Úkraínsk flutningaflugvél, sem var að flytja hergögn frá Serbíu til Bangladesh, hrapaði nærri borginni Kavala í norðurhluta Grikklands í gær. Íbúum var sagt að forðast svæðið og halda gluggum og hurðum lokuðum.
Grísk yfirvöld segja að átta manns hafi verið um borð og talsmaður úkraínska utanríkisráðuneytisins staðfesti að þeir væru allir úkraínskir ríkisborgarar.
Flugmanninum tókst að gera grískum yfirvöldum viðvart um bilun í hreyfli vélarinnar og honum var gefinn kostur á að lenda annað hvort á Þessalóníku eða Kavala flugvellinum.
Hann valdi Kavala, sem var nær, en flugvélin hrapaði um 40 kílómetra vestur af flugvellinum. Heimamenn sögðust hafa séð mikla elda og reykjarstrók.
Varnarmálaráðherra Serbíu segir að flugvélin hafi verið með 11,5 tonn af vopnum og hergagnabúnaði. Svæðið þar sem flugvélin hrapaði var girt af og íbúum tveggja nærliggjandi þorpa hefur verið ráðlagt að halda gluggum og hurðum lokuðum og forðast svæðið þar sem slysið var.
Háttsettur heimildarmaður hjá flugmálastjórn Jórdaníu neitaði fyrstu fréttum um að vélin væri á leið til Jórdaníu og að samkvæmt flugáætluninni átti vélin aðeins að millilenda þar til að taka eldsneyti.
Farmurinn sjálfur var í eigu serbneska fyrirtækisins Valir, sem er skráð til að sinna utanríkisviðskiptum með vopn og hergögn.