Greinin er eftir Heiðrúnu Björk Gísladóttur og var fyrst birt í Viðskiptablaðinu 17. febrúar (og á vef Viðskiptablaðsins 21. febrúar).
„Það er mjög mikilvægt að í sóttvarnalög verði ekki lögfest ákvæði sem gerir ráðherra kleift að takmarka ýmis stjórnarskrárvarin réttindi fólks.“
Heilbrigðisráðherra hefur lagt fram frumvarp til nýrra heildarlaga um sóttvarnir. Það er varhugavert að endurskoða sóttvarnalög fyrr en við höfum gert upp yfirstandandi tímabil. Eðlilegra væri að gera óháða rannsókn á faraldrinum hér á landi áður en ráðist er í slíka endurskoðun. Þar yrði skoðað hvernig hafi til tekist um sóttvarnir, hverjar afleiðingarnar hafi verið á efnahag fólks og fyrirtækja, hverjar séu félagslegar og heilsufarslegar afleiðingar og hvernig eigi að takast á við hliðstæða atburði sem síðar kunna að verða. Þannig væri ekki leitað sökudólga heldur væri hægt að læra af faraldrinum til frambúðar. Eftir þá rannsókn og að ákveðnum tíma liðnum frá lokum faraldursins er fyrst tímabært að ráðast í endurskoðun sóttvarnalaga.
Víðtæk skilgreining
Að því sögðu má finna jákvæðar breytingar í frumvarpinu sem varða dreifðari ábyrgð á tillögum til heilbrigðisráðherra um sóttvarnaaðgerðir. Eitt vekur hins vegar sérstaka athygli. Frumvarpið hefur að geyma skilgreiningu á nýrri tegund sjúkdóms, svokölluðum samfélagslega hættulegum sjúkdómi. Fyrirmyndina má finna í dönskum sóttvarnalögum en frumvarpið hefur að geyma víðtækari skilgreiningu. Það er því miður oft raunin þegar sett eru íslensk lög að fyrirmynd nágrannaríkja okkar.
Við höfum tilhneigingu til að ganga lengra sem hefur í framhaldinu bein áhrif á alþjóðlega samkeppnishæfni okkar. Þannig segir í skilgreiningu frumvarpsins að samfélagslega hættulegur sjúkdómur sé alvarlegur sjúkdómur sem veldur eða getur valdið alvarlegri röskun á mikilvægum störfum, innviðum samfélagsins og/eða sem leitt getur til verulega aukins álags á heilbrigðiskerfið verði hann útbreiddur í samfélaginu. Undirstrikuð er íslenska viðbótin.
Útvíkkað valdsvið ráðherra
Það er augljóst að sú staðreynd að við erum enn í baráttu við heimsfaraldurinn hefur veruleg áhrif á frumvarpið. Með framangreindri skilgreiningu verður álag á heilbrigðiskerfið ófrávíkjanlegur þáttur í mati á þörf sóttvanaaðgerða þegar sjúkdómur er samfélagslega hættulegur. Þó svo að í Covid-19 faraldrinum hérlendis hafi almennt verið tekið mið af stöðu heilbrigðiskerfisins þá er lögfesting þess sjónarmiðs til þess fallin að útvíkka verulega valdsvið heilbrigðisráðherra við töku ákvarðana um sóttvarnaráðstafanir. Með endurskoðun laga í því árferði sem við búum við núna raungerist þannig hættan á því að í lögin rati ákvæði sem þar eiga alls ekki heima til lengri tíma litið. Hættan stafar af því að hið óeðlilega ástand sem við höfum búið við síðastliðin tvö ár er orðið eðlilegt fyrir mörg okkar.
Álag á heilbrigðiskerfið er og verður mjög matskenndur þáttur við ákvarðanatöku stjórnvalda, sérstaklega þegar ekki liggja fyrir skýr viðmið um hvaða sóttvarnaaðgerðir rétt er að ráðast í miðað við ástand á hverjum tíma. Það er ófyrirsjáanlegt hvenær álag á heilbrigðiskerfi er orðið með þeim hætti að neyðarástand ríki á landspítalanum en sóttvarnayfirvöld hafa talað um slíkt ástand nánast viðvarandi síðustu tvö ár.
Stjórnarskrárvarin réttindi
Á stjórnvöldum hvílir lögbundin skylda til að veita fullkomnustu heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma sem tök eru á að veita. Sú skylda rímar við stjórnarskrárvarin réttindi fólks til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli o.fl. í 76. gr. stjórnarskrárinnar. Á ríkinu hvílir skylda til að standa vörð um þessi réttindi borgaranna sem eru jafnrétthá og önnur stjórnarskrárvarin réttindi, t.a.m. atvinnufrelsi, eignaréttur og friðhelgi einkalífs. Það er nefnilega ekki skylda almennings að láta af hendi borgaraleg réttindi sín til þess að verja heilbrigðiskerfi ríkisins. Það er því mjög mikilvægt að í sóttvarnalög verði ekki lögfest ákvæði sem gerir ráðherra kleift að takmarka ýmis stjórnarskrárvarin réttindi fólks vegna vandræða stjórnvalda við að uppfylla önnur!
Höfundur er lögmaður og verkefnastjóri á samkeppnishæfnisviði Samtaka atvinnulífsins.
One Comment on “Samfélagslega hættuleg sóttvarnalög?”
Vá takk innilega fyrir að skrifa þessa grein og minna á þetta.
Vá hvað þetta getur annars verið að „svindla“ sér framhá okkur og inn í lög.