Páll Vilhjálmsson blaðamaður og kennari skrifar:
Þrír blaðamenn Kjarnans og Stundarinnar eru þjófsnautar, birtu stolin gögn frá Páli skipstjóra Steingrímssyni. Fjórði grunaði einstaklingurinn, með stöðu sakbornings, er Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV.
Í fréttahönnun RÚV af málinu er þess vandlega gætt að fjalla ekki um Þóru. Hún skrifaði enga frétt úr gögnum Páls, og hlýtur að grunuð um annað en blaðamenn Kjarnans og Stundarinnar.
Þá heyrist hvorki hósti né stuna frá RÚV um Rakel Þorbergsdóttur sem tilkynnti skyndilega starfslok í nóvember sem fréttastjóri RÚV, þegar ljóst var að alvarlegt sakamál var í uppsiglingu. Starfsferill Rakelar á RÚV spannar 22 ár. Engin skýring var gefin og starf fréttastjóra var ekki auglýst fyrr en um áramót. Arftaki Rakelar var ekki ráðinn fyrir en lá fyrir hverjir liggja undir grun á Efstaleiti. Aðeins eru tveir dagar síðan.
Rakel var yfirmaður Þóru. Samskipti út á við, til dæmis tilboð um illa fengin gögn, kæmi inn á borð Rakelar fremur en Þóru.
Ekki hefur verið upplýst hvort Rakel sé grunuð líkt og Þóra. Ef hún er það ekki má leiða líkum að því að þær upplýsingar væru komnar fram. RÚV á fullt í fangi með að fela Þóru fyrir sviðsljósi sakamálarannsóknar. Ef staðfest yrði að Rakel væri einnig sakborningur yrði kastljósinu eingöngu beint að RÚV en Kjarninn og Stundin féllu í skuggann. En það hentar ekki fréttahönnun RÚV.
Rakel gæti verið lykilmanneskjan í samskiptum við verktakann er sá um að gera Pál Steingrímsson óvígan og stela af honum snjallsímanum.
Dauðaþögn RÚV um Þóru og Rakel er býsna hávær. Veigamestu ákærurnar í fyrirsjáanlegu dómsmáli munu ekki beinast að Kjarnanum eða Stundinni - heldur Glæpaleiti.