Sænska ríkisstjórnin skrifaði undir það nýverið að framselja 73 hryðjuverkamenn (sem eru það trúlega fæstir) en segir jafnframt að framsalið sé háð sænskum lögum og Evrópulögum, sem þýðir að enginn verður framseldur. Tyrkir hafa tvívegis frá 2007 reynt að fá einn sem er á listanum, Cemil Aygan, framseldan fyrir morð, morðtilraunir, íkveikjur og fleira en hæstiréttur Svía hafnað því. Hann var til skamms tíma sveitarstjórnarmaður í Tingsryd fyrir Moderaterne þar til hann skrifaði á Facebook að Rasmus Paludan ætti skilið að brenna til dauða fyrir að brenna Kóraninn og óskaði honum sömu örlaga og Lars Vilks.
Það þarf mikið til að Svíar sendi einhverja úr landi. Fyrir nokkrum árum spurði Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókratanna, þáverandi forsætisráðherra Stefan Löfven, um skýringu á því að 4 af 5 erlendum nauðgurum í Svíþjóð væru ekki sendir úr landi, en fékk engin svör. Hann hefur oft bent á tregðu Svía til að senda afbrotamenn, jafnvel þá er hafi framið gróf brot, úr landi.
Mannréttindasamþykktir Evrópu og útsjónarsamir lögfræðingar koma í veg fyrir margar brottvísanir. Nýlega mætti Maggie Oliver, lögreglufulltrúinn sem fletti ofan af nauðgaragenginu í Rochdale, í viðtal hjá Nigel Farage á GB News og sagði að þrátt fyrir loforð Theresu May yrði trúlega enginn af þeim níu Pakistönum sem fóru í fangelsi 2012 sendur úr landi. Á tveggja ára tímabili gerðu þeir 47 stúlkur allt niður í 12 ára að kynlífsþrælum og sendu þær með leigubílum milli staða og þáðu háar fjárhæðir fyrir.
Maggie vill meina að mennirnir hafi afsalað sér mannréttindum þegar þeir gerðu það sem þeir gerðu. Hvað með mannréttindi stúlknanna? spyr hún og finnst ekki sem þær eigi að eiga á hættu að mæta kvölurum sínum úti á götu í Rochdale og endurupplifa þar með allan óhugnaðinn. Grein Mannréttindasáttmálans um rétt til fjölskyldulífs er gjarnan notuð og nú verst einn mannanna brottvísun með því að sonur sinn þurfi á sér að halda.