Fjölmiðlar hafa ekki tjáningarfrelsi: Tik-tok rás RÚV

frettinInnlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Tjáningarfrelsi er mannréttindi. Fyrirtæki og stofnanir geta ekki átt mannréttindi enda ekki manneskjur. Frekar einfalt að skilja, skyldi ætla. En formaður Blaðamannafélags Íslands er skilningslaus. Sigríður Dögg birtir fréttatilkynningu til að mótmæla takmörkuðu aðgengi fjölmiðla að hamfarabænum Grindavík

sem samræmist ekki því tjáningarfrelsi fjölmiðla og almennings sem tryggt er í stjórnarskrá. 

Formaður Blaðamannafélagsins fer vísvitandi með rangt mál. Fjölmiðlar hafa ekki og geta ekki haft tjáningarfrelsi. 73. grein stjórnarskrárinnar er skýr:

Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.

Hvergi er minnst á að fjölmiðlar hafa tjáningarfrelsi. Enda væri það álíka fáránlegt og segja reiðhjólaverkstæði njóta mannréttinda. 

Tilraun Sigríðar Daggar til að veita fjölmiðlum sérstaka réttarstöðu rímar við málflutning sakborninganna fimm í byrlunar- og símastuldsmálinu. Þeir telja sig hafna yfir landslög.

Frekja og yfirgangur blaðamanna, sem beita fjölmiðlum fyrir vagn sinn, er vaxandi og versnandi. Fréttaljósmyndari RÚV reyndi húsbrot í Grindavík til að afla frétta.

Þeir sem gæta hagsmuna almennings gagnvart ósvífnum blaðamönnum eru smátt og smátt að vakna til vitundar um að ekki sé allt með felldu. Á síðasta bókaða fundi stjórnar RÚV bað varaformaðurinn, Ingvar Smári Birgisson, um greinargerð frá útvarpsstjóra vegna rásar sem RÚV rekur á samfélagsmiðlinum Tik-Tok.

Af fyrirspurn Ingvars Smára að dæma finnast hótanir og níð á Tik-Tok rás RÚV. Ingvar Smári spyr um ábyrgð ríkisfjölmiðilsins og hvort rásin á Tik-Tok samrýmist lögbundnu hlutverki RÚV.

Ingvar Smári hefur áður séð sig knúinn að minna á að fréttastofa RÚV ,,starfi í samræmi við lög og virði friðhelgi borgaranna í hvívetna." Tilfallandi fjallaði um þá bókun.

Það er ótækt að ríkisfjölmiðillinn fari fremstur í flokki fjölmiðla sem undir yfirskini almannahagsmuna fótum troða mannréttindi borgaranna. Glæpaleiti er meinsemd í íslensku samfélagi. 

Skildu eftir skilaboð