Umboðsmaður hefur óskað eftir skýringum og svörum frá heilbrigðisráðherra vegna reglna um samkomutakmarkanir í reglugerð sem tók gildi 29. janúar sl. og er ætlað að standa til 24. febrúar nk.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu umboðsmanns.
Umboðsmaður spyr hvaða gögn, upplýsingar eða röksemdir hafi legið til grundvallar því mati ráðherra að „brýna nauðsyn“ hafi borið til að miða samkomutakmarkanir við 50 manns, með tilteknum undantekningum, og þeirri niðurstöðu að önnur vægari úrræði m.t.t. stjórnarskrárvarinna réttinda hafi ekki verið tiltæk. Einnig er spurt með hvaða hætti ráðherra hafi lagt sjálfstætt og heildstætt mat á tillögur í minnisblaði sóttvarnalæknis sem lagt var til grundvallar reglugerðinni.
Í bréfi umboðsmanns segir m.a. að ekki fari á milli mála að tilteknar sóttvarnaaðgerðir sem mælt er fyrir um í reglugerðinni hafi í för með sér beinar og óbeinar takmarkanir á athafnafrelsi borgaranna auk þess að setja ýmiskonar félags- og atvinnustarfsemi meiri skorður en leiði af almennum reglum. Þá kunni takmarkanirnar að hafa áhrif á veitingu opinberrar þjónustu, t.d. menntun og ýmislegt þar að lútandi.
Umboðsmaður óskar svara fyrir 19. febrúar nk. Ef gerðar verði breytingar á reglunum innan þess tíma, t.d. þannig að samkomutakmarkanir hafi verið rýmkaðar, er þess óskað að svör ráðherra taki einnig mið af þeim.
One Comment on “Umboðsmaður Alþingis sendir heilbrigðisráðherra bréf vegna samkomutakmarkana”
Það er hughreystandi að sjá að umboðsmaður alþingis sé að reyna að setja bremsur á alræði afglapanna.