Ný gögn sýna að Covid-tilfelli í Singapúr og Nýja Sjálandi eru orðin fleiri en í Ástralíu í nýjustu Omicron-bylgjunni þrátt fyrir ofurstranga grímuskyldu í fyrrnefndu löndunum tveimur.
Grímur eru notaðar alls staðar í Singapúr og Nýsjálendingar eru neyddir til að vera með grímur á öllum opinberum stöðum innandyra, svo sem verslunarmiðstöðvum og bókasöfnum.
En bæði ríkin eru nú með hærri smittölur á hverja milljón í íbúa en Ástralía, þar sem grímuskylda hefur á flestum innanhússtöðum verið lögð niður.
Þessar tölur ættu að minnka þrýstinginn í Ástralíu á að setja upp grímur á ný, sem í dag er aðeins skylda í almenningssamgöngum, á öldrunarstofnunum og heilsugæslustöðvum i landinu.
Dauðsföll á Nýja-Sjálandi fóru einnig hlufallslega fram úr Ástralíu í byrjun mars, þrátt fyrir að Nýsjálendingar væru búnir að vera með afar stranga grímuskyldu og eru enn.
Í Singapúr fór dánartíðni niður fyrir Ástralíu í apríl eftir að hafa verið með hærri tíðni frá október til jóla, en dauðsföllum fjölgar nú gífurlega og mun fjöldinn verða hærri en í Ástralíu, enn og aftur.
Gögnum deilt á Twitter
Tölunum frá Singapúr var deilt á Twitter af áströlskum prófessor í smitsjúkdómum, Peter Collignon, þar sem umræða geisar nú um hvort þörf sé fyrir grímur.
Færslan, sem upphaflega var gerð af íbúa í Singapúr, sagði: „Singapúr hefur aldrei fallið frá grímuskyldu sinni. Kröfur eru gerðar um grímur innandyra á öllum tímum dags. Ástralir eru alls ekki mikið með grímur. Við skulum bera saman gögnin."
Gögnin hafa verið opinberuð þar sem börn eldri en átta ára í Viktoríu eru nú beðin um að vera með grímu í kennslustofum út veturinn þar sem smitum fer fjölgandi.
Hvatning en ekki skylda
Ríkisstjórnin hefur sagt að nemendur séu hvattir til að vera með grímu innandyra og í almenningssamgöngum, en það sé ekki skylda.
Foreldrar hafa lýst nýju reglunum sem „lymskulegri skyldu“ en fyrrverandi leiðtogi Verkamannaflokksins, Bill Shorten, sagði að hvetja ætti krakka til að vera með grímur þar sem hægt er.
„Við höfum verið í fjarnámi í 300 daga og skólarnir hafa verið lokaðir,“ sagði hann við Karl Stefanovic þegar hann kom fram í Today Show á þriðjudagsmorgun.
„Fyrir mér er þetta ekkert mál, viltu að barnið þitt sé veikt heima eða viltu að það hlaupi um með grímu?" sagði eitt foreldri.
Heilbrigðisráðherrar NSW og Viktoríu hafa báðir hingað til staðist vaxandi þrýsting á grímunotkun, en gagnrýnendur segja að yfirvofandi fylkiskosningar í október og nóvember séu aðalástæðan á bak við hvers kyns tafir á því að koma þeim aftur upp.
Nánar má lesa um málið og skoða tölfræðina í Daily Mail.