Helförin grundvallaðist á löghlýðnum borgurum – ,,meðfærileg góðmenni“

frettinPistlarLeave a Comment

Eftir Kristján Þór Sverrisson:

Þau ykkar sem hafið horft á þríeykið með glýju í augunum og fundist gott hvernig Þórólfur herðir og slakar á víxl eruð sömu gerðar og vesalingarnir sem litu undan hér um árið.

Fyrir margt löngu í Þýskalandi vann ég við heimahjúkrun. Skjólstæðingar mínir voru flestir á milli tvítugs og þrítugs í stríðinu og vegna þess að ég hef aldrei kunnað mig spurði ég stundum:
“Hvað gerðist þarna um árið? Hvað voruð þið eiginlega að spá?”
“Gott þú spurðir… Við brugðumst… Ég var bara fjósamaður í sveit…”

Svör fólksins staðfestu grun minn: Helförin grundvallaðist á löghlýðnum borgurum. Í grunninn gott fólk sem mátti ekki vamm sitt vita, gerðist sekt um að hlýða og eða líta undan. Þannig sýkti illskan heila þjóð.
Það gerðist ekki á einni nóttu.
Smátt og smátt hafði áróðursmaskínan dregið upp mynd af hræðilegum óvin. Forsendur og afleiðingar sálsýkinnar voru meðal annars:

- Tengslarof
- Tilgangsleysi
- Óskilgreindur ótti
- Óskilgreind gremja

Fullkominn jarðvegur fyrir þjóðarmorð. Fyrst þurfti bara að beina óttanum og gremjunni að réttum hópi manna og í því öðlaðist lífið tilgang sem svo fullkomnaðist í opnum fjöldagröfum. Foringjanum allt.

Undanfarin tvö ár hefur sjálfsögðu frelsi manna verið skipt út fyrir vernd gegn veiru. Valdar niðurstöður aðgerðanna gefur að líta hér fyrir neðan:

- Samkvæmt WEF og UNICEF er talið að vegna sóttvarnaaðgerða hafi um 150 milljónir manna færst úr millistétt til fátæktar og sárafátæktar. Fátækt kvelur og sárafátækt drepur. Það er gömul saga og ný að svona kemur verst niður á þeim sem minnst mega sín.
- Víða um heim eru nú lítil börn sem muna ekki eftir sér og fólkinu í kringum sig öðruvísi en með grímu.
- Í Þýskalandi hefur unglingum sem þurfa gjörgæslumeðferð eftir sjálfsmorðstilraun fjölgað fjórfalt í faraldrinum.
- Gamalt fólk hefur verið lokað inni í einangrun og dáið aðskilið frá sínum nánustu.
- Heimilisofbeldi hefur víða margfaldast og vímuefnaneysla sömuleiðis.
- Aðgerðir út um allan heim hafa leitt til samþjöppunar auðs og valda. Hinir ríku hafa orðið ríkari og fátæku fátækari.

Ég er ekki á móti bólusetningum sem slíkum og efast ekki um að Covid sé öndunarfærasýking af verri gerðinni. En ég er á móti alræði, frelsissviptingum og fasisma. Það hvernig heimurinn hefur gengið í takt eftir boðum lítils hóps manna sl. tvö ár hefur í einu orði sagt verið skelfilegt. En verst af öllu er að fylgjast með öllum meðfærilegu góðmennunum. Fólki sem lítur undan og tryggir illskunni framgang, í þeirri trú að það sé alltaf gott að hlýða.

Þau ykkar sem hafið horft á þríeykið með glýju í augunum og fundist gott hvernig Þórólfur herðir og slakar á víxl eruð sömu gerðar og vesalingarnir sem litu undan hér um árið.

Skildu eftir skilaboð