New York Times og Zeit: Úkraínumenn sprengdu Nordstream

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, Orkumál, Úkraínustríðið, Upplýsingaóreiða2 Comments

Bandaríska blaðið The New York Times og þýska blaðið Zeit birtu samtímis í dag frétt um að yfirvöld í Bandaríkjunum og Þýskalandi telji Úkraínumenn hafa sprengt Nordstream-gasleiðslurnar. Íslenskir fjölmiðlar, sem ekkert hafa fjallað um uppljóstrun bandaríska rannsóknarblaðamannsins Seymour Hersh eða John Dougan um málið, voru ekki lengi að taka við sér og höfðu það eftir þeim.

Hjá Zeit kemur fram að um sex manna hóp fólks, hliðhollum Úkraínu, með fölsuð vegabréf, hafi verið að ræða. Þau hafi farið á pólskri snekkju frá Rostock í Þýskalandi þann 6. september 2022 út að Borgundarhólmi í Eystrasalti. Sprengiefnaleifar eigi að hafa fundist í snekkjunni þar sem að hún hafi ekki verið þrifin þegar henni var skilað.

New York Times segir frá því að vestrænar leyniþjónustur gruni Úkraínumenn en jafnvel Rússa um að hafa framið hryðjuverkið. Leyniþjónustunum beri ekki saman og vilji ekki gefa frekari upplýsingar um hvernig þær komust að þessari niðurstöðu og málið sé óljóst.

Jafnframt segir að sumir embættismenn telji að Úkraína og bandamenn hennar hafi rökréttustu mögulegu ástæðuna til að ráðast á gasleiðslurnar. Þeir hafi verið á móti verkefninu í mörg ár og kallað það þjóðaröryggisógn, vegna þess að það myndi gera Rússum kleift að selja gas á auðveldari hátt til Evrópu. Yfirmenn Úkraínustjórnar og leyniþjónustu hersins segjast ekki hafa átt neinn þátt í árásinni og vita ekki hver framkvæmdi hana.

Þessi skyndilega uppljóstrun dagblaðanna kemur í framhaldi af hálf-leynilegum fundi Joe Biden Bandaríkjaforseta og Olaf Scholz, kanslara Þýskalands fyrir helgi. Athygli hafði vakið að Scholz ferðaðist til Washington á fund við Biden, án fylgdarliðs og fréttamanna.

Efasemdir sem vakna eftir þessa skyndilegu uppgötvun

Hafi Úkraína látið sprengja Nordstream-leiðslurnar, er um árás Úkraínu á NATO ríki að ræða. Þar með þyrfti að virkja 5. ákvæði NATO-sáttmálans, sem þýðir að NATO þarf að fara í stríð við Úkraínu. Eða hvað?

Sérfræðingar hafa bent á að hin flókna aðgerð og köfunarbúnaður sem þarf til að koma sprengjunum fyrir og að sprengja þær sé einungis á færi stjórnvalda með sérstakan búnað og hæfni til verksins. Einungis örfá ríki komi til greina og Úkraína sé ekki eitt af þeim.

Ríkin við Eystrasalt vakta svæðið mjög vandlega, en ekkert skálkaskjól á borð við BALTOPS22 æfingu NATO var til að dreifa þann 6. september sl. til að framkvæma þessa aðgerð eins og henni er lýst í þessum nýjustu fréttum.

Bandarískir embættismenn, höfðu í aðdraganda atviksins, og ýmist sagt að séð yrði til þess að bundinn yrði endi á Nordstream verkefnið, eða glaðst yfir endalokunum. Þar á meðal eru forseti Bandaríkjanna Joe Biden, Anthony Blinken utanríkisráðherra og aðstoðarutanríkisráðherrann Victoria Nuland.

2 Comments on “New York Times og Zeit: Úkraínumenn sprengdu Nordstream”

  1. Jæja ætli kaninn sé búinn að átta sig á því að þetta stríð sé tapað og ákveðið á að fórna endanlega vinum sínum í Úkraínu fyrir eigið hryðjuverk.

    Það eru yfirgnæfandi líkur að þetta séu þær þjóðir sem frömdu þetta hryðjuverk.
    BNA, Þýskaland, Polland, Svíþjóð, Danmörk og Noregur!

  2. Skrýtin samsuða. Bendir til þess að þeir sem raunverulega bera ábyrgð á hryðjuverkinu séu farnir að óttast afleiðingarnar.

Skildu eftir skilaboð