Björn Jón Bragason sagnfræðingur og samfélagsrýnir, skrifar áhugaverðann pistil í DV sem ber yfirskriftina Fjörmeiri rökræðu, takk!.
Björn vísar í skoska heimspekinginn David Hume (1711–1776) og bók hans Rannsókn á skilningsgáfunni (sem Atli Harðarson þýddi snilldarlega fyrir mörgum árum). Þar kemur fram að þorri fólks hafi „náttúrulega tilhneigingu til þess að vera fullvisst í sinni sök og standa fast á skoðunum sínum. Menn líta hlutina aðeins frá einni hlið og hafa engar hugmyndir um andstæð rök, svo þeir gleypa í fljótræði við því sem þeim er að skapi, en vilja hvorki sjá né heyra þá sem aðhyllast andstæð viðhorf.“
þó svo að meira en hálf þriðja öld sé liðin frá því að þessi orð voru rituð þá ég er ekki frá því að þau fangi býsna vel margt í umræðu samtímans og svo ég vitni áfram í Hume þá bendir hann á að yrði þeim hinum sömu — sem eru þetta einstrengingslegir í hugsun — ljóst hve undarlega vanmáttug skilningsgáfan er (jafnvel í sinni mestu fullkomnun og nákvæmni og gætni í dómum sínum) þá yrðu þeir „hógværari og héldu frekar aftur af sér, og það drægi úr sjálfumgleði þeirra og fordómum í garð andstæðinga sinna“, skrifar Björn.
Önnur vogarskálin rís, hin fellur
Öfgar í umræðunni
Snemmsumars kom hingað til lands öðru sinni frægur kanadískur sálfræðingur, Jordan Peterson, en heimsókn hans hefur valdið miklu fjaðrafoki og höfð uppi mörg ljót orð um manninn og þau sjónarmið sem hann viðrar. Þar sem ég hef lítið lesið eftir Peterson og ekki hlýtt á fyrirlestra hans þá ætla ég ekki að leggjast í útleggingar á orðum hans. Aftur á móti finnst mér aðdáunarvert hvað hann virðist hafa góð áhrif á unga menn sem eru leitandi að svörum um lífið og tilveruna. Og ekki hef ég orðið var við að það sé annað en hollur og góður boðskapur um mikilvægi þess að standa sig vel í því sem maður tekur sér fyrir hendur — vera góður og nýtur borgari og öðlast trú á sjálfum sér.
Um það leyti sem Peterson var staddur hér á landi voru samfélagsmiðlar uppfullir af ýmist hatursfullum ummælum um Peterson ellegar háðsglósum. Argumentum ad hominem kölluðu Rómverjar hinir fornu þetta — þegar menn sökum rökleysis réðust að persónu andstæðings síns í stað þess að svara málflutningi hans efnislega.
Hume varaði samborgara sína við því að verða of vissir í sinni sök og sá sem þekkir aðeins aðra hlið máls þekkir málið alls ekki vel. Cicero (106–43 f. Kr.), einn mesti mælskumaður fornaldar, gaumgæfði ætíð rök andstæðinga sinna af jafnmiklum áhuga eða meira en sín eigin rök. Sannleikurinn kemur ekki fram nema hreinskiptar umræður um grundvallarrök geti átt sér stað.
Andstæðar skoðanir eiga að njóta fulls jafnréttis og gildir einu þó okkur kunni að finnast hin öndverða afstaða ógeðfelld — hún á jafnmikinn rétt á sér og okkar skoðun. Með rökræðum verður leitt í ljós hvor er sannari ellegar þær leiða okkur fyrir sjónir einhvern nýjan og áður huldan sannleik.
Rökræður um grundvallaratriði eru forsenda friðar og þar með sáttar í samfélaginu. John Stuart Mill (1806–1873) segir á einum stað í Frelsinu: „Hugsanafrelsi og málfrelsi eru ófrávíkjanleg skilyrði andlegrar velferðar mannkynsins og önnur velferð byggist á þeirri andlegu.“ Og þegar sönnu og ósönnu lýstur saman verður skynjunin skýrari og okkur birtist fjörmeiri mynd af sannleikanum.
Deiluefni þarf að útkljá með rökræðu
Björn segir að málfundur sem lýtur formföstum fundarsköpum skapi tækifæri til þess að öll helstu sjónarmið geti komið fram og fundarmenn þannig með hlutlægum hætti myndað sér skoðun á því deiluefni sem uppi er hverju sinni og eftir atvikum greitt atkvæði í lokin.
„Fundastarf af þessu tagi er því miður horfið, stjórnmálaflokkarnir standa ekki einu sinni lengur fyrir málfundum að heitið geti — hvað þá að efnt sé til kappræðna milli fulltrúa flokkanna.“
Hinir rótgrónari stærri fjölmiðlar hafa skyldur í þessu efni sem þeir mættu rækja: að halda uppi rökræðu þar sem margslungin álitaefni eru krufin en lítið fer fyrir vönduðum hringborðs- og pallborðsumræðum hér líkt og sjá má gjarnan í sjónvarpi nágrannalandanna."
Pistilinn í heild sinni má lesa hér