Ríkisstjóri Flórída, Ron DeSantis, sakaði Joe Biden stjórnina um að samþykkja COVID-19 bóluefni fyrir ung börn til að lyfjafyrirtækin myndu hagnast enn meira.
Á blaðamannafundi í Cape Coral gagnrýndi DeSantis Matvæla- og lyfjaeftirlitið (FDA) fyrir hægfara innflutning á lyfjum frá Kanada á sama tíma og stofnunin hraðaði samþykki bóluefnanna til að gera það aðgengilegt sem fyrst.
„FDA er í grundvallaratriðum dótturfyrirtæki lyfjarisanna,“ sagði DeSantis. „Og því hagar stofnunin sér í samræmi við það og styður bólusetningar barna.“
FDA veitti í síðasta mánuði neyðarleyfi fyrir Moderna og Pfizer COVID-19 bóluefni fyrir börn, sex mánaða til fimm ára. Nýjustu tölur í Bandaríkjunum sýna þó að aðeins 1,3 prósent barna í þessum aldurshópi hafi fengið Covid sprautur og í sumum ríkjum sé talan innan við 1 prósent.
Í sömu viku tilkynnti DeSantis að stjórn hans myndi mæla gegn Covid bóluefnum fyrir ung börn. Og í mars varð Joseph Ladapo, landlæknir Flórída, eini leiðtogi heilbrigðimála í öllu landinu sem mælti gegn notkun COVID-19 bóluefna fyrir börn til 17 ára aldurs.
DeSantis hefur sagt oftar en einu sinni að meðan hann er ríkisstjóri Flórída, verða engar skyldbólusetningar í ríkinu.