undir lok þessa óskapnaðar reynir “fréttamaðurinn” að láta líta út fyrir að Spotify sé fullt iðrunar yfir þessu (þeir hafa bætt við hlekk á vef WHO þar sem fram kemur að tilraunabóluefnin séu “safe and effective”) og að Joe Rogan sjálfur hafi tekið gagnrýnina til sín. RÚV birtir svo u.þ.b. 10 sekúndna brot úr 10 mínútna löngu myndbandi sem Rogan birti til að útskýra sína hlið. Tilgangur “fréttamannsins” er greinilega að láta auðtrúa áhorfandann halda að Rogan sé fullur iðrunar líka. Hið sanna er að þarna er hann einfaldlega að útskýra sína hlið málsins, sem svar við þeim ofsafengnu árásum sem hagsmunaaðilarnir hafa hrint í gang gegn honum. Aðilar sem í krafti auðs og valda hafa staðið fyrir áróðri, ritskoðun og þöggun frá því að faraldurinn hófst.

Kjarni máls Joe Rogan í þessu myndbandi er hér í lauslegri þýðingu:
"...hlaðvarpið hefur verið sakað um að dreifa hættulegum röngum upplýsingum, sérstaklega í tveimur þáttum, einn með Dr. Peter McCullough og annar með Dr. Robert Malone. Dr. Peter McCullough er hjartalæknir og sá læknir sem gefið hefur út mest efni á sínu sviði í sögunni.

Dr. Robert Malone er með 9 einkaleyfi varðandi sköpun mRNA bóluefnistækninnar og er a.m.k. að hluta til ábyrgur fyrir sköpun tækninnar sem leiddi til mRNA bólusetninganna. Báðir þessir menn eru afreksmenn á sínu sviði og þeir hafa aðrar skoðanir heldur en meginstraums narratífið. Ég vildi heyra hver þeirra skoðun er og þar sem þessir þættir eru merktir sem "hættulegar rangar upplýsingar." Vandamálið varðandi það hugtak, sérstaklega í dag, er að margt að því sem við héldum vera rangar upplýsingar fyrir stuttu síðan er samþykkt sem staðreyndir núna.

Sem dæmi, ef þú hefðir sagt fyrir 8 mánuðum síðan að bólusettir gætu ennþá fengið kóvid og þeir geti enn dreift kóvid, þá hefðir þú verið fjarlægður af samfélagsmiðlum. Núna er þetta samþykkt sem staðreynd. Ef þú sagðist halda að taugrímur virkuðu ekki, þá hefðir þú verið bannaður frá mörgum samfélagsmiðlum en núna er það markítrekað tekið fram á CNN. Ef þú sagðist halda að kóvid-19 hafi komið frá rannsóknarstofu, þá hefðir þú verið bannaður á mörgum samfélagsmiðlum, núna er það á forsíðu Newsweek.

Allar þessar kenningar sem eitt sinn voru bannaðar voru opinskátt ræddar af þessum tveimur mönnum sem ég var með í hlaðvarpinu mínu og hafa fyrir vikið verið sakaðir um "hættulegar rangar upplýsingar." Ég veit ekki hvort þeir hafi rétt fyrir sér, ég er ekki læknir, ég er ekki vísindamaður, ég er bara manneskja sem sest niður með fólki og ræði við það..."
Áhugasamir geta fundið þetta vídeó ásamt umritun í texta hér:

Ítrekaður áróður RÚV

RÚV hefur ítrekað flutt áróður sem þennan síðan faraldurinn hófst og lagt mikla vinnu í það á kostnað skattgreiðenda. Það gerist nánast í hverjum fréttatíma, þó að yfirleitt sé það ekki eins gróft eins og í þessu tilfelli. Hver man ekki eftir Kveiks þættinum sem átti að fjalla um fólk sem hefur efasemdir um bólusetningarnar? Þar brúkaði þessi ríkisstofnun áróðurstækni sem notuð var í gömlu kommúnistaríkjunum og sem má lesa varnaðarorð um í bók Orwell, 1984, til að láta þetta efasemdarfólk líta eins illa út og kostur var. Jóhannes Loftsson, gerði þessu mjög góð skil á sínum tíma hér: Minnishola RÚV.

Oft skín kjánaskapurinn í gegn í áróðrinum, eins og þegar stofnunin fjallaði í sjónvarpsfréttum sínum um herferð í Frakklandi sem laut að því að kenna skólakrökkum að þekkja falsfréttir. Inn í þessa frétt slæddist svo augljós falsfrétt, varla hægt að hugsa sér klaufalegri vinnubrögð. Ég fjallaði um þetta á sínum tíma: Falsfréttir í frétt um falsfréttir.

Af hverju tekur ríkisfjölmiðill þátt í skaðlegum áróðri?

Stóra spurningin sem eftir situr, er af hverju er ríkisfjölmiðill Íslands að taka þátt í þessum í senn ógeðfelda og skaðlega áróðri? Ljóst er að þegar faraldurinn verður gerður upp er nauðsynlegt að fram fari rannsókn á því hvers vegna RÚV hefur kosið að nálgast málin á svo hlutdrægan hátt eins og raun ber vitni.

Heimildir:
1. Revealed: Documents Show Bill Gates Has Given $319 Million to Media Outlets -

2. Physicians Declaration – Global Covid Summit

3.MEDICAL JOURNALS ARE HAUNTED BY PHARMA’S GHOSTWRITERS

4. Hneyksli áratugarins í læknavísindum -

5. Ron Johnson að vinna vinnuna sína -

6. “Second Opinion” hringborðið í þinginu í Washington DC -

7. Dr. Richard Urso í viðtali um “Second Opinion” hringborðið -

3 Comments on “RÚV og Rogan ,,fréttin“”

  1. Það merkilega er að Joe Rogan er vinstra megin við Demókrataflokkinn í Bandaríkjunum og var eindreginn stuðningsmaður Bernie Sanders.

    Þó maður flaggi ekki sömu stjórnmálaskoðunum og Joe Rogan að þá á hann mikla virðingu skilið fyrir að taka óháð á málum og hefur verið tilbúinn að skipta um afstöðu í málum ef gildandi rök eru til staðar.
    Og þess vegna er hann eins vinsæll og hann er, af því að hann er ekta og leitar sannleikans í stað þess að troða lygaáróðri ofan í kokið á fólki eins og RÚV gerir nú æ ofan í æ.

    Maður skilur hreinlega ekki hvernig þetta fólk getur lifað með sjálfu sér ljúgandi að almenningi fyrir atvinnu og þiggja á sama tíma laun fyrir frá sama fólki og treystir þeim að vera segja sér sannleikann.

  2. Þessi „Fréttamiðill“ er ekkert annað er stæðsti FALSFRÉTTAMIÐILL landsinns.
    Það sést best á því hverjir eru ábyrgir fyrir þessari síðu og skrifa „Fréttirnar“
    Svo sést það einna best á því hverjir eru að dreifa þessum „Fréttum“ annarstaðar.

  3. Vönduð og beitt umfjöllun, að vanda. Fréttin verður sífellt betri miðill.

Skildu eftir skilaboð