Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, gaf út aðra yfirlýsingu nú undir kvöld varðandi fréttamennina fjóra sem sæta réttarstöðu sakbornings og hafa verið boðaðir til skýrslutöku.
Hann segir að ekki sé innistæða, á þessu stigi máls, til að gera athugasemdir við að lögregla óski eftir því að taka skýrslur af fréttamönnunum, enda væri málið einfaldlega til rannsóknar. Það eina sem er vitað með vissu um rannsóknina er að hún varðar brot á friðhelgi einkalífs.
Bjarni segist velta því fyrir sér, hvort allir séu jafnir fyrir fjölmiðlunum, ,,því mér hefur fundist sem efnistök og allur fréttaflutningur í þessu máli sé frábrugðinn því þegar almennir borgarar eigi í hlut.“
Bjarni segir engin viðbrögð hafa komið frá Ríkisútvarpinu við þessum vangaveltum sínum og segist heldur ekki vera að bíða eftir þeim. Í gær hafi aftur á móti birst yfirlýsing frá Blaðamannafélagi Íslands og Félagi fréttamanna. ,,Það hefur eflaust verið fyrirhafnarlítið fyrir formennina tvo, þær Sigríði Dögg Auðunsdóttur og Sigríði Hagalín Björnsdóttur, sem báðar starfa á fréttastofu Ríkisútvarpsins, að funda hvor í sínu félaginu og senda yfirlýsinguna sameiginlega frá sér,“ segir Bjarni og má því skilja sem svo að Bjarni líti á viðbrögð fréttamannana sem tvískinnung.
Hann bætir svo við að það getur ekki talist alvarlegt að taka lögregluskýrslu undir rannsókn máls, þar sem rökstuddur grunur er um brot, jafnvel þótt blaðamenn eigi í hlut og að þetta gildi óháð öllu því sem sagt hefur verið um rétt blaðamanna til að sinna störfum sínum, vernd heimildarmanna og fjölmiðlafrelsi.