Norsk yfirvöld hafa leyft samtökum á pari við ISIS að starfa í landinu

frettinErlentLeave a Comment

Fréttin sagði nýlega frá því að maðurinn sem skaut á fólk fyrir utan hinseginbar í Osló hafi verið í tengslum við róttækan íslamista að nafni Arfan Bhatti sem hafi sett mynd af brennandi regnbogafána og texta hadíðu er hvetur til drápa á þeim er aðhafast hið sama og fólk Lots, þ.e. fólkið í Sódómu og Gómorru, á Facebook hjá sér. Já, hann fékk að hafa Facebook reikning og já, menn grunar að hatursáróður Bhatti hafi verkað sem hvatning til illvirkisins.

Norska blaðið VG sagði frá því að dómsmálaráðherra landsins, Emilie Enger Mehl, vildi láta fara fram skoðun á því hvort öryggislögreglan (PST) og almenna lögreglan hefðu vanmetið hættuna sem stafaði af Zaniar Matapour sem kom 12 ára frá kúrdíska hluta Írans með foreldrum sínum og hafði langa sakaskrá. Í apríl í vor hafði lögreglan nefnilega afskipti af honum og Arfan Bhatti þar sem þeir sátu saman í bíl, mættir á SIAN (Stop Islamisation Av Norge) mótmæli, og hefur VG áður sagt frá því að hann hefði haft hníf í fórum sínum. Samt taldi lögreglan ekki að hætta stafaði af Matapour og PST hefur greinilega ekki fylgst með því hverju Bhatti var að pósta á Facebook. Auðvitað áttu Jon Erik Isachsen (54) og Kåre Arvid Hesvik (60) ekki að mæta örlögum sínum svo fyrirvaralaust og 19 aðrir að verða fyrir skoti úti á götu í Oslo miðri. Einhverjir hafa brugðist, það er augljóst.

Yfirvöldum mun hafa fundist öruggara að slá Gay Pride hátíðahöldin af því ef til vill er ekki svo auðvelt að fylgjast með öllum félögum og fylgismönnum Bhatti. Samkvæmt Wikipediu er hann er fæddur í Noregi en kom út úr skápnum sem íslamisti 2012 og er aðalmaðurinn í öfgasamtökunum Profetens Ummah sem eru svo róttæk að Islam Net, stærstu samtök salafista í Noregi hafa afneitað þeim og lýsa þeim sem kharijítum, en svo nefndist fyrsti öfgahópur múslima. Þeir voru alræmdir fyrir ofbeldi og morð, m.a. á einum af fyrstu kalífunum en það sem einkenndi þá helst var sú sannfæring að þeir hefðu alltaf rétt fyrir sér en aðrir væðu í villu og svíma (kunnuglegt úr nútímanum). Hópurinn hafði 641 meðlim á Facebook áður en aðganginum var lokað og margir meðlimanna hafa farið til Sýrlands til að berjast með ISIS.

Baráttugöngur hinseigin fólks eiga hvergi upp á pallborðið í löndum múslima, þó þær séu ekki alls staðar bannaðar. Tyrkir leyfðu þær 2003 en þær hafa verið bannaðar í Istanbul frá 2015 (Erdogan áhrifin). Íbúar Istanbul reyna samt að ganga en á sunnudaginn var stöðvaði fjölmennt lögreglulið göngu þeirra, samkvæmt France24, og handtók meira en 200 göngumenn auk helsta ljósmyndara AFP, Bulent Kilic.

Samkynhneigðir illa séðir meðal múslima

Af hverju er samkynhneigt fólk illa séð meðal múslima og jafnvel talið réttdræpt? Jú, sagan af Lot, sem kemur fyrir í Biblíunni í Fyrstu Mósebók, kafla 19, er líka í Kóraninum. Vilji menn bera frásagnirnar saman er 11: 74 - 83 trúlega besta gerðin; frekar en 15:54 - 74 en þar segja englarnir Lot að þeir séu komnir til að bjarga honum áður en múgurinn hópast að húsi hans, öfugt við söguna í Fyrstu Mósebók.

Svo eru það hadíðurnar. Í söfnum Al Tirmidhi og Abu-Dawood, sem eru hluti af kanónunni, er það haft eftir Abdullah ibn Abbas, samverkamanni Múhammeðs að hann hafi sagt: „Finnirðu einhvern sem gerir það sem fólk Lots gerði, dreptu þá þann er það stundar en einnig mótaðilann.“ Að vísu virðast þessi fyrirmæli ekki hafa ratað inn í virtustu hadíðusöfnin tvö; hvorki Bukhari né Muslim hafa tekið þessa hadíðu með og rökstyðja mætti að þeir hefðu ekki talið heimildina trausta en óvild gegn samkynhneigðum má sjá víða í hadíðusöfnunum.

En hvað með ábyrgð yfirvalda? Af hverju hafa íslömsk öfgasamtök fengið að starfa í svo mörgum löndum Evrópu? Af hverju hefur Bhatti fengið að agitera fyrir íslömsku ríki er stýrt væri af sjaríalögum og safna fylgendum í Noregi, fylgendum sem aðhyllast hugmyndafræði á pari við ISIS? Ættu ekki þeir sem ógna þjóðaröryggi að vera bak við lás og slá? Vilja norsk yfirvöld hafa hlutina svona? Vilja þau leyfa kharijítum að herja á innflytjendur og innprenta þeim róttækustu og öfgafyllstu gerð af íslam sem er í boði í heiminum? Hvað varð um hugmyndina um Evróíslam? Var hún blekking?

Skildu eftir skilaboð