Páll Steingrímsson blaðamaður og kennari skrifar:
Þóra Arnórsdóttir á RÚV fékk síma Páls skipstjóra Steingrímssonar og afritaði innihaldið. En RÚV birti enga frétt úr síma Páls, það gerðu Kjarninn og Stundin.
Þóra viðurkennir i viðtali á visir.is að eiga aðild að málinu en gefur enga skýringu á hlutverki sínu í byrlun, stuldi og afritun á síma Páls.
Tíðkast það að RÚV sjái um að afla heimilda fyrir fréttum en láta aðra fjölmiðla um að birta fréttirnar? Finnst Stefáni útvarpsstjóra eðlilegt að ráðstafa þannig opinberum fjármunum?
Í þessu tilfelli gengur RÚV raunar skrefi lengra og skaffar Stundinni starfsmann, Aðalstein Kjartansson, sem fluttur var af RÚV á Stundina 4 dögum áður en byrlað var fyrir Pál skipstjóra og símanum stolið af honum. Næsti yfirmaður Aðalsteins var Þóra Arnórsdóttir.
Þóra og Aðalsteinn, ásamt Þórði Snæ á Kjarnanum, létu halda útifund fyrir sig á Austurvelli undir því yfirskini að þau væru að vernda heimildarmenn. Í greinargerð lögreglu, vegna kæru Aðalsteins, segir í fyrsta tölulið: ,,Í þessu máli er engin þörf á að fjalla um heimild fjölmiðlamanna til að vernda heimildarmenn sína. Lögreglan veit hver heimildarmaðurinn er. Heimildarmaðurinn er X."
Hvaða tilgangi þjónaði leiksýningin á Austurvelli? Jú, slá ryki í augu almennings.
X, sem er einstaklingur nákominn Páli skipstjóra, varð fyrir töluverðri ágengni af hálfu fjölmiðlamanna sem grunaðir eru. Eftir að lögreglurannsókn hófst á síðasta ári var Aðalsteinn í sambandi við X að ræða ,,væntanlega skýrslutöku hjá lögreglu." Fjölmiðlamennirnir tóku síma X traustataki til að eyða gögnum sem bendluðu þá við byrlun og stuld á síma skipstjórans sl. vor.
Í greinargerð lögreglu segir ,,Í símasamskiptum þessum kemur fram að fjölmiðlamaður er með í fórum sínum síma í eigu X." Þóra, Aðalsteinn og Þórður Snær hafa náð slíku tangarhaldi á X að þau gátu heimtað að viðkomandi léti af hendi einkasíma sinn. Ekki var nóg að véla um stuld á síma Páls skipstjóra heldur var einkasími heimildarmannsins, X, kúgaður af honum til að fela slóðina. Blaðamennirnir nýttu sér valdamismun og beygðu manneskju í sárum í duftið.
Greinargerð lögreglu er varfærnislega orðuð og snýr aðeins að aðild Aðalsteins, enda var það hann sem kærði að vera kallaður til yfirheyrslu sem grunaður.
En það má lesa á milli línanna að blaðmennirnir hafi komið fram af yfirgangi og beitt hótunum til að ná sínu fram. Ljótari atburðir eiga eftir að koma á daginn.
Samsærið á Glæpaleiti versnar er málsgögnum fjölgar. Engin furða að yfirstjórn RÚV leggi sig í lima að hindra framgang réttvísinnar. Glæpir eru yfirleitt í fleirtölu, ekki eintölu.